Íbúarnir eiga að ráða

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Eng­inn hag­fræðing­ur, viðskipta­fræðing­ur eða fjár­mála­verk­fræðing­ur er þess um­kom­inn að skera úr um hver sé hag­kvæm­asta stærð sveit­ar­fé­laga. Eng­inn sveit­ar­stjórn­ar­maður, þingmaður eða ráðherra, hef­ur for­send­ur til að ákveða hver skuli vera lág­marks fjöldi íbúa í hverju sveit­ar­fé­lagi svo íbú­arn­ir fái notið þeirr­ar þjón­ustu sem þeir gera kröfu til og eiga rétt á sam­kvæmt lög­um.

Í byrj­un þessa árs voru 72 sveit­ar­fé­lög á land­inu og fækkaði þeim um tvö á liðnu ári. Sam­kvæmt töl­um Hag­stof­unn­ar eru sjö sveit­ar­fé­lög með færri íbúa en 100 og 40 með und­ir 1.000. Aðeins tíu sveit­ar­fé­lög eru fjöl­menn­ari en 5.000. Árið 1990 voru sveit­ar­fé­lög 204 tals­ins þannig að þeim hef­ur fækkað hressi­lega á und­an­förn­um ára­tug­um og þar hafa íbú­arn­ir sjálf­ir fyrst og síðast ráðið ferðinni.

Ekki frum­leg­ar hug­mynd­ir

Reglu­lega koma fram hug­mynd­ir um að rétt sé og skylt að þvinga fá­menn sveit­ar­fé­lög til að sam­ein­ast öðrum. Lærðir og leikn­ir taka til máls og færa fyr­ir því (mis­jöfn) rök að það sé lífs­nauðsyn­legt að fækka sveit­ar­fé­lög­um til að ná fram hag­kvæmni stærðar­inn­ar. Til­lög­ur um fækk­un sveit­ar­fé­laga eru ekki frum­leg­ar enda byggj­ast þær á þeirri trú að það sem er lítið sé veik­b­urða og aumt en hið stóra og fjöl­menna sterkt og burðugt. Sem sagt: Stórt er betra en lítið og fjöl­menni er hag­kvæm­ara en fá­menni.

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins (SA) gáfu út skýrslu árið 2016 þar sem lagt var til að stefnt yrði að um­fangs­mik­illi sam­ein­ingu þannig að sveit­ar­fé­lög yrðu tíu. Með stærri og öfl­ugri sveit­ar­fé­lög­um ykj­ust mögu­leik­ar á að flytja fleiri verk­efni frá rík­inu til sveit­ar­fé­lag­anna og hag­kvæmni í rekstri einnig. Skýrsla SA er fróðleg en sá er þetta skrif­ar var og er full­ur efa­semda þótt það skuli ekki dregið í efa að í mörg­um til­fell­um þjóni sam­ein­ing sveit­ar­fé­laga hags­mun­um íbú­anna.

Í júlí 2017 var birt skýrsla verk­efna­stjórn­ar á veg­um ráðherra sveit­ar­stjórn­ar­mála um stöðu og framtíð ís­lenskra sveit­ar­fé­laga. Niðurstaðan var að fækka yrði sveit­ar­fé­lög­um og skil­greina þau verk­efni sem sveit­ar­fé­lög­in verði að geta sinnt. Vegna þessa sé nauðsyn­legt að hækka lág­marks íbúa­fjölda í þrep­um þannig að í árs­byrj­un 2026 verði íbú­ar ekki færri en eitt þúsund. Verk­efna­stjórn­in taldi rétt að sam­ein­ing­ar sveit­ar­fé­laga vegna lög­bund­ins lág­marks fjölda verði ekki born­ar und­ir íbúa í at­kvæðagreiðslu. Með öðrum orðum: Íbú­arn­ir eiga ekki að ráða för.

„Hag­kvæmni stærðar­inn­ar“

Í lok apríl síðastliðins birti sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneytið Græn­bók – stefnu um mál­efni sveit­ar­fé­laga. Bók­in er gott inn­legg í nauðsyn­lega umræðu og stefnu­mót­un en hún var sér­stak­lega kynnt í sam­ráðsgátt stjórn­valda og þar gátu all­ir komið með at­huga­semd­ir og ábend­ing­ar. Græn­bók­in er m.a. byggð á fyrr­nefndri skýrslu verk­efna­stjórn­ar. Í frétt Rík­is­út­varps­ins í síðustu viku kom fram að stefnt er að því að leggja fram í haust þings­álykt­un­ar­til­lögu um stefnu­mark­andi áætl­un rík­is­ins í mál­efn­um sveit­ar­fé­laga.

Rauði þráður­inn í rök­semd­um þeirra sem vilja fækka sveit­ar­fé­lög­um – gera þau fjöl­menn­ari – er „hag­kvæmni stærðar­inn­ar“. Vænt­hag­kvæmni og von um lægri stjórn­sýslu­kostnað á hvern íbúa get­ur hins veg­ar ekki markað stefn­una í þess­um efn­um. Excel-skjöl og reiknilíkön geta verið ágæt til síns brúks en aðeins sam­fé­lags­verk­fræðing­ar taka þau sem al­gild sann­indi.

