Meirihlutinn gengur á Elliðaárdalinn

Björn Gíslason borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Elliðaárdalurinn er einstök náttúruperla í höfuðborginni okkar, höfuðborg allra landsmanna. Nú berast fregnir að því að meirihluti borgarstjórnar, sem gefur sig út á tyllidögum fyrir að setja umhverfismálin á oddinn sé búinn að heimila uppbyggingu gríðarstórra mannvirkja í Elliðaárdalnum.

Hugmyndin er að gengið verði á Elliðaárdalinn með mannvirkjum og byggingum skv. tillögu að deiliskipulagi sem var samþykkt í skipulags- og samgönguráði á síðasta fundi ráðsins. Hér er um að ræða deiliskipulag fyrir Stekkjarbakka Þ73 en í tillögunni eru skilgreindir byggingarreitir, nýjar lóðir og hámarks byggingarmagn, samtals tæpir 43 þúsund fermetrar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu lögðust gegn þessari tillögu, enda leggja allir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur ríka áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu og leggjast gegn hvers kyns húsnæðisuppbyggingu sem gengið gæti nærri slíkum svæðum.

Árið 2014 lagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, að eigin sögn, fram tillögu í borgarráði um friðun Elliðaárdals í deiliskipulagi með svokallaðri hverfisvernd. Svo virðist sem tillögu Dags hafi ekki verið fylgt eftir, þótt hann haldi öðru fram.

Við Sjálfstæðismenn í borgarstjórn höfum ítrekað bent á að friðun með hverfisvernd í deiliskipulagi hefur ekki sömu réttaráhrif og friðlýsing samkvæmt náttúruverndarlögum. Þetta er staðreynd og sýnir sig nú þegar tillaga hins svokallaða „græna meirihluta“ um eyðileggingu Elliðaárdalsins var lögð fram í síðustu viku og samþykkt af fulltrúum þeirra.

Fá tækifæri til að sýna sitt rétta andlit

Þannig eru Elliðaár og nærliggjandi svæði hvorki friðuð með hverfisvernd né samkvæmt náttúruverndarlögum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað lagt til að að unnið verði að því, í samráði við umhverfisráðherra og Umhverfisstofnun, að Elliðaárdalur og nærliggjandi svæði verði friðlýst með þeim hætti sem kveðið er á um í 38. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Þetta hefur verið hundsað af meirihlutanum sem vill kenna sig við umhverfisvernd. Það er staðreynd. Það er með ólíkindum að borgarstjórinn sem slær sér upp með verðlaunum fyrir umhverfisvernd skuli leggja allt kapp á eyðileggingu Elliðaárdalsins. Ætlar borgarstjórinn og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs virkilega að standa að því að taka 43 þúsund fermetra lands í miðjum Elliðaárdalnum undir þessa uppbyggingu?

Í dag verður tillaga meirihlutans lögð fyrir í borgarráði til staðfestingar. Þá munu borgarstjórinn, góðkunni, og Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs, fá tækifæri til að sýna sitt rétta andlit. Þá munu borgarbúar geta metið það á eigin skinni hvar þessir fulltrúar standa í raun og veru þegar kemur að umhverfismálum. Sjálfstæðismenn munu a.m.k. ekki taka þátt í þessum skrípaleik og greiða atkvæði gegn þessari vondu tillögu. Ef af verður munu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ekki láta sitt eftir liggja í að mæta þessu af hörku.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. júlí 2019.