Til hamingju með daginn!

Ungir sjálfstæðismenn tóku þátt í 20. gleðigöngu Hinsegin daga í dag ásamt fulltrúum ungliðahreyfinga annarra stjórnmálaflokka.

Meðal þeirra sem tóku þátt í göngunni voru Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins, dómsmálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis.

Tókst afar vel til og var gleðin við völd en ungir sjálfstæðismenn hafa tekið þátt í göngunni nú um árabil undir merkjum einstaklingsfrelsis og slagorðinu: „Fjölbreytni þrífst best í frjálsu samfélagi.”

Sjálfstæðisflokkurinn óskar aðstandendum hátíðarinnar og öllu hinsegin fólki á Íslandi innilega til hamingu með afar vel heppnaða Hinsegin daga á tuttugu ára afmæli gleðigöngunnar.