Ekki bara málsnúmer

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Á und­an­förn­um árum hafa komið fram al­var­leg­ar ábend­ing­ar í skýrsl­um, rann­sókn­um, um­fjöll­un fjöl­miðla og ekki síst beint frá brotaþolum kyn­ferðisaf­brota, að þeir taki meðvitaða ákvörðun um að kæra ekki brot­in. Ein af ástæðunum er sú að þeir treysta ekki rétt­ar­vörslu­kerf­inu. Slíkt er óboðlegt í ís­lensku rétt­ar­ríki. Hér er um al­var­lega brota­löm að ræða sem brýnt er að tak­ast á við með ákveðnum og skil­virk­um hætti. Þeir sem kæra kyn­ferðisaf­brot þurfa að vera þess full­viss­ir að tekið verði á mál­um þeirra af fag­mennsku.

Eitt af helstu verk­efn­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar er að vinna að um­bót­um í meðferð þess­ara brota. Það rím­ar vel við þá vinnu sem hrundið var af stað í tíð Ólaf­ar Nor­dal inn­an­rík­is­ráðherra snemma árs árið 2016. Sam­ráðshóp­ur sem hún skipaði skilaði ít­ar­leg­um til­lög­um um aðgerðir í kyn­ferðis­brota­mál­um með það að mark­miði að tryggja vandaða, skil­virka og rétt­láta málsmeðferð við rann­sókn mála á þessu sviði og auka traust á rétt­ar­vörslu­kerf­inu. Til­lög­ur starfs­hóps­ins um aðgerðir voru kynnt­ar af þáver­andi dóms­málaráðherra, Sig­ríði And­er­sen, í fe­brú­ar árið 2018.

Sú vinna hef­ur þegar leitt til mik­illa bóta. Farið var í átak við að efla rann­sókn­ir kyn­ferðis­brota og hraða af­greiðslu þeirra. Það hef­ur meðal ann­ars skilað sér í styttri málsmeðferðar­tíma, sem var alltof lang­ur. Ég mun beita mér fyr­ir því að áhersl­ur á landsvísu verði sam­ræmd­ar með þeim hætti þannig að lög­reglu­embætt­in í land­inu séu í stakk búin til að sinna rann­sókn og meðferð kyn­ferðis­brota.

Ýmis­legt hef­ur verið gert á liðnum árum til að styrkja stöðu brotaþola. Þannig má nefna verk­efni á borð við Bjark­ar­hlíð, lög­gjöf­in hef­ur verið end­ur­skoðuð, unnið er að því að ráða sál­fræðing hjá lög­regl­unni, unnið hef­ur verið í end­ur­mennt­un hjá rann­sak­end­um kyn­ferðis­brota, fjár­fram­lög til mála­flokks­ins auk­in og þannig mætti áfram telja.

All­ir sem komið hafa með ein­um eða öðrum hætti að rann­sókn­um eða úr­vinnslu kyn­ferðis­brota vita að þau eru flók­in úr­lausn­ar. Það verður aldrei und­an því vikið. Sönn­un­ar­byrðin er oft erfið og við þurf­um ávallt að gæta að grund­vall­ar­regl­um rétt­ar­rík­is­ins.

Á sama tíma vinn­um við mark­visst að því að tryggja að rétt­ar­vörslu­kerfið taki vel utan um þolend­ur kyn­ferðisaf­brota og veiti þeim skjól á þeim erfiða kafla sem fylg­ir slík­um brot­um. Það þarf að gera af fag­mennsku og um leið af hlýju og til­lits­semi. Í flest­um til­vik­um eru skjól­stæðing­ar rík­is­ins töl­ur á blaði eða máls­núm­er, en í þess­um til­vik­um er mik­il­vægt að líta á mann­lega þátt­inn og horfa til þess að ann­ar aðili máls­ins er brot­inn ein­stak­ling­ur sem þarf á nauðsyn­legri aðstoð að halda. Kerfið þarf að vera mann­legt og til þess fallið að veita brotaþolum skjól. Ég mun beita mér fyr­ir því að svo verði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2019.