Lægri skattar en útgjöldin aukast enn

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar:

Mér hef­ur alltaf fund­ist skemmti­legt að fylgj­ast með hvernig brugðist er við fjár­laga­frum­varpi þegar það er lagt fram. Sum­ir eru þeim kost­um bún­ir að geta fellt stóra­dóm nokkr­um klukku­stund­um eft­ir að viðamikið og að nokkru flókið skjal lít­ur dags­ins ljós. Aðrir þurfa lengri tíma til að kynna sér málið.

En þótt ég bíði spennt­ur eft­ir viðbrögðum stjórn­ar­and­stöðunn­ar við nýju frum­varpi til fjár­laga, verð ég oft­ar en ekki fyr­ir von­brigðum. Allt er fyr­ir­sjá­an­legt – líkt og hand­rit sem búið er að læra og er þulið upp lítið breytt ár eft­ir ár.

Full­trúi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar var fljót­ur að fara í gam­al­kunn­ugt far. Þar á bæ er litið svo á að ríkið sé að af­sala sér tekj­um ef ekki er gengið fram af fullri hörku í skatt­heimtu á heim­ili og fyr­ir­tæki. Þess vegna er enn á ný kallað eft­ir hærri skött­um. Auðlegðarskatt á að end­ur­vekja en skal nú vera und­ir heit­inu stór­eigna­skatt­ur. Inn­leiða á nýtt þrep í tekju­skatti þar sem skatt­ur­inn fer í yfir 56%.

Talsmaður Miðflokks­ins mis­skil­ur fjár­laga­frum­varpið og stend­ur í þeirri trú að rík­is­sjóður ætli að næla sér í þrjá millj­arða með því að af­nema sam­skött­un hjóna og koma í veg fyr­ir sam­nýt­ingu skattþrepa. Hlaupið var í fjöl­miðla og hrópað. Allt inn­an­tómt gasp­ur sem á sér enga stoð.

Viðreisn held­ur sig á bandi svart­sýn­inn­ar og Pírat­ar klæða sig í bún­ing tekn­ó­krat­ans og vilja fleiri excel-skjöl og grein­ing­ar um leið og skatta- og út­gjalda­hjartað slær hraðar.

Lækk­un tekju­skatts

Hægt er að lýsa fjár­laga­frum­varp­inu í fáum orðum. Auk­in út­gjöld, ekki síst til vel­ferðar­mála, lækk­un skatta og auk­in fjár­fest­ing. Fyr­ir þann sem þetta skrif­ar er því margt að gleðjast yfir en ým­is­legt veld­ur áhyggj­um.

Lækk­un tekju­skatts ein­stak­linga, með nýju lægra þrepi, verður flýtt og kem­ur til fram­kvæmda á næstu tveim­ur árum í stað þriggja. All­ir njóta lækk­un­ar­inn­ar en hlut­falls­lega mest þeir sem lægstu tekj­urn­ar hafa. Tekju­skatt­ur ein­stak­lings með tekj­ur við fyrstu þrepa­mörk­in mun lækka um 42 þúsund krón­ur þegar á næsta ári. Ráðstöf­un­ar­tekj­ur heim­il­anna aukast um 21 millj­arð á ári þegar lækk­un­in er að fullu kom­in fram. Fyr­ir ein­stak­linga með tekju­skatts­stofn í kring­um 350 þúsund krón­ur þýðir það 125 þúsund króna skatta­lækk­un á ári.

Það skal viður­kennt að ég hef aldrei verið hrif­inn af margþrepa tekju­skatt­s­kerfi. Eft­ir því sem skatt­kerfið verður flókn­ara því meiri nei­kvæð áhrif get­ur það haft. Þannig er skyn­sam­legra að hafa eitt skattþrep en breyti­leg­an per­sónu­afslátt sem lækk­ar eft­ir því sem tekj­ur hækka. En upp­taka nýs lægra skattþreps er hins veg­ar já­kvætt skref í átt að lægri skött­um á ein­stak­linga og í takt við það sem gert hef­ur verið frá því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn tók sæti í rík­is­stjórn 2013. Frá þeim tíma hef­ur lækk­un skatta á ein­stak­linga verið í for­gangi. Á ár­un­um 2014 til 2018 hafa þeir verið lækkaðir um 25 millj­arða á árs­grund­velli með til­heyr­andi hækk­un ráðstöf­un­ar­tekna heim­il­anna.

Skatt­tekj­ur og trygg­ing­ar­gjald nema á kom­andi ári um 817 millj­örðum króna. Aðrar tekj­ur, s.s. arður og vaxta­tekj­ur, eru áætlaðar 96 millj­arðar og fjár­fram­lög liðlega sex millj­arðar. Alls verða því tekj­ur rík­is­ins um 919 millj­arðar. Þrátt fyr­ir lækk­un tekju­skatts og enn eina lækk­un trygg­ing­ar­gjalds munu skatt­tekj­ur rík­is­ins verða nær 27 millj­örðum hærri að raun­v­irði 2020 en 2017.

