Fyrir frelsið, fyrir neytendur

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins, dómsmálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Þú, les­andi góður, get­ur valið af hverj­um þú kaup­ir raf­magn. Þú get­ur farið á netið hvenær sem er, gert verðsam­an­b­urð með ein­föld­um hætti og skipt um orku­sala á auga­bragði.

Sam­keppn­in í orku­sölu er ekki full­kom­in en hún er þó fyr­ir hendi. Fyr­ir­tæki nýta sér hana í tölu­verðum mæli og geta þannig sparað um­tals­verðar fjár­hæðir. Ein­stak­ling­ar gera minna af þessu, kannski af því að við erum svo hepp­in að raf­magnið hér er ódýrt. Selj­end­ur fá þó mik­il­vægt aðhald með því að mögu­leik­inn sé fyr­ir hendi.

Nauðsyn­leg for­senda fyr­ir sam­keppni er að all­ir selj­end­ur hafi jafn­an aðgang að lín­un­um sem flytja raf­magnið. Lín­urn­ar eru að miklu leyti í eigu stórra orku­fram­leiðenda og þess vegna er bæði skyn­sam­legt og nauðsyn­legt að setja regl­ur um jafn­an aðgang að þeim.

Orkupakki í þágu neyt­enda

Við sjálf­stæðis­menn erum með réttu stolt­ir af því að hafa staðið fyr­ir frelsi­svæðingu á mörg­um sviðum at­vinnu­lífs­ins, ekki síst und­ir lok síðustu ald­ar.

Merki­legt skref á þeirri veg­ferð var stigið hinn 26. nóv­em­ber 1999. Þá ákvað Ísland að taka þátt í að staðfesta í sam­eig­in­legu EES-nefnd­inni að fyrsti orkupakk­inn skyldi verða hluti af EES-samn­ingn­um. Stuðlað skyldi að frjálsri sam­keppni í fram­leiðslu og sölu raf­magns.

Árið eft­ir aflétti Alþingi stjórn­skipu­leg­um fyr­ir­vara við þessa ákvörðun. Það var heilla­skref fyr­ir neyt­end­ur, sem hafa í dag val­frelsi sem þeir höfðu ekki þá. Og Hag­fræðistofn­un Há­skóla Íslands komst að þeirri niður­stöðu að aðskilnaður sér­leyf­is- og sam­keppn­is­rekstr­ar hefði leitt af sér þjóðhags­lega hag­kvæm­ara raf­orku­kerfi.

Hár­rétt­ar rök­semd­ir

Í umræðum á Alþingi um inn­leiðingu fyrsta orkupakk­ans 4. maí árið 2000 sagði Tóm­as Ingi Olrich, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins:

„Það er sem sagt kom­inn á virk­ur orku­markaður í Evr­ópu­sam­band­inu. […] Það hef­ur verið heil­mikið átak fyr­ir Evr­ópu­sam­bandið að koma á virk­um sam­keppn­ismarkaði á þessu sviði vegna þess að þarna voru rík­is­fyr­ir­tæki fyr­ir sem ein­kenndu þenn­an markað. En þetta hef­ur tek­ist og t.d. kom­ist á mjög virk­ur gasmarkaður í Evr­ópu og raf­orku­markaður líka.

Lyk­ill­inn að þess­ari markaðsvæðingu orku­mál­anna hef­ur verið að flutn­inga­kerf­in standi sam­keppn­isaðilum opin. Það er minna atriði hverj­ir eru eig­end­ur flutn­inga­kerf­anna. Aðal­atriði máls­ins er að virk sam­keppni kom­ist á þar eð öll­um standi til boða að nýta flutn­inga­kerf­in.“

