Kosið um embætti ritara á flokksráðsfundi

Kosið verður um embætti ritara Sjálfstæðisflokksins á flokksráðsfundi hinn 14. september nk. á Hilton Reykjavík Nordica hóteli. Þetta var ákveðið á fundi stjórnar flokksráðs Sjálfstæðisflokksins fyrir helgi.

Skipulagsreglur flokksins heimila ekki að sá sem gegni embætti ráðherra sé jafnframt ritari, enda ber ritari Sjálfstæðisflokksins sérstaka ábyrgð gagnvart innra starfi flokksins þegar formaður og varaformaður gegna embætti ráðherra.

Í samræmi við skipulagsreglur flokksins lætur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nýskipaður dómsmálaráðherra, af embætti ritara og skv. 15. grein reglnanna skal nýr ritari kosinn á flokksráðs- eða landsfundi.

Allt flokksbundið sjálfstæðisfólk er í kjöri til embættis ritara – en þeir sem hyggjast bjóða sig fram fá tíma til að kynna sig á fundinum kl. 11:45. Þeir sem bjóða sig fram geta gegn undirritun trúnaðaryfirlýsingar fengið afhenta skrá á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins yfir þá sem hafa kosningarétt á flokksráðsfundi. Til að óska eftir slíku þurfa frambjóðendur að senda póst á lilja@xd.is, tilkynna framboð og um leið að óska eftir slíkri skrá.

Í 40. grein skipulagsreglna um embætti ritara Sjálfstæðisflokksins segir m.a.: Ritari Sjálfstæðisflokksins er ritari miðstjórnar flokksins, flokksráðs, stjórnar flokksráðs og framkvæmdastjórnar. Ritari skal ekki gegna ráðherraembætti á vegum flokksins, enda hafi hann sérstaka ábyrgð gagnvart innra starfi flokksins gegni formaður og varaformður ráðherraembætti.“

Þar kemur einnig fram um hlutverk ritara að ritari hafi seturétt með málfrelsi og tillögurétt á öllum fundum á vegum flokksins. Einnig kemur þar fram að óski formaður og varaformaður eftir því geti ritari verið staðgengill þeirra.

Minnt er á að skráning á fundinn er hafin og má finna allar upplýsingar um fundinn, um greiðslu skráningargjalda og um standandi hátíðarkvöldverð og Sjallaball aldarinnar með Stjórninni hér.

Eru flokksráðsfulltrúar hvattir til að skrá sig sem allra fyrst á fundinn og ganga frá greiðslu skráningargjalda fyrir miðnætti 12. september en eftir það hækka skráningargjöldin.