Jarðir og eignarhald þeirra

Haraldur Benediktsson alþingismaður:

Ég verð að segja þetta enn einu sinni: Það er nauðsyn­legt að haf­ist verði handa við skipu­lega sölu búj­arða í eigu rík­is­ins. Þetta hef­ur öll­um sem til þekkja verið lengi ljóst. Um leið er mik­il­vægt að mótuð sé al­menn heild­stæð stefna um eign­ar­hald jarða hér á landi og ná sátt­um um hvaða kröf­ur eðli­legt er að gera til eig­enda þeirra.

Ábúðar­kerfið og leigu­kerfið er gam­al­gróið og var lengst af í hönd­um land­búnaðarráðuneyt­is­ins, en var fært til fjár­málaráðuneyt­is­ins fyr­ir all­mörg­um árum.

Það tók tíma sinn en nú er loks­ins búið að setja eig­enda­stefnu rík­is­ins um jarðir. Hún er ít­ar­leg og í henni er m.a. að finna stefnu­mörk­un um meðferð rík­is­j­arða. Ekki aðeins búj­arða. Sú stefna er staðfest að ríkið efli og styrki byggð og bú­setu við sölu og meðferð búj­arða. Efla á land­búnað og sækja fram til blóm­legri byggða.

Með stefn­unni er sér­stak­ur viðauki sem fjall­ar sér­stak­lega um ábúðar­jarðir, þ.e. jarðir sem eru í rekstri og eru mik­il­væg­ar fyr­ir áfram­hald­andi búrekst­ur.

Aldrei skal því haldið fram að ein­falt verk sé að fylgja slíkri stefnu eft­ir. En eig­enda­stefn­an staðfest­ir það mark­mið að stuðla eigi að auk­inni byggðafestu. Í umræðu um jarðir og eign­ar­hald hef­ur ríkið því markað skýra stefnu. Stefnu sem ber með sér að ekki á nokk­urn hátt er ætl­un­in að verða til þess að veikja byggð og bú­setu í sveit­um.

Það er ástæða til að draga þetta fram því í frétt­um eru oft viðraðar áhyggj­ur fólks af jarðasöfn­un inn­lendra og/​eða er­lendra auðmanna. Ríkið hef­ur eng­an hug á að selja jarðir sín­ar til að styðja þá þróun. En spyrja má á móti – hvaða stefnu hafa nú­ver­andi eig­end­ur jarða?

Þarf frek­ari regl­ur um eign­ar­hald jarða?

Umræðan um eign­ar­hald hef­ur verið mjög líf­leg frá breyt­ingu jarðalaga 2004. Þá var m.a. fellt á brott ákvæði um for­kaups­rétt sveit­ar­fé­laga. Rétt­ur sem var til að gefa sam­fé­lög­um færi á að hafa áhrif á þróun byggðar.

Sveit­ar­fé­lög fara með skipu­lags­valdið og hafa marg­vís­leg úrræði til að hafa raun­veru­leg áhrif á þróun byggðar og eign­ar­halds á jörðum. Hvers vegna er ekki umræða um að sveit­ar­fé­lög­in beiti þeim? Úrræði sem m.a. fel­ast í valdi til skatt­lagn­ing­ar og skil­grein­ing­ar á þjón­ustu við fast­eigna­eig­end­ur.

Oft er vísað til danskra laga­ákvæða um bú­setu­skyldu á jörðum. Það þarf ekki að vera rangt að beita henni hér á landi í ein­hverj­um mæli. En spyrja má líka hvort sveit­ar­fé­lög hafi þegar heim­ild­ir þannig að þau geti með af­ger­andi hætti haft áhrif á meðferð og nýt­ingu búj­arða eða hvort eigi mögu­lega að styrkja þær. Um þetta atriði verður að fara fram umræða. Það á ekki að vera sjálfsagt og eðli­legt að leggja niður ábúð og nýt­ingu búj­arða. Til þess standa miklu rík­ari hags­mun­ir en einka­hags­mun­ir jarðeig­and­ans.

Er kæru­leysi gagn­vart skyld­um og hlut­verki jarðeig­enda?

Þeirri spurn­ingu svara ég ját­andi. Í mín­um huga er spurn­ing um eign­ar­hald – hvort sem það er í hönd­um inn­lendra eða er­lendra aðila – ekki meg­in­at­riði ef jarðir eru setn­ar og nýtt­ar. Miklu meira máli skipt­ir hvernig eig­end­ur halda á þess­um eign­um sín­um og nýta þær. Í lög­um um fjöl­býl­is­hús eru marg­vís­leg íþyngj­andi ákvæði og skyld­ur fast­eigna­eig­enda. Ég vil miklu frek­ar að við end­ur­skoðun jarðalaga verði skerpt á skyld­um jarðeig­enda. Það er al­vöru­mál að eiga bújörð. Meðferð henn­ar og nýt­ing hef­ur af­ger­andi áhrif á mögu­leika þeirra sem búa í ná­grenni þeirra og þar með sam­fé­lagið sem þær til­heyra

Samþjöpp­un á eign­ar­haldi hlunn­indaj­arða

Ásamt fleiri þing­mönn­um lagði ég fram frum­varp um breyt­ing­ar á ákvæðum laga um veiðifé­lög. Þeim er ætlað að verja og vernda jarðeig­end­ur fyr­ir að lenda í þeirri stöðu að verða of­urliði born­ir af aðilum sem kaupa hlunn­indaj­arðir og ná meiri­hluta at­kvæða í veiðifé­lög­um, oft í þeim eina til­gangi.

Auðvitað má halda því fram að slíkt ákvæði skerði eign­ar­rétt. Það er eng­in að þræta fyr­ir það. En gleym­um ekki að meg­in­til­gang­ur laga um veiðifé­lög hef­ur alltaf verið að standa vörð um byggð og bú­setu. Um þetta má m.a. lesa í ný­leg­um hæsta­rétt­ar­dómi. Hef­ur það kannski gleymst? Því miður virðist sem marg­ir veiðirétt­ar­eig­end­ur hafi fjar­lægst meg­in­mark­mið lag­anna eða aldrei skilið þær óskráðu skyld­ur sem þeir hafa und­ir­geng­ist.

En hver er eig­enda­stefna bænd­anna sjálfra?

Lang­flest­ir bænd­ur velja að selja jarðir sín­ar til áfram­hald­andi bú­setu og rekstr­ar – sé þess nokk­ur kost­ur. En gleym­um held­ur ekki að skatt­kerfið hef­ur haft eyðandi áhrif á byggð und­an­far­in ár. Því er nauðsyn­legt að end­ur­skoða skatta­lega meðferð á sölu­verði jarða. Um það hef­ur og verið lagt fram ein­falt og skil­virkt frum­varp. Það má jafn­vel halda því fram að skatt­lagn­ing á sölu­verðmæti jarða hvetji til sölu úr bú­setu og nýt­ingu.

Verk­efnið um eign­ar­hald jarða og bú­setu á þeim er margþætt og verður að ræða heild­stætt með hags­muni sem flestra að leiðarljósi.

En öll þessi umræða verður þó aldrei slit­in úr sam­bandi við af­komu og sam­keppn­is­hæfni land­búnaðar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. júlí 2019.