Fullveldi í samskiptum við aðrar þjóðir

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Á inn­an við sjö mánuðum höf­um við Íslend­ing­ar fagnað þrem­ur merk­um áföng­um í bar­átt­unni fyr­ir fullu frelsi. Í des­em­ber síðastliðnum voru 100 ár frá því að Ísland varð full­valda ríki, í fe­brú­ar voru 115 ár liðin frá því að við feng­um heima­stjórn og síðastliðinn mánu­dag var haldið upp á 75 ára af­mæli lýðveld­is­ins.

Þess­ir áfang­ar skipa mis­mun­andi sess í hug­um okk­ar. Þjóðhátíðardag­ur­inn 17. júní er hald­inn hátíðleg­ur. Við erum hins veg­ar að mestu hætt að halda upp á 1. des­em­ber þótt efnt hafi verið til hátíðar­halda á liðnu ári til að minn­ast ald­araf­mæl­is full­veld­is­ins. Sama er að segja um 1. fe­brú­ar. Við leiðum yf­ir­leitt aldrei hug­ann að því hversu mik­il­vægt skref í átt að full­veldi það var að höfuðstöðvar fram­kvæmda­valds­ins flutt­ust heim til Íslands frá Kaup­manna­höfn. Með því styrkt­ist staða Alþing­is og þing­ræðið var fest í sessi, eins og Davíð Odds­son, þáver­andi for­sæt­is­ráðherra, benti á í hátíðarræðu þegar þess var minnst 1. fe­brú­ar 2004 að öld var frá því Hann­es Haf­stein varð ráðherra Íslands með aðset­ur í Reykja­vík. Og Davíð bætti við:

„Menn geta horft til helstu kafl­anna í þjóðfrels­is­bar­átt­unni, end­ur­reisn­ar alþing­is, þjóðfund­ar, stöðulag­anna, stjórn­ar­skrár, heima­stjórn­ar, full­veld­is og loks lýðveld­is og spurt sig, hver þess­ara at­b­urða stóð upp úr. Að form­inu til má segja að full­veldið 1918 hafi verið stærsti at­b­urður­inn. En að öllu öðru leyti var heima­stjórn­in 1. fe­brú­ar 1904 mik­il­væg­asti at­b­urður sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar og reynd­ar var far­sæl fram­kvæmd á heima­stjórn­inni for­senda full­veld­is­ins. Þá tókst tvennt í senn. Um­heim­in­um, og þá einkum Dön­um, var sýnt fram á að Íslend­ing­ar væru full­fær­ir um að fara með eig­in mál, þrátt fyr­ir fá­menni, fá­tækt og harðbýlt lítt numið land. Og Íslend­ing­um sjálf­um óx ásmeg­in. Ísland, þessi hjari í norður­höf­um, var orðið land tæki­fær­anna. Mjög snögg­lega dró úr vest­ur­för­um Íslend­inga um þess­ar mund­ir, meðan straum­ur­inn til Am­er­íku ann­ars staðar frá jókst. Það und­ir­strik­ar vel hið breytta hug­ar­far. Vænt­ing­ar og bjart­sýni höfðu bægt burtu von­leysi og upp­gjöf. Heima­stjórn­in 1. fe­brú­ar 1904 var því happa­feng­ur fyr­ir ís­lenska þjóð á þeim degi og ætíð síðar.“

Tæki­fær­in nýtt

Póli­tískt full­veldi og fjár­hags­legt sjálf­stæði eru mis­mun­andi hliðar á sama ten­ingi. „Full­veldi er ágætt, en því aðeins er það al­gert, að fjár­hags­legt sjálf­stæði fylgi,“ sagði með réttu á forsíðu Morg­un­blaðsins í des­em­ber 1918 þegar full­veld­inu var fagnað.

