Verður kerfið skorið upp?

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Ég hef oft spurt sjálf­an mig en ekki síður sam­herja mína spurn­ing­ar­inn­ar sem varpað er fram í fyr­ir­sögn þessa pist­ils. Kerfið eða báknið lif­ir ágætu lífi. Stund­um fall­ast manni hend­ur í bar­átt­unni við að koma bönd­um á kerfið sem á sér marga banda­menn inn­an þings og utan.

Svarið við spurn­ing­unni ligg­ur ekki fyr­ir en það eru vís­bend­ing­ar um að meiri lík­ur séu á því en nokkru sinni á síðustu árum, að svarið sé já (a.m.k. að hluta). Vís­bend­ing­arn­ar eru þrjár en rök­in fyr­ir nauðsyn­leg­um upp­skurði eru fjöl­mörg, enda ekki hjá því kom­ist ef við ætl­um að bæta lífs­kjör alls al­menn­ings, efna­hags- og fé­lags­lega.

Það útheimt­ir þraut­seigju að stofna fyr­ir­tæki. Fjár­mögn­un er oft þrösk­uld­ur en ekki alltaf sá erfiðasti eða sá hæsti. Á mörg­um sviðum at­vinnu­lífs­ins er svo flókið og tíma­frekt að afla sér til­skil­inna leyfa að marg­ir gef­ast hrein­lega upp á hlaup­um milli stofn­ana og eft­ir­litsaðila. Engu er lík­ara en það sé erfiðara og vanda­sam­ara að upp­fylla kröf­ur rík­is og sveit­ar­fé­laga en að sinna þörf­um viðskipta­vina. Marg­slungið og íþyngj­andi eft­ir­lit­s­kerfi í land­búnaði haml­ar framþróun. Strang­ari kröf­ur til ís­lenskra bænda en í helstu viðskipta­lönd­um halda uppi mat­ar­verði og draga úr sam­keppn­is­hæfni ís­lenskra mat­væla­fram­leiðenda. Litli fisk­verk­and­inn sem byggt hef­ur upp traust viðskipta­sam­bönd í öðrum lönd­um, með viðskipta­vini sem eru ánægðir með gæðin og greiða hæsta verð, þarf að standa und­ir mörg hundruð þúsund króna kostnaði á ári vegna heim­sókna op­in­berra eft­ir­lits­manna. Hvergi í ríkj­um OECD er reglu­byrði þjón­ustu­greina þyngri en á Íslandi.

Ígildi tveggja mánaða af­borg­un­ar

Ég hef áður vitnað til skýrslu sem Hag­fræðistofn­un Há­skóla Íslands vann fyr­ir for­sæt­is­ráðuneytið árið 2004 um bein­an kostnað fyr­ir­tækja við að fram­fylgja eft­ir­lits­regl­um. Niðurstaðan: Beinn kostnaður er um 15 millj­arðar króna á ári miðað við verðlag í ág­úst á þessu ári. Tekið var fram að lík­lega væri um van­mat að ræða, þar sem ekki var tekið mið af öll­um eft­ir­lits­regl­um á öll­um sviðum.

Frá því að Hag­fræðistofn­un vann skýrsl­una hef­ur sigið á ógæfu­hliðina; regl­um hef­ur fjölgað, þær hert­ar og eft­ir­lit hins op­in­bera verið aukið. Með hliðsjón af van­mati Hag­fræðistofn­un­ar og þró­un­inni síðustu fimmtán ár er óhætt að ætla að beinn kostnaður fyr­ir­tækja við að fram­fylgja eft­ir­lits­regl­um sé ekki und­ir 25 millj­örðum króna á ári. Þá er óbeinn kostnaður ekki tal­inn. Þessi kostnaður er bor­inn af fyr­ir­tækj­un­um sjálf­um í formi minni arðsemi, af rík­is­sjóði í formi lægri tekna af tekju­skatti, af starfs­mönn­um þar sem bol­magn fyr­ir­tækj­anna til að greiða hærri laun er skert og síðast en ekki síst af neyt­end­um í formi hærra vöru­verðs og lak­ari þjón­ustu.

Auðvitað er nauðsyn­legt að í gildi séu ákveðnar leik­regl­ur til að tryggja eðli­lega og sann­gjarna sam­keppni, koma í veg fyr­ir mis­notk­un og tryggja ör­yggi starfs­manna jafnt sem neyt­enda. Og ekki verður hjá því kom­ist að eft­ir­lit sé með að regl­um sé fylgt. En að eft­ir­lit­s­kerfið sé orðið svo um­fangs­mikið að það sogi til sín ígildi nær 280 þúsund króna frá hverri fjög­urra manna fjöl­skyldu, bend­ir til að við séum á villi­göt­um. Þessi fjár­hæð jafn­gild­ir liðlega tveim­ur mánaðarleg­um af­borg­un­um af 25 millj­óna króna óverðtryggðu hús­næðisláni til 40 ára.

