Níu milljón stundir

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Í ár verður tæplega níu milljónum klukkustunda sóað í umferðartafir innan höfuðborgarinnar. Umferðartafir á annatíma hafa aukist um nærri 50% á örfáum árum. Þetta sýna niðurstöður umferðarlíkans VSÓ og nýlegar mælinga Vegagerðarinnar.  Þessar tafir samsvara um 40 klukkustundum – eða heilli vinnuviku – á hvern höfuðborgarbúa árlega. Það eru váleg tíðindi.

Samtök iðnaðarins telja mikla hagkvæmni felast í minni umferðartöfum. Minnki tafir um 15% megi ná fram 80 milljarða króna ábata fyrir fólk og fyrirtæki á einungis fáum árum. Þá eru ótalin þau auknu lífsgæði sem felast í greiðum samgöngum.

Samgönguráðherra hefur sagt breyttar ferðavenjur vera lykilinn að lausn samgönguvandans. Undirrituð tekur í sama streng. Borgarbúum verða að bjóðast fleiri góðir samgöngukostir. Gera þarf fleirum kleift að ferðast án bíls – enda ljóst að fleiri bílum fylgja meiri tafir.

Samfylking hefur um árabil boðað byltingu í breyttum ferðavenjum. Ár eftir ár er lofað árangri í samgöngumálum. Niðurstöður nýlegrar ferðavenjukönnanar skjóta því skökku við. Um 79% allra ferða á höfuðborgarsvæðinu eru nú farnar á bíl. Það er aukning um fjögur prósentustig á örfáum árum. Samhliða hafa viðhorf til almenningssamgangna, gangandi og hjólandi versnað til muna.

Núverandi meirihluta hefur ekki tekist að auka hlut almenningssamgangna í borginni. Þvert á móti hefur bílum fjölgað meira en fólki síðustu ár – þvert á yfirlýst markmið um annað. Ferðavenjur hafa ekki breyst og Reykjavíkurborg er enn á ný eftirbátur annarra borga í samgöngumálum.

Við verðum að fjárfesta í samgöngubótum fyrir fjölbreyttar samgöngur, annað er óhagkvæm og óarðbær meðferð almannafjár. Borgarbúum verður að bjóðast raunverulegt val um ferðamáta. Þetta val mun ekki bjóðast fyrr en ráðist hefur verið í stórsókn í almenningssamgöngum, betra borgarskipulagi og bættum aðstæðum fyrir gangandi og hjólandi. Þá fyrst sjáum við árangur.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 9. september. 2019