Reyk­vík­ing­ar vita það öðrum Íslend­ing­um bet­ur að „stærðar­hag­kvæmn­in“ trygg­ir ekki að fjár­mun­ir íbú­anna séu nýtt­ir með skyn­sam­leg­um hætti og að þeir fari til þeirra verk­efna sem þeir leggja áherslu á. Ánægja er ekki í beinu sam­hengi við fjölda. Hvernig kjörn­um full­trú­um í sveit­ar­stjórn­um tekst að upp­fylla skyld­ur sín­ar við íbú­ana ræðst held­ur ekki af stærð og fjöl­menni. Þá verða rök fyr­ir „hag­kvæmni stærðar­inn­ar“ ekki sótt í rekst­ur og efna­hag sveit­ar­fé­laga – það er hrein­lega ekki hægt að draga þá álykt­un að ár­ang­ur sé best tryggður með stór­um ein­ing­um.

„Rétt“ tala ekki til

Sveit­ar­stjórn Grýtu­bakka­hrepps hitt­ir nagl­ann á höfuðið í um­sögn um Græn­bók­ina. Það er eng­in „rétt“ tala til um lág­marks­fjölda íbúa:

„Sam­ein­ing og/​eða sam­starf sveit­ar­fé­laga verður að byggj­ast á fjár­hags­leg­um, fé­lags­leg­um og land­fræðileg­um for­send­um en ekki bara á höfðatölu. Fyrst og síðast á þó vilji íbúa að ráða ferð svo sem verið hef­ur. Eng­in „rétt“ tala er til fyr­ir lág­marks íbúa­fjölda í sveit­ar­fé­lög­um á Íslandi.

Sveit­ar­stjórn Grýtu­bakka­hrepps hafn­ar al­farið hug­mynd­um um lögþvingaða sam­ein­ingu sveit­ar­fé­laga og hvet­ur ráðamenn til að virða hags­muni íbúa og sjálfs­ákvörðun­ar­rétt í eig­in mál­efn­um.“

Hér er tekið und­ir með sveit­ar­stjórn Grýtu­bakka­hrepps.

Ég hef haldið því fram að eft­ir því sem fjar­lægðin verður meiri milli íbú­anna og stjórn­sýsl­unn­ar séu aukn­ar lík­ur á því að sam­eig­in­leg­ir fjár­mun­ir sveit­ar­fé­lags­ins finni sér ann­an far­veg en vilji íbú­anna stend­ur til. Eng­in hverf­is­ráð eða ra­f­ræn­ar kosn­ing­ar koma í stað þess aga sem fólg­inn er í ná­lægð íbú­anna við kjörna full­trúa og stjórn­sýslu. (Grafar­vogs­bú­ar hafa marg­ir velt því fyr­ir sér hvort hags­mun­um þeirra sé ekki bet­ur borgið í sjálf­stæðu sveit­ar­fé­lagi en að til­heyra Reykja­vík. Af sjón­ar­hóli meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar virðist út­sýni til út­hverfa borg­ar­inn­ar vera tak­markað.)

Skort­ur á sam­keppni

Í allri umræðunni um sam­ein­ingu sveit­ar­fé­laga fer lítið sem ekk­ert fyr­ir þeirri hugs­un að það kunni að þjóna hags­mun­um lands­manna að ýtt sé und­ir sam­keppni sveit­ar­fé­laga. Sam­keppni um íbúa og fyr­ir­tæki kem­ur aga á rekst­ur og stuðlar um leið að betri þjón­ustu. Lög­mál sam­keppn­inn­ar gilda um sveit­ar­fé­lög líkt og aðra starf­semi. Skort­ur á sam­keppni, ekki síst í þjón­ustu hins op­in­bera og fyr­ir­tækja rík­is og sveit­ar­fé­laga, er vanda­mál sem við Íslend­ing­ar glím­um við. Þegar mörkuð er stefna til langr­ar framtíðar um mál­efni sveit­ar­fé­laga er frá­leitt annað en að huga að þess­um þætti.

Það skipt­ir okk­ur öll miklu hvernig til tekst við rekst­ur sveit­ar­fé­lags­ins, sem við höf­um valið að búa í. Mörg sveit­ar­fé­lög eru til fyr­ir­mynd­ar og hafa náð að samþætta öfl­uga þjón­ustu og hóf­semd í álög­um á ein­stak­linga og fyr­ir­tæki. Því miður er fjöl­menn­asta sveit­ar­fé­lagið ekki fyr­ir­mynd í þess­um efn­um.

Sam­ein­ing og fækk­un sveit­ar­fé­laga get­ur verið ákjós­an­leg og skyn­sam­leg. Það á hins veg­ar ekki að vera sér­stakt mark­mið í sjálfu sér að fækka sveit­ar­fé­lög­um – mark­miðið er standa vel að þjón­ustu við borg­ar­ana. Excel-skjal sem unnið er í Kvos­inni í Reykja­vík get­ur ekki orðið leiðar­vís­ir held­ur aðeins vilji íbú­anna sjálfra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. ágúst 2019.