Lægri álögur á vistvæna samgöngumáta

Kaup á rafmagnsreiðhjólum og hefðbundnum reiðhjólum verða auðveldari verði frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta að lögum. Frumvarpið hefur nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Hámark niðurfellingar virðisaukaskatts af rafmagnsreiðhjólum verður 96 þúsund krónur og af hefðbundnum reiðhjólum 24 þúsund samkvæmt tillögunum sem þýðir að að hægt verður að kaupa rafmagnsreiðhjól sem kostar 400 þúsund krónur án þess að greiða virðisaukaskatt og reiðhjól sem kostar 100 þúsund krónur án þess að virðisaukaskattur komi til. Frá þessu er greint á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins – sjá hér.

Frumvarpinu er einnig ætla að greiða fyrir uppsetningu hleðslustöðva í íbúðarhúsnæði hér á landi með fullri endurgreiðslu virðisaukaskatts, bæði af vinnu og kaupum á hleðslustöðinni sjálfri, sem sett er upp í eða við íbúðarhúsnæði, s.s. í fjöleignarhúsum.

Af vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins

Tillögurnar koma einnig til með að hafa áhrif á rekstrarumhverfi fyrirtækja. Má þar nefna undanþágu á virðisaukaskatti vegna útleigu vistvænna bílaleigubíla sem nýtist viðskiptavinum þeirra og undanþágu á virðisaukaskatti vegna kaupa á vistvænum almenningsvögnum. Þá mun flýtifyrning nýorkubíla geta nýst öllum atvinnurekstraraðilum.

Tillögur frumvarpsins eiga m.a. rót sína að rekja til stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, aðgerðaráætlunar stjórnvalda um orkuskipti frá 2017 og aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftlagsmálum fyrir árin 2018-2030. Lagt er til að ívilnanirnar verði festar í sessi til nokkurs tíma.

Hér má nálgast frumvarpið í samráðsgáttinni.