Nærbuxnaverslun ríkisins

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Fjöl­miðlarekst­ur, flutn­inga­starf­semi, fjár­málaþjón­usta, póst­b­urður, orku­fram­leiðsla, orku­sala, heil­brigðisþjón­usta og versl­un­ar­rekst­ur. Allt eru þetta dæmi um starf­semi sem einkaaðilar eru full­fær­ir um að sinna – enda gera þeir það á hverj­um degi. Á sama tíma á ríkið beina aðkomu að öll­um þess­um at­vinnu­grein­um, í flest­um til­vik­um í sam­keppni við einkaaðila.

Það vek­ur oft at­hygli – og furðu – hversu áköf rík­is­fyr­ir­tæk­in eru í sam­keppni við einkaaðila og á það sér­stak­lega við hin op­in­beru hluta­fé­lög (ohf.) Isa­via rek­ur bíla­stæði við flug­stöð og reyn­ir að hrekja í burt sam­keppni, Ísland­s­póst­ur und­ir­býður sendi­bíla­stöðvar til að keyra út vör­ur fyr­ir IKEA og RÚV þurrk­ar upp aug­lýs­inga­markaðinn fyr­ir stóra viðburði. Þessi op­in­beru hluta­fé­lög gefa ekk­ert eft­ir og ganga jafn­vel harðar fram í sam­keppn­inni en nokk­urt einka­fyr­ir­tæki myndi gera. Ekk­ert af þessu hef­ur þó með al­mannaþjón­ustu að gera. Það er ekki nauðsyn­legt fyr­ir ríkið að selja nær­föt og sæl­gæti í flug­stöðinni eða sinna bíla­stæðum við hana, svo tek­in séu dæmi.

Hin op­in­beru fé­lög haga sér oft eins og ríki í rík­inu og kæra sig lítið um það að stjórn­mála­menn hafi skoðanir á því hvernig þau haga sér. Staðreynd­in er þó sú að stjórn­mála­menn eru kjörn­ir full­trú­ar al­menn­ings, hins raun­veru­lega eig­anda fé­lag­anna. Rík­is­fyr­ir­tæk­in eiga sig ekki sjálf og eru þar síður í eigu stjórn­enda þeirra.

Það þarf ekki að nálg­ast rík­is­rekst­ur eins og trú­ar­brögð, annaðhvort vera með eða á móti. Það er þó í raun eng­in ástæða fyr­ir ríkið að veita alla þá þjón­ustu sem það ger­ir í gegn­um fjöl­mörg fyr­ir­tæki sín ef að einkaaðilar eru til þess falln­ir að veita hana. Ríkið þarf ekki að reka fjöl­miðil, það þarf ekki að reka póstþjón­ustu, flug­stöð þarf ekki að vera í rík­is­eigu og ríkið þarf ekki að reka fjár­mála­fyr­ir­tæki. Ríkið ætti frek­ar að ein­beita sér að því að for­gangsraða í þá grunnþjón­ustu sem við höf­um komið okk­ur sam­an um að ríkið sinni.

Við sem staðsetj­um okk­ur hægra meg­in við miðju meg­um ekki vera feim­in við að nefna þetta. Mark­miðið er skýrt; við vilj­um að hér búi fólk við framúrsk­ar­andi lífs­kjör, njóti fjöl­breyttra tæki­færa og hafi aðgang að öfl­ugri grunnþjón­ustu. Með það að mark­miði er mik­il­vægt að for­gangsraða verk­efn­um rík­is­ins – ekki síst til að gæta þess að stíga ekki á tær einkaaðila í sam­keppn­is­rekstri. Það ætti aldrei að vera hægt að rétt­læta at­vinnu­rekst­ur rík­is­ins í sam­keppni við einkaaðila. Ef einkaaðilar eru ekki að sinna til­tek­inni þjón­ustu, þá fyrst get­um við rætt hvort og hvernig ríkið ætti að sinna henni.

Við stjórn­mála­menn þurf­um að hafa burði til þess að búa til um­hverfi þar sem fjöl­breytt­ur at­vinnu­rekst­ur þrífst og sam­fé­lag þar sem verðmæti eru sköpuð.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. júlí 2019.