Bjarni boðar risa skattalækkun

Tekjuskattur einstaklinga verður lækkaður um 21 milljarð króna á ári, eða sem nemur um 10% af tekjum ríkisins af tekjuskatti einstaklinga. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, kynnti fjárlagafrumvarpið í morgun.

Við skattalækkunina hækka ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu um rúmlega 120 þúsund krónur á ári þegar lækkunin kemur að fullu fram. Skattalækkunin verður gerð í tveimur skrefum, árin 2020 og 2021.

Til viðbótar við skattalækkun á tekjur einstaklinga sem er liður í að styðja við heimilin þegar hægja tekur á atvinnulífinu boðaði Bjarni frekari lækkun tryggingargjalds, um 0,25 prósentustig. Verður tryggingargjaldið því 6,35% og hefur lækkað umtalsvert frá 2013 þegar Bjarni Benediktsson settist fyrst í fjármálaráðuneytið, en þá var tryggingargjaldið 7,69%.

Í fjárlagafrumvarpinu birtast einnig áform stjórnvalda um fjárfestingar, en góð staða ríkisfjármála gefur stjórnvöldum svigrúm til að veita efnahagslífinu viðspyrnu og vinna gegn niðursveiflunni með öflugri opinberri fjárfestingu, þegar hægir á atvinnuvegafjárfestingu. Má þar nefna fjárfestingar í samgöngum upp á 28 milljarða króna og aukinn kraft í uppbyggingu nýs Landspítala. Nánar um fjárlagafrumvarpið og áætlanir stjórnvalda má finna á vefsvæði fjármálaráðuneytisins.