Klofinn meirihluti í Reykjavík

Egill Þór Jónsson borgarfulltrúi í Reykjavík:

Það er fagnaðarefni að loksins skuli hafa náðst sátt um að fara þurfi í samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar verður nýr samgöngusáttmáli að teljast ansi rýr í roðinu hvað varðar fjármögnun. Þá verður jafnframt að teljast ansi sérstakt að samgöngusamningur ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skuli vera nefndur sáttmáli, enda ríkir engin sátt um hinn svokallaða sáttmála. Menn hljóta að spyrja sig hvaðan sáttin dregur nafn sitt en benda má á, að í borgarstjórn Reykjavíkur var meirihlutinn klofinn í afstöðu sinni til þessa máls. Píratar sáu ástæðu til þess að gera fyrirvara við hinn svokallaða sáttmála á sama tíma og allur minnihlutinn, eins og hann lagði sig, lagðist gegn þessum sáttmála.

Í samkomulaginu eru þó stigin ákveðin skref í rétta átt. Lögð er áhersla á alla mögulega ferðamáta. Engu að síður er óvissuþættirnir margir, eins og kom fram hér að ofan, en sá stærsti snýr að skattborgurum og vösum þeirra.

Samkomulagið kveður á um að ráðast strax í markvissar aðgerðir um bætt umferðarljósakerfi á höfuðborgarsvæðinu og nýtingu nýrra tæknilausna, eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður lagt til. Verði staðið við þann hluta samningsins má búast við því að umferð á stofnbrautum gangi greiðar fyrir sig og leysi tímabundið úr þeim vanda sem víða má finna í borginni.

Byrjað á öfugum enda

Næsta skref ætti eðlilega að snúa að vinnu um heildstætt og hlutlaust umferðarmódel fyrir svæðið allt. Með því væri hægt að öðlast ýmsar forsendur fyrir framkvæmdum með upplýsingum um fjölgun íbúa, fyrirtækja og stofnanna á ákveðnum svæðum. Enn fremur myndu fást sviðsmyndir varðandi fjölgun farþega í almenningssamgöngum sem og fjölgun þeirra sem nýta munu hjóla- og göngustíga til þess að komast leiðar sinnar í leik og starfi.

Niðurstöður úr slíku umferðarmódeli með forsendum fyrir framtíðarskipulagi um íbúaþróun og staðsetningu fyrirtækja og stofnana á höfuðborgarsvæðinu ætti að leggja grunn að þeim áætlunum og framkvæmdum sem nauðsynlegt yrði að fara í, með tilliti til arðsemismódels. Slíkt hefur ekki verið gert.

Tvískattaðir höfuðborgarbúar 

Sú spurning hlýtur að vakna hvort byrjað hafi verið á öfugum enda í vinnslu þessa samkomulags. Fjármögnun verkefnisins er í óvissu, ekki er vitað hvernig og hvaðan eigi að sækja aurinn í vasa almennings, hver borgar framúrkeyrslur verkefna, hvernig sveitarfélögin ætla að reka nýtt almenningssamgöngukerfi, hvort íbúar höfuðborgarsvæðisins verði tvískattaðir og svo áfram mætti telja.

Óvissa fjármögnunarinnar er svo mikil að í fyrsta sinn á kjörtímabilinu klofnar meirihlutinn í borgarstjórn. Það sætir miklum tíðindum að meirihlutinn gangi ekki í takt í þessu risastóra máli, en hingað til hafa allir samstarfsflokkar borgarstjóra varið hann og samflokksmenn hans fram í rauðan dauðann, þrátt fyrir ótal afglöp í starfi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2019.