Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir nýr dómsmálaráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir verður næsti dómsmálaráðherra. Þetta var ákveðið á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins sem kláraðist nú fyrir skömmu í Valhöll.

Nýr dómsmálaráðherra tekur við embætti á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á morgun af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem gegnt hefur embættinu síðan 14. mars 2019.

Áslaug Arna er fædd í Reykjavík 30. nóvember 1990. Hún verður yngsti dómsmálaráðherra Íslandssögunnar. Áslaug Arna lögfræðingur að mennt og hefur verið þingmaður fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður síðan 2016.

Hún gegndi embætti formanns allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis á árinu 2017. Sat þá jafnframt í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Eftir þingkosningar 2017 tók Áslaug Arna við embætti formanns utanríkismálanefndar Alþingis og hefur gegnt því síðan. Hún hefur jafnframt verið formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins síðan 2017 og var formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins árið 2017.

Áslaug Arna hefur verið ritari Sjálfstæðisflokksins síðan 2015. Hún sat í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna frá 2011-2017 og var formaður Heimdalls, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík á árunum 2011 til 2013.