Þetta er spurning um sanngirni og jafnræði

Haraldur Benediktsson 1. þingmaður norðvesturkjördæmis:

Þá er af­greiðsla hins um­deilda orkupakka 3 að baki. Umræða um orku­mál, raf­orku, hef­ur verið um margt ágæt og tíma­bær. Raf­orka er stór hluti af okk­ar lífi og ein und­ir­staða lífs­gæða. Við ger­um þá eðli­legu og sann­gjörnu kröfu, hvort sem er við heim­il­is­hald eða fyr­ir­tækja­rekst­ur, að eiga aðgengi að tryggri raf­orku. Þess vegna er nauðsyn­legt að umræða um raf­orku­mál og skipu­lag fram­leiðslu og dreif­ing­ar taki fyrst og síðast mið af því að skapa jafn­ræði milli lands­manna og byggðarlaga, jafnt er kem­ur að ör­yggi og verði á ork­unni og dreif­ingu henn­ar.

Orkupakk­ar eru safn­heiti yfir ýms­ar breyt­ing­ar á starfs­um­hverfi raf­orku­fram­leiðslu og -dreif­ingu. Fyr­ir okk­ur, sem höf­um bar­ist á und­an­förn­um árum fyr­ir leiðrétt­ingu á því mis­gengi í þróun kostnaðar sem íbú­ar lands­byggðar hafa orðið fyr­ir, er umræðan um orku­mál kær­kom­in.

Ljót­ur blett­ur

Af­leiðing­ar af breyt­ing­um sem gerðar voru á raf­orku­markaði eft­ir 2003 hafa sett ljót­an blett á breyt­ing­ar sem í mörgu voru ann­ars skyn­sam­leg­ar. En hvað sem hverj­um finnst er samt ekki hægt að segja að upp­stokk­un raf­orku­markaðar sé um að kenna. Aðskilnaður fram­leiðslu og flutn­ings var í sjálfu sér ekki nei­kvætt skref. En við verðum að horf­ast í aug­um við þá staðreynd að fram­kvæmd­in tókst illa og hef­ur búið til mis­vægi milli lands­manna og verið mörg­um þung­ur baggi. Þetta mis­vægi verður að leiðrétta og koma á jafn­ræði milli allra óháð bú­setu.

Á svipuðum tíma og við breytt­um reglu­verki raf­orku­markaðar var starfs­um­hverfi fjar­skipta breytt. Það var meg­in­mun­ur á vilja og fram­göngu á lög­gjaf­ans. Meðan ákveðið var – sem reynd­ar var al­ís­lensk ákvörðun – að hafa ekki jafn­ræði inn­an orku­markaðar var fjar­skipta­markaður­inn skipu­lagður með það í huga að all­ir lands­menn sætu við sama borð. Reglu­verk fjar­skipta­markaðar­ins inni­held­ur tæki til jafn­ræðis. Meiri­hátt­ar rík­is­af­skipti af raf­orku hafa unnið í þver­öfuga átt.

Það má einnig nefna hér að með nýj­um lög­um um póstþjón­ustu, sem samþykkt voru nú á vorþingi, var það einnig skýr vilji Alþing­is að jafn­ræði um kostnað allra lands­manna væri tryggt.

Hvers vegna lét meiri­hluti Alþing­is árin 2003-2005 þetta viðgang­ast? En til að gæta sann­girni þá voru þau tæki sem áttu að jafna þann mun of veik.

Íbúar dreifðari byggða hafa upp­lifað mikl­ar hækk­an­ir á orku­verði frá þess­um breyt­ing­um. Það er staðreynd sem loks­ins fékk al­menni­legt kast­ljós í umræðu um orkupakka 3.

Veru­leik­inn er að íbú­ar dreif­býl­is, á dreif­i­s­væði Rarik, hafa þurft að sæta því að flutn­ings­kostnaður á raf­orku hækkaði um ríf­lega 100% árin 2005-2017. Á sama tíma nutu íbú­ar á þétt­býl­is­svæðum Rarik veru­legr­ar raun­lækk­un­ar – eða um 44% hækk­un­ar meðan verðlag hækkaði um 80%.

Með kerf­is­breyt­ing­um voru dreif­býli og þétt­býli aðskil­in með sjálf­stæðum tekju­mörk­um (gjalda­mörk­um) dreifi­kostnaðar. Tekju­mörk eru sá raun­kostnaður og tekjuþörf sem raf­orku­dreifi­kerfið þarf til viðhalds og rekst­urs þess.

Það var sem sagt tek­in ákvörðun um að velta kostnaði við rekst­ur og bygg­ingu á víðfeðmasta dreifi­hluta raf­orku­kerf­is­ins yfir á íbúa dreif­býl­is. Þétt­býlli hlut­inn, sem var næst­um all­ur upp­byggður, var frelsaður und­an því að taka þátt í að reka og byggja upp mik­il­væg­an sam­fé­lags­leg­an grunnþátt; dreifi­kerfi raf­magns. Er ein­hver sann­girni í því? Er þetta ekki ork­an okk­ar allra?

Rétt er að geta þess hér að til að koma til móts við þessa mis­mun­un ákvað lög­gjaf­inn að greiða niður dreifi­kostnað m.v. dýr­ustu þétt­býl­isveitu. Fram­lög úr rík­is­sjóði hafa á þessu ára­bili hækkað um 300%. Samt er veru­legt mis­gengi.

End­ur­skoðun nauðsyn­leg

Þegar við ræðum orku­skipti, ræðum um sam­eign okk­ar á auðlind­um sem skapa okk­ur fram­leiðslu á end­ur­nýj­an­leg­um orku­gjafa sem raf­magn er – er þá ekki rétt og sann­gjarnt að við end­ur­skoðum fram­kvæmd breyt­ing­anna og af­leiðing­ar þeirra?

Hér hef­ur samt ekk­ert verið fjallað um tvo aðra þætti sem ættu að sjálf­sögðu að fylgja þeirri umræðu – sem eru gæði þeirra teng­inga sem eru í boði og þann mikla kostnað sem hús­hit­un með raf­orku fylg­ir. Á það við bæði um íbúa dreif­býl­is og þétt­býl­isstaða.

Með orku­skipt­um sam­gangna í raf­orku væri það ástæða eitt og sér til að end­ur­skoða þetta fyr­ir­komu­lag. Eiga aðeins íbú­ar dreif­býl­is að bera kostnað af því að tryggja aðgengi allra að því að geta hlaðið bíla sína á ferðalög­um?

Ég bind von­ir við að af­greiðsla orkupakka 3 og umræða henni tengd hafi komið þess­um hags­mun­um svo ræki­lega á dag­skrá að póli­tík­in eigi ekki ann­an kost enn að stíga þau skref sem duga til að tryggja jafn­ræði allra íbúa til raf­orku. Það er nefni­lega sann­girn­is­mál að gera ekki upp á milli íbúa er kem­ur að hag­nýt­ingu sam­eig­in­legr­ar orku­auðlind­ar okk­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. september 2019.