Dregið úr óvissu

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Í sam­ræmi við sam­starfs­sátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar um efl­ingu haf­rann­sókna er í fjár­laga­frum­varpi næsta árs mælt fyr­ir um 750 millj­ón króna fram­lag til Haf­rann­sókna­stofn­un­ar til rann­sókna og fjár­fest­inga. Þar er ann­ars veg­ar um að ræða 600 millj­óna króna fram­lag í bygg­ingu nýs haf­rann­sókna­skips sem mun stór­efla grunn­rann­sókn­ir. Alls hef­ur þá verið varið 900 millj­ón­um króna til þessa verk­efn­is sem sér­stök bygg­ing­ar­nefnd hef­ur um­sjón með. Í byrj­un sept­em­ber skrifuðu Haf­rann­sókna­stofn­un og Rík­is­kaup und­ir samn­ing um útboðsvinnu fyr­ir skipið. Áformað er að smíði skips­ins verði boðin út á fyrri hluta næsta árs en nýtt skip mun marka tíma­mót í haf­rann­sókn­um Íslend­inga.

Hins veg­ar er um að ræða 150 millj­óna króna fram­lag til Haf­rann­sókna­stofn­un­ar vegna sam­drátt­ar í fram­lög­um úr Verk­efna­sjóði sjáv­ar­út­vegs­ins til stofn­un­ar­inn­ar. Það fram­lag kem­ur til viðbót­ar 250 millj­óna króna fram­lagi á þessu ári. Rétt er að gera nokkra grein fyr­ir þess­ari aukn­ingu. Þannig er að und­an­far­in ár hef­ur nokkuð verið fjallað um fjár­fram­lög til Haf­rann­sókna­stofn­un­ar en sú umræða var til þess fall­in að varpa skýru ljósi á ýmsa veik­leika varðandi það hvernig stofn­un­in hef­ur verið fjár­mögnuð. Mun­ar þar mest um að stofn­un­in hef­ur verið mjög háð fram­lög­um úr verk­efna­sjóði sjáv­ar­út­vegs­ins og hafa þær tekj­ur lækkað mikið á und­an­förn­um árum. Með fjár­laga­frum­varpi næsta árs er verið að breyta þessu fyr­ir­komu­lagi og tryggja stofn­un­inni fast­ar tekj­ur þannig að hún verði ekki leng­ur háð sveiflu­kennd­um tekju­stofn­um með til­heyr­andi óvissu.

Þrátt fyr­ir fram­an­greint þarf stofn­un­in, líkt og all­ar aðrar stofn­an­ir rík­is­ins, að tak­ast á við þá hagræðing­ar­kröfu sem sett er í fjár­lög­um hvers árs enda er sú sjálf­sagða krafa gerð á all­ar stofn­an­ir að þurfa stöðugt að huga að for­gangs­röðun verk­efna og gæta aðhalds í rekstri. Á sama tíma hef­ur ráðuneytið staðið fyr­ir út­tekt á fjár­hag stofn­un­ar­inn­ar með það að mark­miði að nýta bet­ur fjár­muni til kjarna­verk­efna stofn­un­ar­inn­ar.

Loks má nefna varðandi fjár­fram­lög til Haf­rann­sókna­stofn­un­ar að á þessu ári fær stofn­un­in einnig fjár­muni til hús­næðismála, en á næstu mánuðum mun stofn­un­in koma sér fyr­ir í nýju hús­næði í Hafnar­f­irði þar sem öll starf­sem­in verður þá und­ir sama þaki.

Allt eru þetta markverð skref í þá veru að stuðla að öfl­ug­um haf­rann­sókn­um en þær eru ein af und­ir­stöðum verðmæta­sköp­un­ar í sjáv­ar­út­vegi. Þannig tryggj­um við um leið sterka stöðu Íslands sem fisk­veiðiþjóðar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. september. 2019