„Í góðum farvegi“

Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Við sjálfstæðismenn lögðum til snjallvæðingu umferðarljósa eins og gert er í öðrum borgum Evrópu. Samtök iðnaðarins reiknuðu út að 15% minnkun ferðatíma sem er fyrirsjáanleg með kerfinu myndi spara 80 milljarða. En hvað var gert? Tillögunni var vísað frá. Meirihlutinn segir þessi mál vera í „góðum farvegi“. En hvernig er þessi farvegur? Jú, síðasta útboð fór af stað fyrir 15 árum, en þá voru snjallsímarnir ekki komnir fram. Ekkert frekar en sú tækni sem hér um ræðir. Aðrar borgir bjóða út svona kerfi á fjögurra ára fresti.

Búið er að skoða eitt og annað „í farveginum“ hjá borginni, en ekkert verið ákveðið. Á sama tíma hefur umferðin þyngst verulega og hlutfall einkabíla vaxið mikið. Það er rýr árangur. Svipað er að sjá með rekstur borgarinnar. Þar ætla menn að læra af mistökunum. Það gengur fremur hægt eins og sjá má af síendurteknum svipuðum mistökum. Bragginn, framúrkeyrslan í Félagsbústöðum og nú áætlanagerð Sorpu eru skýrt mynstur óstjórnar. Sífellt er talað um að læra af mistökunum en það virðist ganga hægt. Það er ekki góður farvegur. Stjórnkerfið skilar ekki svörum og íbúarnir verða að sætta sig við að málin séu „í farvegi“. En langur er sá farvegur.

Stundum er hollara að líta í spegil og játa það að „góði farvegurinn“ er kannski ekki svo góður eftir allt saman. Að minnsta kosti þarf góður árfarvegur að skila sínu en ekki vera stíflaður.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 10. september 2019.