Flokksráðs- og formannafundur hafinn á Nordica

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins setti flokksráðs- og formannafund Sjálfstæðisflokksins sem fram fer í dag á Hilton Reykjavík Nordica laust eftir kl. 11 í dag.

Á fundinum verður kosið til embættis ritara Sjálfstæðisflokksins en skv. skipulagsreglum flokksins má ráðherra ekki gegna embætti ritara flokksins. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir mun því láta af embættinu og nýr ritari taka við síðar í dag.

Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri, Birgir Ármannsson formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir fráfarandi ritari hlýða á setningarræðu Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins í dag.

Allt flokksbundið sjálfstæðisfólk er í kjöri til ritara – en tveir einstaklingar hafa lýst yfir framboði til að gegna embættinu. Annars vegar Áslaug Hulda Jónsdóttir úr Garðabæ og Jón Gunnarsson úr Kópavogi. Kosning fer fram á fundinum kl. 15:15-15:25 og atkvæði geta greitt allir þeir sem sitja í flokksráði.

Á fundinum verður unnið í hugveitum í anda hringferðar þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins mun flytja ræðu kl. 14:00 og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir fráfarandi ritari flokksins kl. 15:45. Streymt verður beint frá báðum ræðum. Þá mun fundurinn afgreiða stjórnmálaályktun í lok dags.