Skattalækkun var síðasta verk sjálfstæðismanna á þessu þingi

Síðasta verk þingmanna Sjálfstæðisflokksins á 149. löggjafarþingi var að samþykkja skattalækkun, en þinghaldi var frestað um hádegi í dag. Frumvarpið sem um ræðir var samþykkt með 48 atkvæðum felur í sér breytingar á skattlagningu greiðslna til höfunda eða annarra rétthafa frá samtökum rétthafa samkvæmt höfundalögum. Verða slíkar greiðslur eftir breytinguna skattlagðar sem fjármagnstekjur án nokkurs frádráttar, í stað launatekna.

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem greiddu atkvæði um frumvarpið greiddu atkvæði með því, en þingflokkur Pírata sat hjá við afgreiðslu málsins, sem og einn þingmaður Samfylkingarinnar. Þingflokkur Viðreisnar sat hjá eða greiddi atkvæði gegn skattalækkuninni.

Fyrra fyrirkomulag þótti óeðlilegt þar sem tekjur vegna nýtingar á verkum voru ekki skattlagðar eins og aðrar tekjur fólks af eignum sínum. Telur Sjálfstæðisflokkurinn einnig óeðlilegt að skattleggja umræddar greiðslur sem launatekjur þegar höfundur tiltekins verks er látinn en verkið heldur áfram að gefa tekjur til erfingja eða annarra einstaklinga sem rétthafa, s.s. vegna tónlistarflutnings í útvarpi eða öðrum miðlum, upplesturs á ritverkum, birtingar á myndverkum í bókum eða kortum o.s.frv.

Þing kemur aftur saman eftir átta daga, 10. september.