Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tók í dag við embætti dómsmálaráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum. Hún tók við embættinu af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem afhenti henni lykla að ráðuneytinu nú fyrir skömmu.
Áslaug Arna er næstyngsti ráðherrann sem sest hefur í ríkisstjórn á Íslandi og yngsti dómsmálaráðherra Íslandssögunnar. Þá er hún yngsta konan til að taka sæti í ríkisstjórn Íslands og yngsti ráðherrann í lýðveldissögunni. Hún er fædd í Reykjavík 30. nóvember 1990 og því 28 ára og 9 mánaða. Sé listinn yfir yngstu ráðherra Íslandssögunnar skoðaður má sjá að tveir af þremur yngstu ráðherrum sögunnar koma úr röðum Sjálfstæðisflokksins. Báðir ráðherrarnir eru konur en hinn er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem tók við embætti 29 ára og 2 mánaða 11. janúar 2017. Fyrir einungis 10 árum var engin kona á listanum yfir yngstu ráðherra Íslandssögunnar.
Áslaug Arna er lögfræðingur að mennt og hefur verið þingmaður Sjálfstæðisflokksins fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður síðan 2016.
Hún gegndi embætti formanns allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis á árinu 2017. Sat þá jafnframt í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Eftir þingkosningar 2017 tók Áslaug Arna við embætti formanns utanríkismálanefndar Alþingis. Hún hefur jafnframt verið formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins síðan 2017 og var formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins árið 2017.
Áslaug Arna var ritari Sjálfstæðisflokksins frá 2015-2019. Hún sat í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna frá 2011-2017 og var formaður Heimdalls, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík á árunum 2011-2013.