Forræðishyggja í borginni

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn Reykjavíkur, skrifar:

Þeir sem hafa verið lengi við völd verða oft værukærir. Hlusta helst á viðhlæjendur. Telja sig ekki þurfa að hlusta á kjósendur og upplýsa þá sem minnst. Vilja frekar hafa vit fyrir fólki. Borgarstjóri hefur verið 17 ár í borgarstjórn. Það er langur tími. Það er kannski engin tilviljun að lítið samráð er haft þegar farið er í framkvæmdir.

Hverfisgatan er því miður ekki einsdæmi um vinnubrögðin. Lítið er hlustað þegar skattar og gjöld íþyngja fólki og rekstraraðilum svo margir þurfa að hætta starfsemi. Í stað þess að bæta strætó er lögð áhersla á þrengingar til að þvinga fólk til að breyta um ferðamáta.

Ég trúi frekar á að gefa fólki valkost. Bæta þjónustuna. Og svo er þrengt að náttúrunni. Búið er að skipuleggja atvinnustarfsemi í Elliðaárdalnum, þrátt fyrir mótmæli íbúanna. Fyrirhugað er í skipulagi að byggja blokkir efst í Laugardalnum. Og lítið bólar á orkuskiptum fyrir farþegaskipin sem menga hressilega.

Skerða skólamatinn

Nýjasta útspilið er svo að „minnka framboð dýra­afurða verulega“ fyrir skólabörn, eins og oddviti VG orðaði það. Skerða þannig skólamatinn. Skyr, fiskur, ostur, kjöt og egg eru dýraafurðir. Af hverju í ósköpunum vill meirihlutinn í borgarstjórn þetta? Jú, það er til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda.

Þá þarf að flytja inn grænmeti og ávexti í staðinn með flugi og skipum. Væri ekki nær að líta sér nær? Bjóða börnunum hollan og fjölbreyttan mat í skólunum? Og ef við viljum í alvöru vera umhverfisvæn. Þá eigum við að auðvelda rafbílavæðingu. Minnka losun farþegaskipa. Hlífa grænu svæðunum í borginni. Og hætta að vera með borgarstjórabíl sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti. Svo eitthvað sé nefnt.

Matur barna skiptir máli. Ég hefði frekar viljað sjá tillögur um að bæta skólamat frekar en að skerða hann. Hafa val. En svona getur langseta í borgarstjórn leitt hið ágætasta fólk út á forað forræðishyggjunnar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29.8.2019