Sífellt minnkandi heimur með aukinni alþjóðavæðingu

„Ég hef nokkrar áhyggjur af því að menntakerfið okkar sé ekki að þróast með sama hætti og annað í samfélaginu. Á meðan aðrir þættir eru að þróast hratt, tækninni fer fram, störfin breytast og hæfniskröfur til ólíkra starfa breytast sem og margt annað virðast menntamálin standa í stað,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis í viðtali við Þjóðmál.

„Menntakerfið virðist eiga mjög erfitt með allar breytingar, sem er nokkuð sérstakt í svona litlu samfélagi. Við ættum að eiga auðveldara með að bjóða upp á fjölbreyttari skóla, aukna fjölbreytni milli skóla og námsleiða, þora að gera breytingar og svo framvegis. Tækifærin eru svo mikil og það er svo margt sem byggist á menntakerfinu okkar, atvinnulífið, efnahagur landsins, nýsköpun og þróun og þannig mætti áfram telja,“ segir Áslaug Arna.

Hún segir oft vera mikla andstöðu innan kerfisins gagnvart breytingum og nýjungum. „Mér finnst þetta þó aðeins vera að breytast og ég finn að það eru fleiri og fleiri að átta sig á nauðsyn þess að menntakerfið færist hraðar fram á við,“ segir hún og bætir við: „Við eigum að þora að taka stærri stökk en bara einhver smáskref. Kerfið er þungt í vöfum og hættir til að steypa alla í sama mót. Það er of lítill hvati til þess að verða kennari. Við gætum ekki nægjanlega að fjölbreytileika menntunar m.t.t. þarfa atvinnulífsins. Þessar áskoranir sér maður víða.“

Hún ræddi einnig skilyrði til háskólanáms og að fjölbreytt þekking sé ekki metin nægilega vel, en Áslaug Arna hefur lagt fram frumvarp þess efnis að háskólar hafi meiri sveigjanleika varðandi inntökuskilyrði.

„Það getur vel verið að fólk þurfi að bæta við sig ákveðnum kúrsum eða einhvers konar brú til þess að bæta við sig frekara námi. Það á ekki að skipta máli hvaðan þekking kom heldur hvort maður er með hana, en við eigum að vera tilbúin að meta einstaklingana í ríkari mæli út frá reynslu þeirra og þekkingu,“ segir Áslaug Arna.

Í viðtalinu ræddi Áslaug Arna einnig brottfall úr framhaldsskólum, skort á áherslum á verk- og listkennslu og að huga þurfi sérstaklega að erlendum börnum sem hefja hér nám.

„Sumir eiga langt í land með að læra það sem íslenskir jafnaldrar þeirra hafa lært en aðrir eru mögulega komnir lengra en íslenskir jafnaldrar þeirra. Við erum of föst í því að fólk þurfi að klára eitthvað meira hér á landi,“ segir Áslaug Arna.

„Heimurinn fer sífellt minnkandi með aukinni alþjóðavæðingu og við eigum að vinna að því að fá hingað til lands vel menntað og gott starfsfólk. En þá þurfum við líka að bjóða upp á skóla sem taka vel á móti börnum þess. Menntakerfið okkar er í grunninn mjög fínt en við eigum að hafa metnað til þess að gera betur og vera óhrædd að bera okkur saman við bestu menntakerfi í heimi. Kerfið er að hluta til staðnað og þess vegna þarf að brjóta það upp,“ segir hún.

Viðtalið í heild sinni má finna hér.