Birgir Ísleifur Gunnarsson fyrrverandi borgarstjóri, alþingismaður, menntamálaráðherra og seðlabankastjóri er látinn. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 28. október 2019.
Birgir Ísleifur fæddist í Reykjavík 19. júlí 1936. Foreldrar hans voru Gunnar Espólín Benediktsson, hrl. og forstjóri, og Jórunn Ísleifsdóttir ritari.
Birgir Ísleifur tók virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins um árabil. Hann var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, frá 1959 til 1962 og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna frá 1967 til 1969. Birgir Ísleifur sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins frá 1973 til 1991 og var formaður framkvæmdastjórnar Sjálfstæðisflokksins frá 1978 til 1987.
Birgir Ísleifur var kjörinn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur 26. maí 1962, 25 ára að aldri og sat þar í tvo áratugi, eða til ársins 1982. Þar af var hann borgarstjóri í sex ár frá 1972 til 1978.
Hann var alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Reykjavíkurkjördæmi í 12 ár frá 1979 til 1991 og gegndi embætti menntamálaráðherra frá 1987 til 1988.
Birgir Ísleifur var skipaður seðlabankastjóri árið 1991 og gengdi því starfi þar til hann fór á eftirlaun árið 2005, þar af var hann formaður bankastjórnar frá árinu 1994.
Birgir Ísleifur giftist Sonju Backman skrifstofustjóra árið 1956 og eignuðust þau fjögur börn. Sonja lést 5. október 2019.
Sjálfstæðisflokkurinn sendir fjölskyldu Birgis Ísleifs innilegar samúðarkveðjur við fráfall hans um leið og störf hans í þágu flokksins og sjálfstæðisstefnunnar eru þökkuð af heilum hug.