Sóknarfæri fyrir íslenska matvælaframleiðslu

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Alþingi samþykkti nýverið frumvarp mitt um afnám hinnar svokölluðu frystiskyldu á m.a. kjöti sem flutt er til Íslands frá Evrópska efnahagssvæðinu. Með frumvarpinu er brugðist við skýrum dómum EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands um að leyfisveitingakerfið og þar með frystiskyldan séu brot á skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Með því verður loks framfylgt þeirri skuldbindingu sem Alþingi samþykkti og tók gildi árið 2011. Þannig verður hinu ólögmæta ástandi, sem nú hefur varað í um átta ár, aflétt og endi bundinn á ótakmarkaða skaðabótaskyldu íslenska ríkisins.

Frumvarpið er afrakstur vinnu sem hefur átt sér stað í mínu ráðuneyti undanfarna 18 mánuði. Stærstur hluti hennar hefur falist í að móta umfangsmikla og nauðsynlega aðgerðaáætlun til að tryggja öflugar varnir og öryggi matvæla og búfjárstofna. Jafnframt hafa verið undirbúnar aðgerðir til að styrkja samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Hluti þessara aðgerða snýr beint að afnámi leyfisveitingakerfisins en stærstum hluta þeirra er með almennum hætti ætlað að stuðla að fyrrgreindum markmiðum. Samhliða samþykkt frumvarpsins var aðgerðaáætlunin samþykkt með öllum greiddum atkvæðum sem sérstök þingsályktun til að undirstrika mikilvægi þeirri aðgerða sem þar er að finna. Sú áætlun mætir þeim áskorunum sem fyrrgreindar breytingar leiða af sér en um leið felast í henni mikil tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðslu.

Lýðheilsa og vernd búfjárstofna

Stærsta áskorun stjórnvalda við undirbúning frumvarpsins var að tryggja sterka stöðu Íslands þegar kemur að vörnum gegn kampýlóbaktersýkingum en Ísland býr við þá öfundsverðu stöðu að tíðni kampýlóbaktersýkinga er sú lægsta í Evrópu. Í því frumvarpi sem nú hefur verið samþykkt er leidd í lög sú krafa að innflutt alifuglakjöt fullnægi sömu kröfum og gerð hefur verið til innlendrar framleiðslu undanfarna tvo áratugi. Þannig verður sterk staða Íslands þegar kemur að vörnum gegn kampýlóbakter sýkingum tryggð.

Fleiri aðgerðir mætti nefna til að tryggja enn frekar lýðheilsu og vernd búfjárstofna. Þannig verður áhættumatsnefnd sett á fót á næstu dögum en hlutverk hennar samkvæmt lögum er m.a. að hafa umsjón með framkvæmd vísindalegs áhættumats á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru. Þá verður farið í átak til að auka fræðslu til ferðamanna um innflutning afurða úr dýraríkinu.

Loks má í þessari knöppu yfirferð nefna átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi en það er verkefni sem við Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, settum af stað í febrúar sl. Ríkisstjórnin hefur nú samþykkt tillögu okkar beggja að aðgerðum sem eru fjármagnaðar bæði á þessu ári og til framtíðar.

Bætt samkeppnisstaða

Veigamikill hluti þeirrar 17 liða aðgerðaáætlunar sem nú hefur verið samþykkt snýr að því að bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þannig má nefna að ríkisstjórnin samþykkti í maí sl. tillögu mínu um innkaupastefnu matvæla fyrir ríkisaðila en kjarni hennar er að innkaup ríkisaðila á matvælum byggi á markmiðum um sjálfbærni, góða lýðheilsu og umhverfisvitund.

Nú er í gangi átak um betri merkingar matvæla, m.a. um bættar upprunamerkingar, en ég vonast eftir að við getum stigið ákveðin skref í þeirri vinnu á komandi hausti. Einnig er unnið að því að setja á fót sérstakan matvælasjóð með sérstaka áherslu á eflingu nýsköpunar í innlendri matvælaframleiðslu auk þess sem unnið er að mótun matvælastefnu fyrir Ísland. Loks vil ég nefna í þessu samhengi aðgerð er lýtur að þróun tollverndar og stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Sú vinna hefur verið í undirbúningi í ráðuneytinu síðustu vikur og mánuði en þetta verkefni verður unnið í samráði við Bændasamtök Íslands og Samtök atvinnulífsins.

Tækifærin blasa við

Afrakstur framangreindrar vinnu er samstillt átak þar sem ólögmætt leyfiskerfi er afnumið á sama tíma og öryggi matvæla og vernd búfjárstofna er treyst enn frekar. Þetta eru tímamót í mínum huga og fagnaðarefni. Tækifærin sem framangreind verkefni fela í sér fyrir íslenska matvælaframleiðslu blasa við. Verkefni næstu mánaða verður að framfylgja þeim af festu og geng ég bjartsýnn til þess verks.

Greinin birtist fyrst í Austurlandi 4. júlí 2019.