Og áfram: „Hér hef­ur verið rætt um hversu mikla þýðingu þessi orku­markaður hefði fyr­ir Ísland. Frá mín­um bæj­ar­dyr­um séð kem­ur þetta til með að hafa, a.m.k. fyrst til að byrja með, frek­ar litla þýðingu fyr­ir ís­lenska markaðinn því að hann er ein­angraður. Hins veg­ar er ekki loku fyr­ir það skotið að hér geti orðið raun­hæf sam­keppni um fram­leiðslu og sölu á raf­orku. En hér hlýt­ur að gilda það sama og í Evr­ópu, að til þess að slík sam­keppni kom­ist á er afar mik­il­vægt að menn hafi jafn­an aðgang að flutn­inga­kerf­un­um. Yf­ir­leitt er í þess­um regl­um um sam­keppni á orku­markaði gengið mjög tryggi­lega frá því að fyr­ir­tæk­in sem ann­ast fram­leiðslu og sölu á orku geti ekki ein­okað flutn­inga­kerf­in.

Ég get vel fall­ist á að hér er um mik­il­vægt mál að ræða. Ég er hins veg­ar ekki sam­mála því að þarna sé um hættu­legt mál að ræða. Þetta er hluti af því sam­keppn­is­lands­lagi sem verið er að leiða okk­ur inn í síðan við geng­um í hið Evr­ópska efna­hags­svæði sem hef­ur í stór­um drátt­um orðið okk­ur til góðs.“

Ekki frá­vik held­ur fram­hald

Ótrú­leg­um ósann­ind­um hef­ur verið haldið að fólki um að þriðji orkupakk­inn feli í sér grund­vall­ar­breyt­ing­ar á skip­an orku­mála hér á landi. Það er ein­fald­lega ekki satt. Þriðji orkupakk­inn breyt­ir engu um eðli þeirr­ar frels­is- og markaðsvæðing­ar á fram­leiðslu og sölu raf­magns sem ákveðin var með fyrsta orkupakk­an­um fyr­ir tutt­ugu árum – og sem var í fullu sam­ræmi við stefnu­mörk­un og aðgerðir Sjálf­stæðis­flokks­ins á þeim tíma sem all­ar miðuðu að bætt­um hag neyt­enda.

Voru þeir sem þá stýrðu land­inu að af­sala for­ræði á auðlind­inni til Evr­ópu­sam­bands­ins? Nei, svo sann­ar­lega ekki.

Engu að síður þýðir EES-samn­ing­ur­inn, og í öllu falli inn­leiðing fyrsta orkupakk­ans sem ákveðin var í EES-nefnd­inni 1999 og staðfest af Alþingi ári síðar, að eft­ir­lit með til­tekn­um leik­regl­um í orku­geir­an­um er hjá stofn­un­um EES. Eft­ir­lits­stofn­un EFTA (ESA) hef­ur t.d. stöðvað íviln­an­ir til orku­freks iðnaðar á grund­velli rík­is­styrkja­banns EES. Sama stofn­un fer líka yfir orku­sölu­samn­inga til stóriðju til að sann­reyna að þeir séu gerðir á markaðsleg­um for­send­um. Þessi staða hef­ur verið uppi í a.m.k. tutt­ugu ár án þess að það hafi valdið upp­námi, enda eng­in ástæða til.

Í þriðja orkupakk­an­um felst ekk­ert af­sal á for­ræði yfir auðlind­inni. Ekk­ert raun­veru­legt valda­framsal á sér stað, vegna þess að Ísland er ótengt. Eng­ar er­lend­ar stofn­an­ir öðlast vald­heim­ild­ir hér á landi við inn­leiðing­una. All­ir fræðimenn sem fjallað hafa um málið eru sam­mála um að inn­leiðing­in stand­ist stjórn­ar­skrá.

Þetta eru staðreynd­ir máls­ins.

Frem­ur en að hverfa aft­ur til hafta og ein­ok­un­ar ætt­um við að mínu viti að horfa til framtíðar og freista þess að nýta kosti sam­keppn­inn­ar enn bet­ur en hingað til, í þágu neyt­enda, ásamt því að tryggja bet­ur af­hend­ingarör­yggi og auka jafn­ræði varðandi dreif­ing­ar­kostnað raf­orkunn­ar, eins og við höf­um full­ar heim­ild­ir til að gera.

Greinin birtist fyrst i sunnudagsblaði Morgunblaðsins 11. ágúst 2019.