Réttmæt krafa

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Í ríf­lega ára­tug hef­ur mak­ríll gengið í veru­legu magni inn í ís­lenska lög­sögu í fæðuleit í sam­keppni við aðra stofna. Áhrif þess eru óum­deild enda á sér stað mik­il þyngd­ar­aukn­ing þess mak­ríls sem hingað geng­ur og er talið að um fjórðung­ur stofns­ins dvelji hér að jafnaði sum­ar­langt á hverju ári. Veiðar ís­lenskra skipa urðu fyrst um­tals­verðar á ár­inu 2007 og juk­ust síðan hröðum skref­um. Með tím­an­um varð það afstaða Íslands að sann­gjörn hlut­deild í heild­ar­veiðum mak­ríls væri á bil­inu 16-17%.

Í 10 ár hafa Íslend­ing­ar lagt sig fram um að ná samn­ingi um nýt­ingu stofns­ins og í því sam­bandi varpað fram nýj­um hug­mynd­um og staðið fyr­ir sér­stök­um samn­ingalot­um. Því miður hef­ur öll sú viðleitni reynst ár­ang­urs­laus. Árið 2014 gerðu Nor­eg­ur, Fær­eyj­ar og Evr­ópu­sam­bandið með sér samn­ing til fimm ára sem síðan var end­ur­nýjaður óbreytt­ur síðasta haust til tveggja ára. Samn­ing­ur­inn kveður á um að þess­ir aðilar skipta með sér 84,4% heild­arafl­ans en ætla 15,6% til Íslands, Græn­lands og Rúss­lands sem sam­eig­in­lega veiddu um 32% á síðasta ári. Svig­rúmið sem skilið er eft­ir er ekki stórt. Ísland tek­ur al­var­lega alþjóðleg rétt­indi og skyld­ur strand­ríkja þar sem skýrt er kveðið á um sam­starf. Það er allra hag­ur að stunda veiðar og stjórna nýt­ingu sam­eig­in­legra auðlinda á ábyrg­an hátt. Því eru það mik­il von­brigði að Nor­eg­ur, Fær­eyj­ar og Evr­ópu­sam­bandið hafa synjað Íslend­ing­um um rétt til að taka þátt í ákvörðunum um nýt­ingu þessa mik­il­væga stofns. Ný­legt dæmi um þetta er frá fundi strand­ríkja í maí sl. þegar ís­lensk­um vís­inda­mönn­um var meinuð þátt­taka í vinnu við mót­un afla­reglu fyr­ir mak­ríl­stofn­inn í sam­vinnu við Alþjóðahaf­rann­sókn­aráðið, ICES.

Síðan samn­ing­ur Nor­egs, Fær­eyja og Evr­ópu­sam­bands­ins var gerður 2014, hef­ur verið stuðst við þá aðferð að miða kvóta Íslands við 16,5% af þeim viðmiðun­ar­afla sem samn­ingsaðilarn­ir hafa sett sér. Það var gert í þeirri trú að samið yrði við Ísland um þátt­töku í sam­eig­in­legri stjórn veiðanna. Nú er ekk­ert út­lit fyr­ir að svo verði í bráð. Því hef­ur verið ákveðið að miða heild­arafla Íslands við 16,5% af áætluðum heild­arafla þessa árs. Miðað við þær ákv­arðanir sem önn­ur strand­ríki og út­hafsveiðiríki hafa tekið er áætlað að heild­arafli árs­ins 2019 verði 850 þúsund tonn. Í sam­ræmi við þetta er kvóti Íslands fyr­ir árið 2019 ákveðinn 140 þúsund tonn.

Ísland mun hér eft­ir sem hingað til vinna að því að ná heild­ar­sam­komu­lagi allra strand­ríkja um sam­eig­in­lega stjórn mak­ríl­veiða. Það er rétt­mæt krafa okk­ar Íslend­inga að við fáum að taka þátt í ákvörðunum um nýt­ingu stofns­ins til jafns við önn­ur strand­ríki. Það er órétt­mætt að gerð sé krafa á eitt ríki um­fram önn­ur að það dragi úr veiðum ein­hliða.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. júní. 2019