Tíminn nam ekki staðar 2013

Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Enn er nokk­ur hóp­ur fólks hér í þjóðfé­lag­inu, sem virðist telja að umræðum um breyt­ing­ar á stjórn­ar­skránni hafi með ein­hverj­um hætti lokið vet­ur­inn 2012 til 2013. Þá hafi verið sett­ur loka­punkt­ur fyr­ir aft­an alla rök­ræðu um það hvort og þá hvernig skyldi breyta stjórn­ar­skránni og að allt sem sagt hef­ur verið og gert síðan sé ein­hvers kon­ar ómark og að engu haf­andi.

Ég geri mér ekki al­veg grein fyr­ir því hversu stór þessi hóp­ur er í dag – kannski ekki ýkja fjöl­menn­ur – en þeim mun há­vær­ari.

Mál­flutn­ing­ur þessa hóps geng­ur út á að skil­yrðis­laust beri að af­greiða og staðfesta til­lög­ur stjórn­lagaráðs frá ár­inu 2011, annað hvort óbreytt­ar eða lítt breytt­ar, allt annað feli í sér ein­hvers kon­ar svik. Þannig beri að taka málið upp eins og skilið var við það á Alþingi vet­ur­inn 2012 til 2013. Stóru orðin eru sjaldn­ast spöruð í því sam­hengi. Það kom skýrt fram nú um helg­ina þegar sjö ár voru liðin frá afar sér­kenni­legri þjóðar­at­kvæðagreiðslu um þess­ar til­lög­ur.

Af þessu til­efni er rétt að rifja upp nokk­ur atriði. Eng­in samstaða var um þær aðferðir sem rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur hafði for­göngu um við und­ir­bún­ing stjórn­ar­skrár­breyt­inga á ár­un­um 2009 til 2013. Þvert á móti var hart deilt inn­an þings og utan um flest skref í þeirri til­rauna­starf­semi sem þáver­andi stjórn beitti sér fyr­ir. Hart var deilt um mark­mið breyt­inga, aðferðafræðina og loks um afurðina.

Margt annað en skort­ur á sam­stöðu varð til þess að draga úr trú­verðug­leika þessa fer­ils. Efnt var til kosn­inga til svo­kallaðs stjórn­lagaþings. Aðeins um þriðjung­ur at­kvæðis­bærra manna kom á kjörstað og slík­ir ágall­ar voru á fram­kvæmd­inni að Hæstirétt­ur ógilti kosn­ing­arn­ar. Engu að síður lét meiri­hluti Alþing­is niður­stöður hinna ólög­mætu kosn­inga standa og fór fram­hjá niður­stöðu Hæsta­rétt­ar með því að breyta stjórn­lagaþingi í nefnd kjörna af Alþingi, sem gefið var nafnið stjórn­lagaráð.

Þegar stjórn­lagaráð hafði skilað af sér til­lög­um kom fram veru­leg gagn­rýni á þær. Það voru ekki bara þáver­andi stjórn­ar­and­stöðuflokk­ar sem gagn­rýndu afurðina harðlega held­ur fjölda­marg­ir sér­fræðing­ar, ekki síst á sviði stjórn­skip­un­ar­rétt­ar og stjórn­mála­fræði. Meiri­hlut­inn í þing­inu fann að hann var kom­inn með málið í vand­ræðastöðu og ákvað því að reyna að styrkja málstað sinn með því að setja málið í ráðgef­andi þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Tíma­setn­ing at­kvæðagreiðslunn­ar var sér­stök í ljósi þess að ekki lágu fyr­ir full­mótaðar til­lög­ur. Á sama tíma og at­kvæðagreiðslan fór fram var bæði í gangi vinna sér­fræðinga við að laga til­lög­urn­ar og póli­tísk vinna á vett­vangi Alþing­is. Því var verið að kanna af­stöðu fólks til til­lagna, sem alls ekki lágu fyr­ir í end­an­legri út­færslu.

Af þessu leiddi að meg­in­spurn­ing­in í at­kvæðagreiðslunni var bæði opin og ómark­viss. Spurt var hvort kjós­end­ur vildu stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar á grund­velli til­lagna stjórn­lagaráðs. Það gaf til­efni til marg­vís­legra túlk­ana. Aðrar spurn­ing­ar voru líka óljós­ar þar sem spurt var hvort fólk vildi ein­hvers kon­ar ákvæði af hinu eða þessu tagi inn í stjórn­ar­skrá, án þess að vísað væri beint til til­tek­inn­ar út­færslu viðkom­andi ákvæðis.

Kjör­sókn var afar slök en inn­an við helm­ing­ur at­kvæðis­bærra manna kom á kjörstað. Var kjör­sókn­in mun minni en í tveim­ur at­kvæðagreiðslum um Ices­a­ve, sem þá höfðu ný­lega farið fram, svo ekki sé talað um þátt­töku í al­menn­um kosn­ing­um í land­inu. Varð þetta auðvitað ekki til þess að auka vægi at­kvæðagreiðslunn­ar.

Eft­ir þetta hélt málsmeðferð á þingi áfram. Sér­fræðinga­hóp­ur skilaði af sér marg­vís­leg­um breyt­ing­um á til­lög­um stjórn­lagaráðs, einkum laga­tækni­leg­um. Voru þær breyt­ing­ar milli 40 og 50 og tók meiri­hluti stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar þings­ins mark á sum­um þeirra en alls ekki öll­um. Málið var sent Fen­eyja­nefnd­inni, ráðgjafa­nefnd Evr­ópuráðsins um stjórn­skip­un­ar­mál, sem fann marga ann­marka á til­lög­un­um og hafði uppi ýmis viðvör­un­ar­orð. Loks strandaði málið í þing­inu, ekki bara vegna harðrar og ein­beittr­ar and­stöðu þáver­andi stjórn­ar­and­stöðuflokka, held­ur líka vegna þess að sann­fær­ing fyr­ir mál­inu var far­in að dvína hjá ýms­um í þáver­andi rík­is­stjórn­ar­flokk­um. Það var við þess­ar aðstæður sem frum­varp byggt á til­lög­um stjórn­lagaráðs lenti úti í skurði vorið 2013.

Frá þess­um tíma hef­ur þris­var verið kosið til Alþing­is. Flokk­ar sem höfuðáherslu hafa lagt á til­lög­ur stjórn­lagaráðs hafa fengið tak­markað braut­ar­gengi. Mér er til efs að nokk­urn tím­ann á þessu ára­bili hafi verið meiri­hluti á þingi fyr­ir þess­um til­lög­um. Síðan þá hef­ur verið unnið að end­ur­skoðun stjórn­ar­skrár­inn­ar með öðrum hætti þar sem verkið er áfanga­skipt og reynt að ná sam­stöðu um af­markaðar breyt­ing­ar. Menn kunna að hafa mis­mun­andi viðhorf til þeirr­ar nálg­un­ar en það er hins veg­ar óraun­sæi að horf­ast ekki í augu við að vinn­an í dag fer fram á þeim for­send­um. Tím­inn nam ekki staðar fyr­ir sjö eða átta árum. Hvorki þegar stjórn­lagaráð skilaði til­lög­um sín­um né þegar stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd lagði fram sína út­gáfu af þeim.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. október 2019.