Kerfisklær og skotgrafir

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Kerfið er á vakt­inni yfir eig­in vel­ferð og þegar að því er sótt get­ur það sýnt klærn­ar. Dæm­in eru mörg, misal­var­leg og hafa valdið ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um fjár­hagstjóni en einnig a.m.k. tíma­bundn­um álits­hnekki og erfiðleik­um. Tvö ný­leg dæmi eru langt frá því að vera þau al­var­leg­ustu held­ur gefa þau ákveðna inn­sýn í inn­gró­inn hugs­ana­hátt kerf­is­ins. Annað dæmið snert­ir Seðlabank­ann og sam­skipti við blaðamann, hitt er viðbrögð for­ráðamanna og vel­unn­ara Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins við frum­varps­drög­um ráðherra sam­keppn­is­mála sem lögð hafa verið fram til kynn­ing­ar og umræðu.

Á síðasta ári óskaði Ari Brynj­ólfs­son, blaðamaður Frétta­blaðsins, eft­ir því að Seðlabank­inn veitti hon­um upp­lýs­ing­ar um samn­ing bank­ans við fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra gjald­eyris­eft­ir­lits­ins, um styrk til náms í ein­um dýr­asta há­skóla heims. Bank­inn neitaði. Úrsk­urðar­nefnd upp­lýs­inga­mála komst að því að Seðlabank­an­um bæri að af­henda umbeðnar upp­lýs­ing­ar. Brugðist var hart við og blaðamann­in­um stefnt. Héraðsdóm­ur felldi dóm fyr­ir nokkru: Seðlabank­inn skyldi láta upp­lýs­ing­arn­ar af hendi.

Nú ligg­ur fyr­ir af hverju bank­inn – kerfið – taldi rétt að verj­ast og leggja steina í göt­ur blaðamanns sem var að sinna skyld­um sín­um við les­end­ur. Náms- og starfs­loka­samn­ing­ur­inn sem gerður var við fyrr­ver­andi yf­ir­mann gjald­eyris­eft­ir­lits­ins þoldi illa dags­ins ljós, hvorki gagn­vart al­menn­ingi né öðrum starfs­mönn­um Seðlabank­ans sem hafa kom­ist að því að jafn­ræðis­regla var að engu höfð.

Harka­leg vörn

Sig­urður Kári Kristjáns­son hæsta­rétt­ar­lögmaður á sæti í bankaráði Seðlabank­ans. Í sam­tali við Frétta­blaðið í síðustu viku sagði Sig­urður Kári samn­ing­inn mjög óeðli­leg­an: „Hann er úr öllu hófi sam­kvæmt öll­um hefðbundn­um mæli­kvörðum.“ Bankaráðsmaður­inn ef­ast um að þáver­andi seðlabanka­stjóri hafi haft laga­lega heim­ild til að gera samn­ing af þessu tagi.

Harka­leg vörn Seðlabank­ans til að koma í veg fyr­ir að blaðamaður fengi þær upp­lýs­ing­ar sem beðið var um vekja end­ur­minn­ing­ar um fram­kvæmd gjald­eyris­eft­ir­lits bank­ans, sem hef­ur sætt harðri gagn­rýni. Í svari for­sæt­is­ráðherra frá í janú­ar við fyr­ir­spurn Birg­is Þór­ar­ins­son­ar þing­manns kem­ur fram að Seðlabank­inn hafi frá 2012 til 2016 lagt 115,9 millj­óna króna stjórn­valds­sekt­ir á fyr­ir­tæki vegna meintra brota á gjald­eyr­is­lög­um og þeim regl­um um gjald­eyr­is­mál sem bank­inn setti á grund­velli þeirra. Dóm­stól­ar hafa hins veg­ar gert rík­is­sjóði að end­ur­greiða 114,2 millj­ón­ir, eða nær 99% þeirra sekta sem Seðlabank­inn taldi eðli­legt.

Stjórn­valds­sekt­irn­ar eru því miður ekki versta birt­ing­ar­mynd gjald­eyris­eft­ir­lits­ins og fram­kvæmd þess.

„Blaut­ir draum­ar“

Ekki liðu marg­ar klukku­stund­ir frá því að ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra kynnti drög að frum­varpi til breyt­inga á sam­keppn­is­lög­um þar til snú­ist var til varn­ar. Fyrr­ver­andi formaður Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins og sitj­andi formaður bankaráðs Seðlabank­ans var orðhepp­inn í sam­tali við Frétta­blaðið og talaði um verið væri að „láta blauta drauma fákeppn­ismó­gúla ræt­ast“. For­stjór­inn lýsti yfir von­brigðum og þá ekki síst að lagt væri til að fella úr gildi rétt eft­ir­lits­ins til að áfrýja ákvörðunum áfrýj­un­ar­nefnd­ar sam­keppn­is­mála. „Verði frum­varpið að lög­um mun eng­inn gæslumaður al­manna­hags­muna geta borið úr­sk­urði nefnd­ar­inn­ar und­ir dóm­stóla,“ sagði for­stjór­inn í Viðskipta­blaðinu sama dag og frum­varps­drög­in voru kynnt. Þannig var gefið und­ir fót­inn með að úr­sk­urðar­nefnd sam­keppn­is­mála gætti ekki hags­muna al­menn­ings.

Hér skal látið vera að for­stjóri Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins tali niður úr­sk­urðar­nefnd sam­keppn­is­mála með þeim hætti sem hann ger­ir. Og að þessu sinni verður ekki gagn­rýnt að kerfið skuli inn­an nokk­urra klukku­stunda bregðast við af fullri hörku þegar ráðherra kynn­ir laga­frum­varp í sam­ráðsgátt og ósk­ar eft­ir at­huga­semd­um, ábend­ing­um og umræðu. Gíf­ur­yrði og orðal­eik­ir (smíðaðir á PR-stof­um) skila hins veg­ar litl­um ár­angri og þjóna hvorki hags­mun­um al­menn­ings né at­vinnu­lífs­ins.

