Mæltu fyrir tveimur mikilvægum hægri- og skattalækkunarmálum

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins mæltu fyrir tveimur lagafrumvörpum á Alþingi sem miða að því að auka skilvirkni og lækka gjöld einstaklinga og fyrirtækja. Um er að ræða sérstök forgangsmál þingmanna á þessu þingi.

Óli Björn Kárason mælti fyrir breytingu á lögum um virðisaukaskatt, um endurgreiðslu vinnu á byggingarstað, en ætla má að breytingarnar leiði til 3% lækkunar byggingarkostnaðar íbúða. Felst breytingin í endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda eða eigenda íbúðarhúsnæðis af vinnu iðnaðar- og verkamanna á byggingarstað vegna nýbygginga, endurbóta og viðhalds.

Auk Óla Björns eru flutningsmenn: Brynjar Níelsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Jón Gunnarsson, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson.

Vilhjálmur Árnason mælti fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um stimpilgjald. Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið. Einstaklingum ber nú að greiða 0,8% stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði en er veittur helmingsafsláttur við fyrstu kaup.

Nái frumvarpið fram að ganga mun gjaldið falla alfarið niður vegna kaupa einstaklinga og er markmið þess að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis og auka skilvirkni og flæði á markaði með íbúðarhúsnæði.

Sýnt þykir að stimpilgjald hafi áhrif til hækkunar fasteignaverðs, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda. Af framangreindu má ætla að afnám stimpilgjalds af fasteignaviðskiptum muni auðvelda verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði sem hefur verið með minnsta móti undanfarin ár.