Ómerkilegar merkingar

Örn Þórðarson borgarfulltrúi:

Dreif­ing bú­setu á stór­höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur aukið vega­lengd­ir milli heim­ila og vinnustaða. Þessi þróun og nokk­urra ára stöðnun í upp­bygg­ingu um­ferðarmann­virkja hafa svo stöðugt aukið um­ferðarþung­ann og lengt biðraðir öku­tækja um alla borg.

Gegnum­um­ferð um íbúðar­hverfi eykst

Við þess­ar aðstæður eiga óþol­in­móðir öku­menn það til að flýja um­ferðartepp­ur á stofn- og tengi­braut­um inn í þröng­ar göt­ur íbúðar­hverfa þar sem börn eru á ferð til og frá skól­um sín­um. Um­ferðartaln­ing sýndi t.d. um­tals­verða aukn­ingu um­ferðar gegn­um Haga- og Mela­hverfið í kjöl­far breyt­inga á Hofs­valla­götu. Fylgj­ast verður vel með þess­ari óheillaþróun og sporna við henni.

Öryggi barna

Borg­ar­yf­ir­völd hafa svo bætt gráu ofan á svart með því að standa öðrum sveit­ar­fé­lög­um langt að baki í sam­ræmd­um um­ferðarmerk­ing­um í sam­ræmi við um­ferðarlög. Þetta á ekki síst við um merk­ing­ar gang­brauta. Þetta er forkast­an­legt ábyrgðarleysi gagn­vart ör­yggi og vel­ferð barna. Í stað þess að huga að ör­yggi þeirra og gera ung­um börn­um auðveld­ara að læra á um­hverfi sitt og hætt­ur þess með ein­föld­um, skýr­um og lög­bundn­um merk­ing­um gang­brauta hafa borg­ar­yf­ir­völd sofið á verðinum með marg­breyti­leg­um, óskýr­um og jafn­vel ruglandi merk­ing­um.

Það er löngu tíma­bært að gera sér­stakt átak í skýrri, sam­ræmdri og lög­boðinni merk­ingu gang­brauta og göngu­leiða fyr­ir börn í ná­grenni skól­anna þeirra. Merk­ing­arn­ar þurfa að vera auðskild­ar, greini­leg­ar og vel sýni­leg­ar. Fjar­lægja þarf gróður og aðra fyr­ir­stöðu sem byrg­ir sýn, hvort sem er fyr­ir börn­um og veg­far­end­um eða öku­mönn­um. Bæta þarf lýs­ingu og lengja tíma sem kveikt er á götu­ljós­um.

Útivist, hreyf­ing og ör­yggi

Það er bein­lín­is ábyrgðar­hluti að hvetja börn­in og for­eldra þeirra til að ganga eða hjóla í skól­ann ef við ger­um ekk­ert til að bæta ör­yggi í hví­vetna. Allt of mörg dæmi hafa verið um óhöpp og slys á börn­um á síðustu mánuðum en fram und­an er nú skamm­degið með myrkri og verri færð.

Ef það er raun­veru­leg­ur ásetn­ing­ur borg­ar­yf­ir­valda að breyta ferðavenj­um og stuðla að úti­vist og hreyf­ingu þarf jafn­framt að huga að ör­yggi þeirra sem það gera. Stefnu­leysi í um­ferðarmerk­ing­um vinn­ur gegn þess­um ásetn­ingi. Borg­ar­yf­ir­völd hafa sýnt ótrú­legt ábyrgðarleysi í þess­um efn­um á meðan öll önn­ur sveit­ar­fé­lög á land­inu fara eft­ir lög­um og fyr­ir­mæl­um varðandi gatna­fram­kvæmd­ir og um­ferðarmerk­ing­ar.

Stór orð um mikl­ar fram­kvæmd­ir

Nú er mikið talað um að bretta upp erm­ar og fara í stór­fram­kvæmd­ir sam­kvæmt sam­göngusátt­mála, en þar er hvergi að finna eina ein­ustu ábend­ingu um að taka á þessu vanda­máli: Öryggi barna og annarra veg­far­enda inni í hverf­un­um, á íbúðagöt­un­um og við skól­ana.

Kostnaður við þess­ar ein­földu lag­fær­ing­ar, að sam­ræma og ein­falda merk­ing­ar á göngu­leiðum barna í skóla­hverf­um, hleyp­ur ekki á tug­um millj­arða. En hvað er mik­il­væg­ara en að tryggja ör­yggi barna í um­ferðinni?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. október 2019.