Á þriðja hundrað manns á fundi í Valhöll

„Okkar grunnstefna stendur óhögguð þótt viðfangsefnin hverju sinni geti verið breytileg. Við látum því ekki deigan síga, heldur höldum baráttu okkar áfram með trú á að góð verk og traust stefna skili árangri og góðum stuðningi þegar upp er staðið,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra á opnum fundi þingflokks Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í dag.

Vel á þriðja hundrað manns sóttu fundinn og var bókstaflega fullt út úr dyrum.

„Í vikunni sáum við fréttir af því að fyrstu íbúðakaupendum fjölgar nú verulega, 27,7% m.v. 7,5%  2009, sem sýnir að áherslur okkar á því sviði hafa skilað árangri. Sama má í reynd segja um ríkissjóð sem hafði safnað miklu skuldum á slæmum kjörum. Þeirri stöðu hefur verið snúið við, skuldir ríkissjóðs hafa verið stórlækkaðar og við höfum aldrei áður í sögunni notið jafn hagstæðra lánskjara. Skattar hafa lækkað og munu áfram lækka, úrelt neyslustýring í formi vörugjalda og tolla var lögð af,“ sagði Bjarni í ávarpi sínu.

Skattalækkanir áfram á dagskrá

Hann ræddi um skattamál og sagði: „Við sjálfstæðismenn höfum alveg frá hruni lagt áherslu á sanngjarna skatta, heilbrigt umhverfi fyrir atvinnulífið, mikilvægi þess að hafa trú á fólkinu í landinu og tækifærunum sem í landinu búa. Ég skil vel að mörgum félögum okkar finnist að við hefðum átt að ná meiri árangri í skattalækkunum, en hann er umtalsverður og enn höldum við áfram að lækka skatta í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga í vor.“

Bjarni ræddi einnig sérstakt átak í endurskoðun á eftirlitsreglum sem fram fer nú í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og einföldun afgreiðsluferla vegna leyfisveitinga.

Styrkurinn býr í fólkinu

„Við sjálfstæðismenn sækjum orku í samskipti við fólk og fátt hefur okkur þótt heppnast betur í þeim efnum en hringferðin nú eftir áramót. Við héldum saman umræðuefnum og athugasemdum frá öllum 50 fundunum sem hafa orðið okkur uppspretta hugmynda og úrbóta í störfum okkar. Þessi fundur hér í dag er fyrsti í röð nýrrar fundaraðar, sem við í þingflokknum stöndum fyrir, reyndar ekki 50 fundir, en þeir verða að minnsta kosti svona 15 á næstu dögum, um allt land,“ sagði Bjarni og bætti við: „Við vitum að í fólkinu okkar um allt land býr styrkurinn og viljinn til að snúa bökum saman og sýna hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn, eftir 90 ár, er jafn stór, breiður, kjarkmikill og öflugur flokkur og raun ber vitni.“

Felur ekki í sér valdaframsal

„Orkumálin eru lykilmálaflokkur og ekki tilviljun að við höfum sóst eftir ráðuneyti orkumála í ríkisstjórn. Orkustefna er nú í mótun og skiptir miklu að þar takist vel til. Umræða um sæstreng er sömuleiðis afar mikilvæg því það yrði grundvallarbreyting í öllu samhengi orkumálanna ef landið yrði í framtíðinni tengt öðrum raforkukerfum,“ sagði Bjarni og gerði orkupakka þrjú og sæstreng að umræðuefni:

„Málið felur ekki í sér valdaframsal til stofnana ESB, við ætlum ekki að virkja til að selja orku í þágu annarra en landsmanna, og með málinu er ekki opnað á lagningu sæstrengs frekar en orðið er.  Það er sjálstætt mál og það er ekki á dagskrá stjórnvalda að vinna að lagningu sæstrengs.“

Bjarni ræddi einnig EES-samninginn og sagði að í haust myndi vinnu starfshóps ljúka við að skoða kosti og galla EES-samstarfsins í tilefni af aldarfjórðungsaðild Íslendinga að samningnum.

Þá sagði hann: „Ég tek eftir því að málið hefur vakið upp umræðu um eðli EES-samningsins. Fyrir okkur sem höfum komið nálægt framkvæmd samningsins í langan tíma, hljómar þar margt furðulega. Það er eins og margir séu fyrst nú að átta sig á eðli samningsins, eins og gagnkvæmni og einsleitni innri markaðarins.“

Hann ræddi 102. grein samningsins sem felur í sér höfnun á innleiðingu einstakra gerða og sagði m.a.: „Í þessu samhengi er sjálfsagt að benda á að frestun á viðaukunum myndi gilda fyrir öll EFTA-ríkin, þar með talinn Noreg, og málið gæti ratað aftur á byrjunarreit í Noregi. Þeir sem átta sig á þessu hljóta að skilja hvers vegna hagsmunaaðilar í Noregi hafa mikinn áhuga á málinu á Íslandi. Þeir sem urðu undir í Noregi vilja málið aftur á byrjunarreit þar.“

Að loknu ávarpi Bjarna gafst fundarmönnum færi á að bera fram spurningar og voru fjölmörg mál rædd, m.a. heilbrigðismál, borgarmál, jarðarkaup erlendra aðila, innri mál og staða flokksins, stóriðjumál, sæstrengur, þriðji orkupakkinn, orkumál almennt og landsréttarmálið svokallaða svo nokkur atriði séu nefnd.

Eins og áður hefur komið fram var fundurinn í Valhöll sá fyrsti af 15 fundum sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins efnir til á næstu viku um land allt. Á þeim fundum verður stjórnmálaviðhorfið almennt rætt og opið fyrir spurningar úr sal. Næsti fundur verður í hádeginu þriðjudaginn 13. ágúst á Akranesi og fundur um kvöldið á Ísafirði.