Erum ekki að gefa frá okkur yfirráðin

„Það eru marg­ir sem virðast telja við séum að taka ein­hverja grundvallarákvörðun núna, í orku­mál­um og í EES-sam­starf­inu, en það er mik­ill mis­skiln­ing­ur vegna þess að ákvörðunin um að vera með orku­mál­in inni á EES-svæðinu var tek­in fyr­ir aldarfjórðungi síðan,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í Kastljósviðtali á RÚV á miðvikudagskvöld. Þar var m.a. rætt um þriðja orkupakkann.

„Það skipt­ir máli að við gef­um ekki frá okk­ur yf­ir­ráð í þess­um mála­flokki, en við erum ekki að gera það í þessu til­tekna máli,“ sagði Bjarni.

Hann sagðist sammála þeim sem hafi talað gegn málinu um að það sé mikilvægt að koma upp orkustefnu í landinu þar sem horft verði til framtíðar og orkan nýtt í framfarir í landinu til hagsbóta fyrir alla landsmenn.

Spurður að því hvers vegna lægi á að koma málinu í gegnum þingið sagði hann svo alls ekki vera. Málið hafi verið í skoðun í mörg ár. Það væri fráleitt að segja að menn væru að flýta sér en að málið væri nú þegar fullskoðað og fullrætt.

Bjart framundan

Talið barst að framtíð Bjarna og var hann m.a. spurður að því hvort hann væri á leið úr stjórnmálum.

„Ég er auðvitað tiltölulega nýlega búinn að gefa kost á mér sem formaður. Ég efndi hérna til stjórnarsamstarfs við tvo flokka til þess að bæði auka stjórnmálalegan stöðugleika að nýju í landinu og ná ákveðnum markmiðum, til dæmis í efnahagsmálum og fyrir efnahagslegan stöðugleika í landinu og ég ætla ekkert að hlaupa frá því verki,“ sagði Bjarni.

Þá sagði hann einnig: „Þegar ég horfi til baka núna tíu ár aftur í tímann og skoða hvað mikið hefur breyst og frá 2013 þennan tíma sem ég hef setið í ríkisstjórn og verið í ráðuneytinu, þá hafa svo mörg mál fengið farsælan endi og staðan á Íslandi batnað svo mjög til hins betra að það er alveg sérstök ánægja að fara yfir það og sjá hversu bjart er fram undan.“