Samferðabrautir í Reykjavík

Jórunn Pála Jónsdóttir, fyrsti varaborgarfulltrúi í Reykjavík.

Ferðatími og tafir á umferð innan borgarinnar hafa verið að aukast, sem leiðir af sér meiri mengun og aukinn útblástur á CO2 og öðrum mengandi efnum. Í borgarstjórn á þriðjudaginn næstkomandi mun ég leggja til að borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að nýta forgangsakgreinar fyrir almenningssamgöngur í Reykjavík jafnframt sem samferðabrautir fyrir þá sem fjölmenna í ökutæki í samfloti, þrír eða fleiri, og draga þar með úr bílaumferð með bættri nýtingu. Markmiðið með tillögunni er að minnka umferðarteppur í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Með samferðabrautum (e. Car pool lanes eða High occupancy vehicle lanes) yrði áhersla lögð á að flytja sem flest fólk á milli staða á hverjum tíma en ekki sem flesta bíla.

Gulrót frekar en písk

Á síðustu árum hefur bílaumferð aukist en samkvæmt ferðavenjukönnun (Capacent Gallup 2018) hafði 61% svarenda farið síðustu ferð sína áður en könnun var gerð sem bílstjóri í bíl. Hlutfallið hefur farið eilítið hækkandi frá því að Gallup gerði fyrst könnun af þessu tagi árið 2002. Aftur á móti leiddi könnunin í ljós að aðeins 15% svarenda fóru sem farþegar í bíl og hefur það hlutfall lækkað. Ferðir þar sem fólk ferðast eitt í bíl leiða af sér umferðarþunga sem er kostnaðarsamur bæði fyrir borgarkerfið og umhverfið. Tillagan hvetur með jákvæðum hætti til þess að fólk sem ferðast með bílum verði í samfloti og fellur því vel að þeim markmiðum að bæta umferðina og flæði allrar umferðar á höfuðborgarsvæðinu.

Umferðaröryggi, mengun og hagkvæmni

Telja má að kostnaður við framkvæmdina yrði hverfandi vegna þeirra forgangsakreina sem eru þegar til staðar. Samferðabrautir stuðla að bættri nýtingu á vegakerfinu og umhverfisvænni ferðamáta. Þá er ljóst að ábatinn er auðsóttari og framkvæmdatími mun styttri en tillögur að kostnaðarsömum úrbótum á almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu sem kynntar voru nú í vikunni enda munu þær framkvæmdir gagnast fáum, að minnsta kosti til þess að byrja með.

Greinin birtist í morgunblaðinu 30. september. 2019