Leiðir norræna skýrslugerð um alþjóða- og öryggismál

Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra mun skrifa nýja skýrslu þar sem gerðar verða tillögur um hvernig megi þróa samstarf Norðurlandanna á sviði utanríkis- og öryggismála enn frekar. Frá þessu er greint á vef utanríkisráðuneytisins – sjá hér.

„Það er mér mikil ánægja að náðst hafi samstaða um frekari eflingu norræns samstarfs á alþjóðavettvangi og ekki síður að Björn Bjarnason skyldi veljast til verksins. Fáir eru eins vel í stakk búnir til að móta framtíðarsýn í þessum málum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sem í gær var staddur í Stokkhólmi þar sem hann tók þátt í dagskrá Norðurlandaráðsþings.

Þá sagði hann einnig: „Efling samstarfsins var forgangsmál í formennsku Íslands í samstarfi norrænu utanríkisráðherranna og mikilvægt að náðst hafi sterk samstaða um þessa tillögu Íslands.“

Guðlaugur Þór tók þátt í umræðu þingsins um utanríkis- og öryggismál en auk þess hefur hann setið fundi utanríkisráðherra og þróunarmálaráðherra Norðurlandanna sem fara fram samhliða þinginu. Þá átti hann fundi með utanríkisráðherra Færeyja og skrifaði undir samkomulag Íslands, Noregs, Danmerkur og Færeyja um skiptingu landgrunns á Ægisdjúpi.