Fortíð, framtíð – og dagurinn í dag

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Sum­um þykir betra að sjá fortíðina í hill­ing­um og finna samtíðinni margt til foráttu. Sum­ir ala á ótta yfir því óvænta og ófyr­ir­sjá­an­lega og líta á framtíða sem ógn­un við óbreytt ástand. Sum­ir segja að allt hafi verið betra í gamla daga.

Við erum fljót að gleyma, ýmis vanda­mál samtíðar fortíðar­inn­ar heyra sög­unni til og gleym­ast í skugga nýrra vanda­mála samtíðar sam­tím­ans, vanda­mála nýrra tíma. Ákvarðanir tekn­ar í fortíðinni skapa um­hverfið sem við búum við í dag, og ákv­arðanir dags­ins í dag móta framtíðina.

Í gamla daga geng­um við í EES-sam­starfið, og í gamla daga samþykkt­um við að ork­an heyrði und­ir samn­ing­inn. Í gamla daga samþykkt­um við orkupakka eitt og tvö, og var það ís­lensku sam­fé­lagi mik­il bless­un. Með raf­orku­lög­un­um frá 2003 var inn­leitt nýtt skipu­lag raf­orku­viðskipta hér á landi, raf­orku­vinnsla og sala raf­orku var gef­in frjáls og í dag keppa nokk­ur fyr­ir­tæki á þeim markaði, og fer þeim fjölg­andi.

Líkt og sag­an dæm­ir verk og gjörðir fortíðar­inn­ar, dæm­ir hún ákv­arðanir og verk okk­ar sem störf­um á vett­vangi stjórn­mál­anna í dag. Meðal ann­ars ákv­arðanir sem við tök­um um framtíðar­skip­an raf­orku­mála á Íslandi og þátt­töku Íslands í víðara sam­fé­lagi þjóða á vett­vangi EES. Við sem sitj­um í ut­an­rík­is­mála­nefnd höf­um á síðustu mánuðum fjallað ít­ar­lega um þriðja orkupakk­ann. Við tók­um á móti fjölda gesta, tug­um um­sagna og á málsmeðferð þriðja orkupakk­ans sér eng­in for­dæmi meðal annarra EES-mála hér­lend­is. Hvorki sú mikla vinna sem átti sér stað inn­an ráðuneyt­anna né sú um­fangs­mikla vinna sem hef­ur átt sér stað inn­an Alþing­is.

Ut­an­rík­is­ráðuneytið leitaði ráðgjaf­ar fær­ustu sér­fræðinga lands­ins í Evr­ópu­rétti til að bregðast við efa­semdarödd­um. Hvort inn­leiðing þriðja orkupakk­ans í lands­rétt brjóti í bága við ís­lenska stjórn­ar­skrá, og telja sér­fræðing­arn­ir svo ekki vera. Hvort verið sé að af­sala ákvörðun­ar­valdi ís­lenskra stjórn­valda yfir auðlind­um lands­ins til Evr­ópu­sam­bands­ins, og telja sér­fræðing­arn­ir svo ekki vera. Loks hvort inn­leiðing þriðja orkupakk­ans feli í sér lagn­ingu sæ­strengs, og ekki telja sér­fræðing­arn­ir svo vera. Öllum stein­um hef­ur verið velt við skoðun máls­ins. Inn­leiðing þriðja orkupakk­ans er ekki aðeins hættu­laus, held­ur eru regl­ur hans til hags­bóta fyr­ir Íslend­inga vegna auk­inn­ar neyt­enda­vernd­ar og reglna sem stuðla að sam­keppni og jafn­ræði milli aðila.

Ekk­ert í þriðja orkupakk­an­um er af því tagi að þörf sé á að grípa til neyðarráðstaf­ana á borð við að hafna hon­um og vísa aft­ur til sam­eig­in­legu EES-nefnd­ar­inn­ar.

Það er ástæðulaust að ótt­ast framtíðina. Ég treysti Íslend­ing­um dags­ins í dag, og morgundags­ins, til þess að stíga inn í hið óorðna með hug­rekki og þor.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. ágúst 2019.