Við erum ríkust allra þjóða

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttur ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Íslend­ing­um finnst alltaf áhuga­vert að tala um veðrið. Þegar ætt­ing­ar eða vin­ir hringja á milli landsvæða er al­gengt að spurt sé um veðrið í upp­hafi eða um mitt sím­tal. Við deil­um mynd­um á sam­fé­lags­miðlum þegar fjalls­hlíðarn­ar verða grá­ar, þegar bíla­stæðin fyll­ast af snjó og þegar úf­inn sjór­inn æðir yfir brim­g­arðana í mesta rok­inu – og svo auðvitað þegar sól­in skín og hit­inn nær tveggja stafa tölu. Þrátt fyr­ir að við þekkj­um ís­lenska veðrið eins og lóf­ann á okk­ur kem­ur það okk­ur stöðugt á óvart.

Við höf­um flest fengið að njóta ein­stakr­ar blíðu síðustu vik­ur. Það lifn­ar yfir öllu. Nátt­úr­an skart­ar sínu og flest­ir verða glaðlegri og létt­ari á fæti. Við fyll­umst já­kvæðni og bjart­sýni og njót­um sam­veru hvert við annað.

Líkt og með veðrið skipt­ast á skin og skúr­ir í lífi þjóðar. Oft­ast er meðvind­ur en á stund­um blæs á móti en alltaf kom­umst við í gegn­um storm­inn.

Með bar­áttu­anda, smá vott af kæru­leysi í bland við ákveðna þrjósku höf­um við sem þjóð náð mikl­um ár­angri á svo mörg­um sviðum – og við höld­um áfram að sækja fram. Þó svo að stjórn­má­laum­ræðan end­ur­spegli ekki alltaf þann ár­ang­ur sem við höf­um náð, þá er staðreynd­in sú að efna­hag­ur lands­ins hef­ur aldrei verið sterk­ari, skuld­ir heim­il­anna ekki verið lægri í 20 ár, lífs­gæði hér á landi eru með þeim mestu í heimi og þannig mætti áfram telja. Og Ísland er friðsam­asta land í heim­in­um.

Lífs­ins gæði verða ekki öll mæld í efn­is­leg­um þátt­um. Það eru ómet­an­leg gæði sem fel­ast í ham­ingju þjóðar­inn­ar þegar við náum góðum ár­angri í íþrótt­um. Það er óhætt að segja að landsliðið okk­ar í knatt­spyrnu hafi fært okk­ur meiri gleði í þess­ari viku en stjórn­mál­in gerðu svo tekið sé dæmi.

Og það er fleira sem end­ur­spegl­ar þau verðmæti sem við búum yfir sem þjóð. Nær öll kvöld árs­ins eru leik­hús­in full af fólki þar sem okk­ar frá­bæru lista­menn flytja hvert stór­verkið á fæt­ur öðru. Við eig­um, að því er stund­um virðist óþrjót­andi upp­sprettu tón­list­ar­manna sem glæða sál­ir með tónlist sinni, við eig­um heimsklassa rit­höf­unda, færa vís­inda­menn og þannig mætti lengi áfram telja.

Við erum rík þjóð á efn­is­leg­an mæli­kv­arða en hlut­falls­lega erum við lík­lega rík­ust allra þjóða mælt í óefn­is­leg­um gæðum. Líkt og með góða veðrið er það eitt­hvað sem eig­um að vera þakk­lát fyr­ir. Við vit­um að veðrið breyt­ist en list­ir og menn­ing hjálpa okk­ur að kom­ast í gegn­um mestu storm­ana – og munu gera áfram. Íþrótt­ir, list­ir og menn­ing er ómiss­andi krydd í til­veru okk­ar Íslend­inga.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. júní 2019.