Bar­átt­an fyr­ir bætt­um lífs­kjör­um hef­ur ekki aðeins snú­ist um að nýta auðlind­ir lands og sjáv­ar held­ur ekki síður að tryggja greiðan aðgang að er­lend­um mörkuðum fyr­ir ís­lensk­ar vör­ur. Bar­áttu­menn fyr­ir sjálf­stæði þjóðar­inn­ar skildu öðrum bet­ur hversu mik­il­vægt versl­un­ar­frelsi er fyr­ir fá­menna þjóð. Líkt og í sjálf­stæðis­bar­átt­unni, heima­stjórn, full­veldi og lýðveldi, höf­um við tekið hvert skrefið á fæt­ur öðru frá lok­um síðari heimstyrj­ald­ar til að treysta bönd­in við vinaþjóðir og tryggja friðsam­leg sam­skipti við all­ar þjóðir. Í sam­skipt­um við aðrar þjóðir höf­um við nýtt full­veld­is­rétt okk­ar til að byggja und­ir efna­hags­lega vel­meg­un og póli­tískt sjálf­stæði.

Eng­ir þeirra sem lögðu grunn­inn að fullu sjálf­stæði lands og þjóðar árin 1904, 1918 eða 1944 gátu látið sig dreyma um þann ótrú­leg­an ár­ang­ur sem náðst hef­ur. Það gerðist ekki af sjálfu sér að eitt fá­tæk­asta ríki Evr­ópu varð að einu mesta vel­meg­un­ar­ríki heims og raun­ar sög­unn­ar. Til þess þurfti fram­sýni og fyr­ir­hyggju.

Við höf­um nýtt auðlind­ir okk­ar af meiri skyn­semi en flest­ar aðrar þjóðir. Gert sjáv­ar­út­veg að arðbærri at­vinnu­grein, ólíkt flest­um öðrum þjóðum, nýtt vatns­ork­una til raf­orku­fram­leiðslu, beislað heita vatnið og flutt tækiþekk­ingu til annarra landa.

Hreykn­ir af landi og þjóð

Ég er sann­færður um að Hann­es Haf­stein, Jón Þor­láks­son, Ólaf­ur Thors og Bjarni Bene­dikts­son væru hreykn­ir af landi og þjóð. Stolt­ir af því hvernig til hef­ur tek­ist, þótt oft hafi gefið á bát­inn og ýmis verk­efni séu óunn­inn. Ólaf­ur og Bjarni væru ör­ugg­lega stolt­ir af því hvernig við höf­um nýtt full­veld­is­rétt okk­ar í sam­skipt­um við aðrar þjóðir enda lögðu þeir flesta horn­steina ut­an­rík­is­stefnu okk­ar. EES-samn­ing­ur­inn bygg­ir á þess­um horn­stein­um.

Aðild Íslands að Sam­einuðu þjóðunum 1946, var eðli­legt fram­hald af lýðveld­is­stofn­un­inni og vilja lands­manna að eiga friðsam­leg og opin sam­skipti við aðrar þjóðir. Með sama hætti var nauðsyn­legt að tryggja póli­tískt sjálf­stæði þjóðar­inn­ar með þátt­töku í Atlants­hafs­banda­lag­inu. Í apríl síðastliðnum voru 70 ár frá því að ákveðið var að nýta full­veldið til að taka hönd­um sam­an við aðrar lýðræðisþjóðir. Sú ákvörðun hef­ur reynt okk­ur Íslend­ing­um og öðrum þjóðum far­sæl.

Þannig hef­ur hvert skrefið verið tekið. GATT, EFTA og loks EES fyr­ir 25 árum. Við höf­um gert fjölda fríversl­un­ar­samn­inga, bæði beint og í gegn­um EFTA og eig­um aðild að alþjóðleg­um stofn­un­um þar sem við höf­um und­ir­geng­ist ákveðnar skyld­ur. Í hverju ein­asta skrefi hafa for­ystu­menn þjóðar­inn­ar haft í huga að efna­hags­leg vel­sæld og fjár­hags­legt sjálf­stæði Íslend­inga, verður ekki tryggt nema með greiðum aðgangi að er­lend­um mörkuðum og opn­um og frjáls­um sam­skipt­um við aðrar þjóðir.

