Fiskeldi og orkumál Vestfirðinga rædd á Ísafirði

Fiskeldi, þungt regluverk, orkumál Vestfirðinga, sameining sveitarfélaga, samgöngumál og orkumál almennt voru mál málanna á opnum fundi þingflokks Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði í kvöld.

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og þingmennirnir Sigríður Á. Andersen og Ásmundur Friðriksson  ræddu stjórnmálaviðhorfið og sátu fyrir svörum.

Fundinn sóttu um 60 gestir og voru umræður góðar og málefnalegar.

Fundurinn er hluti af fundaröð þingflokksins í kjölfar vel heppnaðrar hringferðar flokksins fyrr á árinu. Að þessu sinni munu þingmenn fara vítt og breitt um landið í smærri hópum og ræða við flokksmenn um það sem efst er á baugi. Fundurinn á Ísafirði var þriðji fundurinn af fimmtán sem þingflokkurinn efnir til í þessari viku. Næsti fundur þingflokksins verður í Eyvindarstofu á Blönduósi kl. 17:30 á morgun og um kvöldið verða fundir annars vegar á Ljósheimum í Skagafirði kl. 20:00 og í safnaðarheimilinu á Reyðarfirði á sama tíma.