Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Kerfið er á vaktinni yfir eigin velferð og þegar að því er sótt getur það sýnt klærnar. Dæmin eru mörg, misalvarleg og hafa valdið einstaklingum og fyrirtækjum fjárhagstjóni en einnig a.m.k. tímabundnum álitshnekki og erfiðleikum. Tvö nýleg dæmi eru langt frá því að vera þau alvarlegustu heldur gefa þau ákveðna innsýn í inngróinn hugsanahátt kerfisins. Annað dæmið snertir Seðlabankann og samskipti við blaðamann, hitt er viðbrögð forráðamanna og velunnara Samkeppniseftirlitsins við frumvarpsdrögum ráðherra samkeppnismála sem lögð hafa verið fram til kynningar og umræðu.
Á síðasta ári óskaði Ari Brynjólfsson, blaðamaður Fréttablaðsins, eftir því að Seðlabankinn veitti honum upplýsingar um samning bankans við fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins, um styrk til náms í einum dýrasta háskóla heims. Bankinn neitaði. Úrskurðarnefnd upplýsingamála komst að því að Seðlabankanum bæri að afhenda umbeðnar upplýsingar. Brugðist var hart við og blaðamanninum stefnt. Héraðsdómur felldi dóm fyrir nokkru: Seðlabankinn skyldi láta upplýsingarnar af hendi.
Nú liggur fyrir af hverju bankinn – kerfið – taldi rétt að verjast og leggja steina í götur blaðamanns sem var að sinna skyldum sínum við lesendur. Náms- og starfslokasamningurinn sem gerður var við fyrrverandi yfirmann gjaldeyriseftirlitsins þoldi illa dagsins ljós, hvorki gagnvart almenningi né öðrum starfsmönnum Seðlabankans sem hafa komist að því að jafnræðisregla var að engu höfð.
Harkaleg vörn
Sigurður Kári Kristjánsson hæstaréttarlögmaður á sæti í bankaráði Seðlabankans. Í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku sagði Sigurður Kári samninginn mjög óeðlilegan: „Hann er úr öllu hófi samkvæmt öllum hefðbundnum mælikvörðum.“ Bankaráðsmaðurinn efast um að þáverandi seðlabankastjóri hafi haft lagalega heimild til að gera samning af þessu tagi.
Harkaleg vörn Seðlabankans til að koma í veg fyrir að blaðamaður fengi þær upplýsingar sem beðið var um vekja endurminningar um framkvæmd gjaldeyriseftirlits bankans, sem hefur sætt harðri gagnrýni. Í svari forsætisráðherra frá í janúar við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar þingmanns kemur fram að Seðlabankinn hafi frá 2012 til 2016 lagt 115,9 milljóna króna stjórnvaldssektir á fyrirtæki vegna meintra brota á gjaldeyrislögum og þeim reglum um gjaldeyrismál sem bankinn setti á grundvelli þeirra. Dómstólar hafa hins vegar gert ríkissjóði að endurgreiða 114,2 milljónir, eða nær 99% þeirra sekta sem Seðlabankinn taldi eðlilegt.
Stjórnvaldssektirnar eru því miður ekki versta birtingarmynd gjaldeyriseftirlitsins og framkvæmd þess.
„Blautir draumar“
Ekki liðu margar klukkustundir frá því að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti drög að frumvarpi til breytinga á samkeppnislögum þar til snúist var til varnar. Fyrrverandi formaður Samkeppniseftirlitsins og sitjandi formaður bankaráðs Seðlabankans var orðheppinn í samtali við Fréttablaðið og talaði um verið væri að „láta blauta drauma fákeppnismógúla rætast“. Forstjórinn lýsti yfir vonbrigðum og þá ekki síst að lagt væri til að fella úr gildi rétt eftirlitsins til að áfrýja ákvörðunum áfrýjunarnefndar samkeppnismála. „Verði frumvarpið að lögum mun enginn gæslumaður almannahagsmuna geta borið úrskurði nefndarinnar undir dómstóla,“ sagði forstjórinn í Viðskiptablaðinu sama dag og frumvarpsdrögin voru kynnt. Þannig var gefið undir fótinn með að úrskurðarnefnd samkeppnismála gætti ekki hagsmuna almennings.
Hér skal látið vera að forstjóri Samkeppniseftirlitsins tali niður úrskurðarnefnd samkeppnismála með þeim hætti sem hann gerir. Og að þessu sinni verður ekki gagnrýnt að kerfið skuli innan nokkurra klukkustunda bregðast við af fullri hörku þegar ráðherra kynnir lagafrumvarp í samráðsgátt og óskar eftir athugasemdum, ábendingum og umræðu. Gífuryrði og orðaleikir (smíðaðir á PR-stofum) skila hins vegar litlum árangri og þjóna hvorki hagsmunum almennings né atvinnulífsins.