Full­veldi, EES og orka

Í sam­skipt­um við aðrar þjóðir fáum við ekki allt fyr­ir ekk­ert. Þetta á við um EES-samn­ing­inn eins og aðra alþjóðlega samn­inga. Um það verður ekki deilt (þótt ein­hverj­ir reyni) að samn­ing­ur­inn um Evr­ópska efna­hags­svæðið hef­ur reynt okk­ur Íslend­ing­um hag­stæður – með öll­um sín­um kost­um og göll­um. Auðvitað höf­um við þurft að gefa ým­is­legt eft­ir með sama hætti og sam­starfsþjóðir okk­ar. Það er eðli alþjóðlegra sam­skipta. Mestu skipt­ir fyr­ir okk­ur Íslend­inga að byggt sé á þeirri for­sendu að ís­lenska ríkið hafi jafna stöðu á við önn­ur ríki í alþjóðlegu sam­starfi. Á stund­um hef­ur reynt á „þanþol“ stjórn­ar­skrár­inn­ar en þá skipt­ir miklu að tak­markað framsal valds hlýt­ur „eðli máls­ins sam­kvæmt að vera aft­ur­kræft frá sjón­ar­hóli ís­lenskr­ar stjórn­skip­un­ar, enda væri önn­ur niðurstaða ósam­rýman­leg full­veldi rík­is­ins,“ eins og sagði í áfanga­skýrslu stjórn­ar­skrár­nefnd­ar 2013-2016, und­ir for­ystu Sig­urðar Lín­dals, laga­pró­fess­ors emer­it­us.

Þær hörðu deil­ur sem sprottið hafa upp vegna þriðja orkupakk­ans, svo­kallaða, eru á marg­an hátt skilj­an­leg­ar. Sem bet­ur fer höf­um við Íslend­ing­ar borið gæfu til þess að standa vörð um óskorað for­ræði á auðlind­um lands og sjáv­ar. Hafi ein­staka þing­menn eða al­menn­ing­ur áhyggj­ur af því að með ein­um eða öðrum hætti sé verið að stefna for­ræði yfir orku­auðlind­un­um í hættu, er eðli­legt að brugðist sé hart við. Samþykkt þriðja orkupakk­ans fel­ur hins veg­ar ekk­ert slíkt í sér.

Við erum ekki af­sala okk­ur yf­ir­ráðum yfir orku­auðlind­um. Við erum ekki að und­ir­gang­ast skyld­ur um það hvernig, hverj­ir og hvenær skuli nýta orku­auðlind­ina. Við mun­um hér eft­ir sem hingað til stjórna og taka ákvörðun sjálf með hvaða hætti við nýt­um auðlind­ina – óháð öllu og öll­um, á okk­ar eig­in for­send­um og út frá okk­ar hags­mun­um. Við erum ekki að und­ir­gang­ast skyld­ur eða gefa lof­orð um lagn­ingu sæ­strengs. Hvort og þá hvenær sæ­streng­ur verður lagður er ákvörðun sem við tök­um á okk­ar for­send­um. Við erum ekki að skuld­binda okk­ur til að breyta eign­ar­haldi á helstu og mik­il­væg­ustu orku­fyr­ir­tækj­um lands­ins. Við erum ekki að færa umráðarétt eða eign­ar­rétt á orku­auðlind­un­um eða orku­fyr­ir­tækj­un­um með þriðja orkupakk­an­um. Það er inn­byggt og óaðskilj­an­leg­ur hluti af EES-samn­ingn­um að skipu­lag eign­ar­rétt­ar­ins og þar með nýt­ing hans er og verður á for­ræði hvers aðild­ar­rík­is.

Deil­an um þriðja orkupakk­ann hef­ur hins veg­ar leitt til þess að þing­menn og al­menn­ing­ur verður hér eft­ir meira vak­andi gagn­vart hags­mun­um okk­ar inn­an EES. Það veit á gott og er okk­ur lífs­nauðsyn­legt. Ekk­ert mann­anna verk er hafið yfir gagn­rýni og end­ur­skoðun. Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, hef­ur ít­rekað lýst því yfir að tíma­bært sé að Alþingi taki til skoðunar stöðu EFTA-ríkj­anna á grund­velli EES-samn­ings­ins.

Það reynd­ist mikið gæfu­spor að taka þátt í sam­starfi Evr­ópuþjóða með inn­leiðingu EES-samn­ings­ins. En veg­ur­inn milli sam­starfs og varðstöðu um full­veldið verður alltaf vandrataður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. júní 2019.