Um 18% raun­hækk­un út­gjalda

Rekstr­ar­út­gjöld verða tæp­lega 26 millj­örðum hærri að raun­v­irði á næsta ári en 2017 og launa­kostnaður um 16 millj­örðum hærri. Í heild stefn­ir í að út­gjöld A-hluta rík­is­sjóðs verði 205,6 millj­örðum hærri að nafn­v­irði 2020 en 2017, án fjár­magns­kostnaðar, ábyrgða og líf­eyr­is­skuld­bind­inga. Þetta er um 139 millj­arða eða 18% raun­hækk­un. Mestu skipt­ir nær 78 millj­arða raun­aukn­ing til vel­ferðar­mála, þar af 30 millj­arðar í heil­brigðismál og liðlega 24 millj­arðar í mál­efni eldri borg­ara og ör­yrkja. Eng­inn sann­gjarn maður get­ur haldið öðru fram en að rík­is­stjórn­in hafi for­gangsraðað í þágu vel­ferðar.

Ég er nokkuð viss um að fáir þing­menn fari yfir þess­ar staðreynd­ir í umræðum um fjár­lög og spyrji hvort þróun út­gjalda sé eðli­leg. Hvort það er hægt að gera bet­ur en raun ber vitni í rekstri rík­is­ins er spurn­ing sem flest­ir forðast. Engu er lík­ara en ótt­inn við svarið ráði för. Þess í stað er þess kraf­ist að út­gjöld í hitt og þetta verði auk­in. Í umræðum um fjár­lög breyt­ast marg­ir í jóla­sveina en skatt­greiðand­inn stend­ur lítt var­inn.

Skuld­ir rík­is­sjóðs halda áfram að lækka og verða um 2,3 millj­ón­ir á hvern lands­mann á kom­andi ári. Þetta er lækk­un um 1,1 millj­ón frá 2016 eða 32%. Fjár­fest­ing­ar aukast og nema rúm­lega 74 millj­örðum króna sam­kvæmt frum­varp­inu. Mest mun­ar um fjár­fest­ing­ar í sam­göng­um upp á 28 millj­arða og 8,5 millj­arða í bygg­ingu nýs Land­spít­ala.

Vel í stakk búin

Ábend­ing Kon­ráðs S. Guðjóns­son­ar, hag­fræðings Viðskiptaráðs, um að setja þurfi auk­inn kraft í innviðafjár­fest­ingu er hins veg­ar rétt. Í viðtali við Viðskipta­blaðið seg­ir Kon­ráð að gott hefði verið „að sjá meiri kraft í fjár­fest­ing­ar­vexti en minni áherslu á önn­ur út­gjöld“ enda eru fjár­fest­ing­ar í dag „for­senda fyr­ir hag­sæld og einnig rík­is­út­gjöld­um í framtíðinni“. Ríkið – við öll – á mikla mögu­leika á því að stór­auka fjár­fest­ing­ar á kom­andi miss­er­um án þess að leggja aukn­ar álög­ur á ein­stak­linga eða fyr­ir­tæki. Umbreyt­ing sumra eigna rík­is­ins í sam­fé­lags­lega innviði, ekki síst á sviði sam­gangna, er skyn­sam­leg ráðstöf­un ekki síst þegar slaki er í efna­hags­líf­inu. Lífs­kjör al­menn­ings verða ekki var­in með því að binda hundruð millj­arða í áhættu­söm­um fjár­mála­fyr­ir­tækj­um, held­ur koma fjár­mun­um í vinnu í arðbær­um innviðum sam­fé­lags­ins.

Þrátt fyr­ir að und­ir­liggj­andi hag­stærðir bendi til að hag­kerfið sé að kólna er fátt sem ætti að koma í veg fyr­ir „mjúka lend­ingu“ á kom­andi miss­er­um – nema klaufa­skap­ur við stjórn efna­hags­mála.

Að baki fjár­laga­frum­varp­inu liggja ákveðnar for­send­ur um þróun efna­hags­mála. Eins og fjár­málaráðherra bend­ir á í grein­ar­gerð frum­varps­ins rík­ir meiri óvissa um þess­ar mund­ir um þróun alþjóðlegra efna­hags­mála en oft áður. Óvissa inn­an­lands og utan kunni að leiða til þess að hag­vöxt­ur á þessu og næsta ári verði minni en gert er ráð fyr­ir. „Meiri lík­ur eru á því að efna­hags­horf­ur árs­ins 2020 breyt­ist til verri veg­ar en að þær batni að ráði,“ eru varnaðarorð í grein­ar­gerðinni en um leið bent á við aug­ljósa: Það er svig­rúm í hag­stjórn­inni til að bregðast við. All­ar for­send­ur eru fyr­ir hendi að vext­ir lækki enn frek­ar. Skyn­sam­legt er að slaka enn frek­ar á skattaklónni og öll rök hníga að því að auka innviðafjár­fest­ingu veru­lega, jafnt með umbreyt­ingu eigna sem og í sam­starfi við líf­eyr­is­sjóði og einkaaðila.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. september 2019.