Snýst um réttindi borgaranna
Ég hef lengi haldið því fram að röksemdir fyrir því að lægra sett stjórnvald (í þessu tilfelli Samkeppniseftirlitið) geti skotið ákvörðunum æðra stjórnvalds (hér úrskurðarnefndar samkeppnismála) til dómstóla gangi ekki upp. Þetta snýst um réttindi borgaranna – fyrirtækjanna – ekki um réttindi eftirlitsaðila eða stofnunar. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir atvinnulífið, ekki síst minni fyrirtæki sem standa berskjölduð gagnvart stjórnvaldi. Við höfum mörg dæmi um það hvernig mál hafa dregist þannig að einstaklingar og fyrirtæki bíða árum saman eftir niðurstöðu í málum sínum. Ég fæ illa séð hvernig slíkt þjónar almannahagsmunum.
Ef niðurstaðan verður sú að rétt sé að Samkeppniseftirlitið eigi að geta skotið úrskurði æðra stjórnvalds til dómstóla er miklu hreinlegra og betra að leggja áfrýjunarnefnd samkeppnismála niður. Sá sem skýtur sínu máli til áfrýjunarnefndar getur aldrei treyst því að niðurstaða nefndarinnar sé endanleg frá hendi samkeppnisyfirvalda. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar liggur fyrir.
Seint verður hægt að undirstrika nægjanlega hversu mikilvæg virk samkeppni er fyrir almenning en ekki síður fyrirtæki. Í greinargerð sem fylgir frumvarpsdrögunum er bent á að samkeppnislög byggi á þeirri hugsun að virk samkeppni sé þjóðhagslega hagkvæm og leiði til aukinnar almennar hagsældar: „Þannig hefur verið sýnt fram á að fyrirtæki sem búa við öflugt samkeppnisaðhald eru líklegri til að eflast, leita hagræðingar og nýsköpunar og auka framleiðni og eru þannig betur búin til að mæta virkri samkeppni bæði á innlandsmörkuðum og á alþjóðlegum mörkuðum. Auk öflugri fyrirtækja er einn helsti ábati virkrar samkeppni lægra verð og meiri gæði á vörum og þjónustu, meira og betra framboð og aukið valfrelsi neytenda.“
Flest til bóta en…
Harkaleg viðbrögð forráðamanna Samkeppniseftirlitsins við frumvarpsdrögunum eru umhugsunarverð. Sumir eru fljótari en aðrir að taka sér stöðu í skotgröfunum. Ekki verður séð að hástemmdar yfirlýsingar um að verið sé að veikja Samkeppniseftirlitið eigi við rök að styðjast. Hitt er rétt að í nokkru er markmið breytinganna að einfalda framkvæmd samkeppnislaga og auka skilvirkni. Það er í samræmi við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamnings aðila vinnumarkaðarins fyrr á þessu ári.
Drögin að breytingum á samkeppnislögum eru í flestu til bóta. Mikilvægasta hlutverk samkeppnisyfirvalda er að stuðla að eðlilegri og sanngjarnri samkeppni og heilbrigðum viðskiptaháttum á mörkuðum með hagsmuni neytenda og atvinnulífsins að leiðarljósi. Þess vegna á að leggja áherslu á leiðbeinandi hlutverk Samkeppniseftirlitsins. Refsi- og agavald á alltaf að vera neyðarúrræði. Þetta á ekki aðeins við um Samkeppniseftirlitið heldur allar eftirlitsstofnanir og stjórnkerfið í heild.
Á þessu þarf að skerpa í lögum. Einnig er vert að huga að því að setja inn lagaákvæði um sjálfstætt reglubundið ytra mat á samkeppnislögunum, starfsemi og árangri Samkeppniseftirlitsins. (Sambærilegt ákvæði er í nýjum lögum um Seðlabankann.) Úttektin færi fram á fimm ára fresti og væri unnin af óháðum sérfræðingum á sviði samkeppnismála. Á fleira má benda, s.s. að styrkja stöðu einkafyrirtækja í samkeppni við opinbera aðila.
Ástæða er til að óttast að erfitt verði að eiga efnislegar rökræður um nauðsynlegar breytingar á samkeppnislögunum í skotgröfum gífuryrða og klisjukenndra orðaleppa.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. október 2019.