Fjörugur fundur á Fljótsdalshéraði

Fulltrúaráðið og sjálfstæðisfélögin á Fljótsdalshéraði og Borgarfirði eystri héldu í gær sameiginlegan félagsfund á Egilsstöðum.

Á fundinum fóru fram góðar og gagnlegar umræður. Á fyrri hluta fundarins voru orkumálin rædd en á þeim síðari ýmis önnur mál og sendi fundurinn frá sér þrjár ályktanir sem fjalla um Egilsstaðaflugvöll, um Fjarðaheiðargöng milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða og um heilbrigðismál. Þær er að finna hér að neðan:

Ályktun um Egilsstaðaflugvöll

Almennur félagsfundur fulltrúaráðs og sjálfstæðisfélaganna á Fljótsdalshéraði og Borgarfirði eystri, haldinn miðvikudaginn 21. ágúst 2019 skorar á stjórnvöld að tryggja nauðsynlega uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar með þjóðarhag að leiðarljósi. Egilsstaðaflugvöllur er öruggasti einnar brautar flugvöllur landsins hvað varðar lendingaraðstæður þar sem náttúrulegar aðstæður eru mjög hagstæðar, hann er opinn allan sólarhringinn allt árið um kring og nægt landrými til staðar til að fullnægja öryggiskröfum. Samhliða þarf að jafna kostnað flugrekenda á Egilsstaðaflugvelli og Keflavíkurflugvelli svo samkeppnishindrunum sé ýtt úr vegi fyrir uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar sem raunverulegrar gáttar inn í landið. Staðsetning Egilsstaðaflugvallar gerir það að verkum að slík gátt myndi leggja mest allra valkosta að mörkum til að tryggja heppilega dreifingu erlendra ferðamanna og um leið auka lífsgæði þeirra sem á áhrifasvæði flugvallarins búa.

Ályktun um jarðgöng

Almennur félagsfundur fulltrúaráðs og sjálfstæðisfélaganna á Fljótsdalshéraði og Borgarfirði eystri, haldinn miðvikudaginn 21. ágúst 2019 fagnar því að ráðast eigi í Fjarðarheiðargöng milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða og tengja aðra þéttbýlisstaði með göngum milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar skv. tillögu nefndar samgönguráðherra. Tenging þéttbýlisstaða á Austurlandi er forsenda þess að viðspyrna náist í byggðamálum og samfélagið dafni. Því er skorað á stjórnvöld að tryggja fjármögnun fyrsta áfanga framkvæmdarinnar, Fjarðarheiðarganga, sem allra fyrst og að ganga svo frá málum, að samfélagið geti treyst því að samtenging miðsvæðis Austurlands verði að veruleika í náinni framtíð með tengingu við þéttbýlisstaði Fjarðabyggðar um göng hvort sem það er með sameiginlegu útboði á framkvæmdinni í heild eða öðrum jafntryggum hætti.

Ályktun um heilbrigðismál

Almennur félagsfundur fulltrúaráðs og sjálfstæðisfélaganna á Fljótsdalshéraði og Borgarfirði eystri, haldinn miðvikudaginn 21. ágúst 2019 hvetur stjórnvöld til að tryggja miðlæga bráðaheilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði með kaupum á sneiðmyndatæki sem allra fyrst svo niðurstaða bráðagreiningar liggi fyrir í Héraði um hvort kalla þurfi til sjúkraflugs í stað þess að keyra um langan veg að því greiningartæki í dag.