Ísland bjargar ekki heiminum

Fundarröð um umhverfismál fór vel af stað í síðustu viku og á miðvikudag verður kastljósinu beint að neytendum.

Þrír framsögumenn verða; Sævar Helgi Bragason, jarðfræðingur, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar, ætlar að fjalla um allt milli himins og jarðar. Bílar, matarsóun, fatasóun og auðvitað mun Stjörnu-Sævar horfa til framtíðar og skoða tæknilausnir. Verslunin Krónan hefur verið í fararbroddi með umhverfismál og hlaut nýverið umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlinda­ráðu­neytis­ins, Kuðunginn, fyrir framlag sitt til umhverfismála. Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, ætlar að segja okkur frá þeim breytingum sem Krónan hefur gert til að minnka kolefnisfótsporið, plastnotkun og matarsóun. Að lokum stígur Óli Björn Kárason, alþingismaður á stokk og talar um umhverfismál út frá frelsi og ábyrgð. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um Óla Björn, hann er alltaf til hægri.

„Fyrsti fundurinn var vel heppnaður, skemmtilegar og fræðandi framsögur,“ segir Vala Páldóttir, formaður Landssambands Sjálfstæðiskvenna. Níutíu mínútna formið virkar vel og gestum gefst gott tækifæri til að spyrja spurninga að erindum loknum. „Fundirnir eru gagnlegir og upplýsandi, það er það mikilvægasta í umræðunni um umhverfismál. Það er ekki heimsendir á næsta leiti en það er mikilvægt að tala fyrir aðgerðum sem fela í sér framfarir og ábyrgð. Ísland mun aldrei bjarga heiminum en það getur verið í forystu um þennan mikilvæga málaflokki og sýnt gott fordæmi með skynsamlegum aðgerðum,“ segir Vala.

Fundurinn fer fram í Valhöll við Háaleitisbraut miðvikudaginn 9. október og hefst stundvíslega kl. 20.