Glæsileg mæting á Akranesi

Vel á sjöunda tug fundarmanna mættu á opinn fund þingflokks Sjálfstæðisflokksins á Akranesi í hádeginu í dag.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins, dómsmálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þingmennirnir Haraldur Benediktsson, Bryndís Haraldsdóttir og Vilhjálmur Árnason ræddu stjórnmálaviðhorfið og sátu fyrir svörum.

Góðar umræður urðu um ýmis mál s.s. iðnaðarmál, orkumál almennt og einnig barst þriðja raforkutilskipun ESB á góma.

Fundurinn er hluti af fundaröð þingflokksins í kjölfar vel heppnaðrar hringferðar flokksins fyrr á árinu. Að þessu sinni munu þingmenn fara vítt og breitt um landið í smærri hópum og ræða við flokksmenn um það sem efst er á baugi. Fundurinn á Akranesi var annar fundurinn af fimmtán sem þingflokkurinn efnir til í þessari viku. Næsti fundur þingflokksins verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði kl. 20:00 í kvöld.