Þriðji orkupakkinn samþykktur á Alþingi

Tillaga Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra til þingsályktunar um innleiðingu á þriðju raforkutilskipun ESB (þriðja orkupakkanum) var samþykkt á Alþingi í dag með 46 atkvæðum gegn 13.

Alþingi afgreiddi jafnframt fleiri mál í dag. M.a. tillögu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttir varaformanns Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um breytingu á þingsályktun um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Með þeirri breytingu er skýrt að sæstrengur verður ekki lagður til Íslands án samþykkis Alþingis.

Fundum 149. löggjafarþings var frestað í dag og mun 150. löggjafarþing koma saman þriðjudaginn 10. september nk.