Snýst um rétt­indi borg­ar­anna

Ég hef lengi haldið því fram að rök­semd­ir fyr­ir því að lægra sett stjórn­vald (í þessu til­felli Sam­keppnis­eft­ir­litið) geti skotið ákvörðunum æðra stjórn­valds (hér úr­sk­urðar­nefnd­ar sam­keppn­is­mála) til dóm­stóla gangi ekki upp. Þetta snýst um rétt­indi borg­ar­anna – fyr­ir­tækj­anna – ekki um rétt­indi eft­ir­litsaðila eða stofn­un­ar. Hér er um mikið hags­muna­mál að ræða fyr­ir at­vinnu­lífið, ekki síst minni fyr­ir­tæki sem standa ber­skjölduð gagn­vart stjórn­valdi. Við höf­um mörg dæmi um það hvernig mál hafa dreg­ist þannig að ein­stak­ling­ar og fyr­ir­tæki bíða árum sam­an eft­ir niður­stöðu í mál­um sín­um. Ég fæ illa séð hvernig slíkt þjón­ar al­manna­hags­mun­um.

Ef niðurstaðan verður sú að rétt sé að Sam­keppnis­eft­ir­litið eigi að geta skotið úr­sk­urði æðra stjórn­valds til dóm­stóla er miklu hrein­legra og betra að leggja áfrýj­un­ar­nefnd sam­keppn­is­mála niður. Sá sem skýt­ur sínu máli til áfrýj­un­ar­nefnd­ar get­ur aldrei treyst því að niðurstaða nefnd­ar­inn­ar sé end­an­leg frá hendi sam­keppn­is­yf­ir­valda. Í þessu sam­bandi er vert að hafa í huga að ákvörðun Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins verður ekki bor­in und­ir dóm­stóla fyrr en úr­sk­urður áfrýj­un­ar­nefnd­ar ligg­ur fyr­ir.

Seint verður hægt að und­ir­strika nægj­an­lega hversu mik­il­væg virk sam­keppni er fyr­ir al­menn­ing en ekki síður fyr­ir­tæki. Í grein­ar­gerð sem fylg­ir frum­varps­drög­un­um er bent á að sam­keppn­is­lög byggi á þeirri hugs­un að virk sam­keppni sé þjóðhags­lega hag­kvæm og leiði til auk­inn­ar al­menn­ar hag­sæld­ar: „Þannig hef­ur verið sýnt fram á að fyr­ir­tæki sem búa við öfl­ugt sam­keppn­isaðhald eru lík­legri til að efl­ast, leita hagræðing­ar og ný­sköp­un­ar og auka fram­leiðni og eru þannig bet­ur búin til að mæta virkri sam­keppni bæði á inn­lands­mörkuðum og á alþjóðleg­um mörkuðum. Auk öfl­ugri fyr­ir­tækja er einn helsti ábati virkr­ar sam­keppni lægra verð og meiri gæði á vör­um og þjón­ustu, meira og betra fram­boð og aukið val­frelsi neyt­enda.“

Flest til bóta en…

Harka­leg viðbrögð for­ráðamanna Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins við frum­varps­drög­un­um eru um­hugs­un­ar­verð. Sum­ir eru fljót­ari en aðrir að taka sér stöðu í skot­gröf­un­um. Ekki verður séð að há­stemmd­ar yf­ir­lýs­ing­ar um að verið sé að veikja Sam­keppnis­eft­ir­litið eigi við rök að styðjast. Hitt er rétt að í nokkru er mark­mið breyt­ing­anna að ein­falda fram­kvæmd sam­keppn­islaga og auka skil­virkni. Það er í sam­ræmi við yf­ir­lýs­ing­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar til stuðnings lífs­kjara­samn­ings aðila vinnu­markaðar­ins fyrr á þessu ári.

Drög­in að breyt­ing­um á sam­keppn­is­lög­um eru í flestu til bóta. Mik­il­væg­asta hlut­verk sam­keppn­is­yf­ir­valda er að stuðla að eðli­legri og sann­gjarnri sam­keppni og heil­brigðum viðskipta­hátt­um á mörkuðum með hags­muni neyt­enda og at­vinnu­lífs­ins að leiðarljósi. Þess vegna á að leggja áherslu á leiðbein­andi hlut­verk Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins. Refsi- og aga­vald á alltaf að vera neyðarúr­ræði. Þetta á ekki aðeins við um Sam­keppnis­eft­ir­litið held­ur all­ar eft­ir­lits­stofn­an­ir og stjórn­kerfið í heild.

Á þessu þarf að skerpa í lög­um. Einnig er vert að huga að því að setja inn laga­ákvæði um sjálf­stætt reglu­bundið ytra mat á sam­keppn­is­lög­un­um, starf­semi og ár­angri Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins. (Sam­bæri­legt ákvæði er í nýj­um lög­um um Seðlabank­ann.) Úttekt­in færi fram á fimm ára fresti og væri unn­in af óháðum sér­fræðing­um á sviði sam­keppn­is­mála. Á fleira má benda, s.s. að styrkja stöðu einka­fyr­ir­tækja í sam­keppni við op­in­bera aðila.

Ástæða er til að ótt­ast að erfitt verði að eiga efn­is­leg­ar rök­ræður um nauðsyn­leg­ar breyt­ing­ar á sam­keppn­is­lög­un­um í skot­gröf­um gíf­ur­yrða og klisju­kenndra orðal­eppa.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. október 2019.