Það er því til mik­ils að vinna að ein­falda allt reglu­kerfið, skera kerfið upp – minnka báknið eins og marg­ir myndu segja.

Vís­bend­ing­arn­ar þrjár

En hverj­ar eru vís­bend­ing­arn­ar um að von­ir séu til að kerfið verði loks skorið upp, þó að ekki væri nema að hluta til

Vís­bend­ing 1: Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur er því lofað að gert verði átak „í ein­föld­un reglu­verks í þágu at­vinnu­lífs og al­menn­ings“. Um leið er því lýst yfir að rík­is­stjórn­in leggi „áherslu á að stjórn­sýsla sé skil­virk og rétt­lát“.

Vís­bend­ing 2: Flokks­ráðsfund­ur Sjálf­stæðis­flokks­ins (14. sept­em­ber) ít­rekaði stefnu flokks­ins og tók af öll tví­mæli um að þing­menn og ráðherr­ar flokks­ins skuli vinna að því að reglu­verk at­vinnu­lífs­ins sé ein­falt og sann­gjarnt. Sam­eina eigi eft­ir­litsaðila, út­vista verk­efn­um og ein­falda reglu­verk. Þannig styrk­ist „sam­keppn­is­hæfni ís­lenskra fyr­ir­tækja, verð til neyt­enda get­ur lækkað, svig­rúm til hærri launa eykst og stuðlað er að auk­inni hag­kvæmni, fram­leiðni og skil­virkni í at­vinnu­líf­inu“.

Vís­bend­ing 3: Þing­mála­skrá rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Ráðherr­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa kynnt áform um laga­frum­vörp sem miða að því að grisja laga­skóg­inn og ein­falda reglu­verk.

Í októ­ber mun Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, leggja fram frum­varp um breyt­ing­ar á sam­keppn­is­lög­um. Mark­miðið er að auka skil­virkni og stuðla að auk­inni og sann­gjarnri sam­keppni á mörkuðum með hags­muni neyt­enda og at­vinnu­lífs­ins að leiðarljósi. Í sama mánuði ætl­ar Þór­dís Kol­brún að leggja fram frum­varp varðandi leyf­is­veit­ing­ar – ein­falda reglu­verkið og leyf­is­veit­ing­ar. Iðnaðarleyfi og versl­un­ar­leyfi verða m.a. felld niður sem og ýmis úr­elt lög. Þetta er fyrsti áfangi í aðgerðaráætl­un um ein­föld­un reglu­verks á mál­efna­sviði ráðherr­ans.

Kristján Þór Júlí­us­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, hef­ur ákveðið að leggja fram frum­varp til ein­föld­un­ar reglu­verks í kom­andi mánuði. Lög­um verður breytt í því skyni að ein­falda reglu­verk sem gild­ir um mat­væla­keðjuna auk þess sem breyt­ing­un­um er ætlað að stuðla að sam­ræmd­ara og skil­virk­ara eft­ir­lit­s­kerfi. Þá er með frum­varp­inu einnig lagt til að Fram­leiðni­sjóður land­búnaðar­ins og AVS-rann­sókn­ar­sjóður í sjáv­ar­út­vegi verði sam­einaðir og við taki nýr sjóður á breiðari grunni und­ir heit­inu Mat­væla­sjóður.

Í fe­brú­ar á næsta ári ætl­ar Kristján Þór að halda áfram með verkið. Þá verða kynnt­ar breyt­ing­ar á ýms­um lög­um til ein­föld­un­ar reglu­verks á sviði sjáv­ar­út­vegs og land­búnaðar.

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, mun í byrj­un næsta árs leggja fram frum­varp um brott­fall ým­issa laga. Hann ætl­ar að grisja laga­skóg­inn. Frum­varpið fel­ur í sér brott­fall hátt í 40 laga­bálka sem eiga ekki leng­ur við sök­um breyttra aðstæðna eða vegna þess að ráðstaf­an­irn­ar sem lög­in kváðu á um eru um garð gengn­ar.

Vís­bend­ing­arn­ar þrjár gefa mér góðar von­ir um að loks verði haf­ist handa við nauðsyn­legt verk, en það er lang­ur veg­ur frá að verið sé að koma þeim bönd­um á kerfið að þau geti ekki brostið. En þetta eru skref í rétta átt.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. september 2019.