Ólögmætu ástandi aflétt

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

Alþingi samþykkti í þessari viku frumvarp mitt um afnám hinnar svokölluðu frystiskyldu á m.a. kjöti sem flutt er til Íslands frá Evrópska efnahagssvæðinu. Með frumvarpinu er brugðist við skýrum dómum EFTA-dómstólsins og Hæstaréttar Íslands um að leyfisveitingakerfið og þar með frystiskyldan séu brot á skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Leyfisveitingakerfið felur í sér að óheimilt er að flytja inn tilteknar vörur, m.a. kjöt, nema með heimild Matvælastofnunar. Slík heimild er ekki veitt nema að lagt sé fram vottorð sem m.a. staðfestir að vörurnar hafi verið geymdar við a.m.k. -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu.

Ég hef á undanförnum 18 mánuðum lagt á það áherslu að brugðist sé við niðurstöðu dómstóla. Vinnan hefur ekki einungis verið einfalt lögfræðilegt viðfangsefni heldur hefur stærstur hluti hennar falist í að að móta umfangsmikla og nauðsynlega aðgerðaáætlun til að tryggja öflugar varnir og öryggi matvæla og búfjárstofna. Jafnframt hafa hafa verið undirbúnar aðgerðir til að styrkja samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Samhliða samþykkt frumvarpsins var aðgerðaáætlunin samþykkt með öllum greiddum atkvæðum sem sérstök þingsályktun til að undirstrika mikilvægi þeirri aðgerða sem þar er að finna.

Afraksturinn er samstillt átak þar sem ólögmætt leyfiskerfi er afnumið á sama tíma og öryggi matvæla og vernd búfjárstofna er treyst enn frekar. Þetta eru tímamót í mínum huga og fagnaðarefni. Fyrir íslenskan landbúnað verða til ný tækifæri um leið og áskorunum er mætt.  Verkefni næstu mánaða verður að framfylgja aðgerðaáætluninni af festu og geng ég bjartsýnn til þess verks.

Með samþykkt frumvarpsins mun leyfisveitingakerfið verða fellt niður frá og með 1. janúar nk. Með því verður loks framfylgt þeirri skuldbindingu sem Alþingi samþykkti og tók gildi árið 2011. Þannig verður hinu ólögmæta ástandi, sem nú hefur varað í um átta ár, aflétt og endi bundinn á ótakmarkaða skaðabótaskyldu íslenska ríkisins.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. júní 2019.