Petrea unnið í 37 ár fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Petrea Ingibjörg Jónsdóttir skrifstofustjóri Sjálfstæðisflokksins  fagnar þeim merka áfanga í dag að hafa starfað í 37 ár hjá Sjálfstæðisflokknum. Petrea hóf störf fyrir flokkinn hinn 1. júlí 1982, í formannstíð Geirs Hallgrímssonar, og hefur frá þeim tíma leitt fjölbreytt og krefjandi verkefni.

Alls hefur hún starfað undir stjórn fimm formanna og jafn margra framkvæmdastjóra. Hún er, og hefur verið, hjartað og sálin í reglubundnum rekstri flokksins. Til hennar hafa allir getað leitað með sín úrlausnar- og hugðarefni tengd starfsemi flokksins, enda þekkir hún hvern krók og kima í flokknum og hefur miðlað af þekkingu sinni og reynslu af einstakri lagni.

Framlag hennar til flokksins, og þeirrar hugmyndafræði sem hann stendur fyrir, hefur verið ómetanlegt og vill flokkurinn við þessi tímamót færa henni innilegustu þakkir fyrir störf sín til þessa.