Séreignarstefnan er frelsisstefna

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Eft­ir því sem árin líða hef ég áttað mig æ bet­ur á því hversu auðvelt það er að flækja hluti sem eru í eðli sínu ein­fald­ir. Oft virðist sem það sé ein­læg­ur ásetn­ing­ur hins op­in­bera að gera ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um erfiðara fyr­ir en efni standa til, með því að gera ein­fald­leik­ann tor­skil­inn. Sama má segja um okk­ur stjórn­mála­menn­ina. Okk­ur tekst ekki alltaf að setja fram hug­mynd­ir og stefnu fram með ein­föld­um og skilj­an­leg­um hætti. Hug­mynda­fræðin get­ur verið marg­slung­inn og tækni­orðin óskilj­an­leg. Kannski er skýr­ing­in sú að stjórn­mála­maður­inn hef­ur ekki alltaf full­an skiln­ing á viðfangs­efn­inu.

Við sem skip­um þing­manna­sveit Sjálf­stæðis­flokks­ins þurf­um að líta í eig­in barm og viður­kenna að okk­ur hef­ur ekki alltaf tek­ist sér­lega vel að koma hug­sjón­um á fram­færi sem skilj­an­leg­um hætti. Tækni­orð hag­fræðinn­ar og fjár­mála­fræðinn­ar eru ekki besta sölu­var­an. Fras­ar – jafn­vel inn­an­tóm­ir – vekja meiri at­hygli. Og við sjálf­stæðis­menn erum lé­leg­ir í að smíða orðal­eppa og klisj­ur.

Í grunn­inn er stefna Sjálf­stæðis­flokks­ins ein­föld; frelsi ein­stak­lings­ins til orðs og æðis og varðstaða um sjálf­stæði lands­ins. Ein­stak­ling­ur­inn og fjöl­skylda hans er grunn­ein­ing sam­fé­lags­ins. Þess vegna líta sjálf­stæðis­menn á það sem skyldu sína að standa vörð um fjöl­skyld­una og styrkja stoðir henn­ar. Al­veg með sama hætti er Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn skuld­bund­inn til að tryggja viðskiptafrelsi, ryðja götu sjálf­stæða at­vinnu­rek­and­ans, verja millistétt­ina, þá sem eldri eru og sam­borg­ara sem þurfa á aðstoð að halda. Þetta er ein­föld hug­mynda­fræði og oft hef­ur verið á bratt­ann að sækja. En þrátt fyr­ir allt hef­ur tek­ist að hrinda hug­mynd­um sjálf­stæðis­stefn­unn­ar í fram­kvæmd á flest­um sviðum, en ekki öll­um. Verst er bak­slag í ýmsu á síðustu tíu árum. (Um það verður fjallað síðar).

Horn­steinn borg­ara­legs sam­fé­lag

Rauði þráður­inn í hug­mynda­bar­áttu Sjálf­stæðis­flokks­ins er fjár­hags­legt sjálf­stæði ein­stak­linga og fjöl­skyldna. Sjálf­stæðis­menn eiga sér þann draum að gera alla að eigna­fólki og byggja und­ir fjár­hags­legt ör­yggi.

Eigna­mynd­un millistétt­ar­inn­ar og þeirra sem hafa lægri laun stend­ur á tveim­ur meg­in­stoðum. Ann­ars veg­ar á líf­eyr­is­rétt­ind­um og hins veg­ar á verðmæti eig­in hús­næðis. Ekki síst þess vegna er mik­il­vægt að gera sem flest­um kleift að eign­ast eigið hús­næði. Við sjálf­stæðis­menn höf­um kallað þetta sér­eign­ar­stefnu og bent á að hún sé einn af horn­stein­um borg­ara­legs sam­fé­lags. En sér­eign­ar­stefn­an er lítið annað en frels­is­stefna – leið að því mark­miði að launa­fólk búi við fjár­hags­legt sjálf­stæði.

Ekki eru all­ir hrifn­ir af sér­eign­ar­stefn­unni – frels­inu sem fylg­ir eigna­mynd­un og fjár­hags­legu sjálf­stæði, svo merki­legt sem það er. Sósí­al­ist­ar og marg­ir vinstri menn hafa ímugust á sér­eign­ar­stefn­unni. Í huga þeirra er bar­átta ein­stak­linga og fjöl­skyldna við að eign­ast eigið hús­næði með gríðarlegri vinnu og elju­semi, hátt­ur smá­borg­ara sem þeir líta niður á. Draum­ur­inn um eigið hús­næði er skil­getið af­kvæmi markaðshyggju. Smá­borg­ar­ar – sjálf­stæði at­vinnu­rek­and­inn og millistétt­in eru ekki hluti af framtíðar­sýn hins sósíal­íska sam­fé­lags.

Val­frelsi

Auðvitað vilja ekki all­ir eign­ast eigið hús­næði. Marg­ir kjósa frem­ur að leigja. Það er þeirra rétt­ur og eng­inn get­ur tekið hann af þeim. Í hús­næðismál­um er það hlut­verk stjórn­valda að tryggja val­frelsi – reyna eft­ir fremsta megni að láta drauma al­menn­ings ræt­ast. Og þá er ágætt að hafa í huga niður­stöðu könn­un­ar sem Íbúðalána­sjóður lét gera á síðasta ári: Um 86% leigj­enda vilja eign­ast eig­in íbúð. Þegar spurt var: „Ef nægj­an­legt fram­boð væri af ör­uggu leigu­hús­næði og nægi­legt fram­boð af hús­næði til kaups. Hvort mynd­ir þú velja að búa í leigu­hús­næði eða eig­in hús­næði?“ Aðeins rétt rúm 14% völdu leigu­hús­næði.

Op­in­ber umræða og áhersl­ur flestra stjórn­mála­flokka á und­an­förn­um miss­er­um og árum, hef­ur því miður ein­kennst frem­ur af því að ýta und­ir leigu­hús­næði en tryggja val­frelsi í hús­næðismál­um. Fókus­inn hef­ur með öðrum orðum verið á 14% en 86% hafa orðið horn­reka.

Hér skal ekki gert lítið úr nauðsyn þess og raun­ar skyn­semi að stjórn­völd stuðli að heil­brigðum leigu­markaði. En stefna í hús­næðismál­um hlýt­ur að mót­ast með hliðsjón af ósk­um al­menn­ings. Ég hef alla tíð litið svo á að eitt stærsta verk­efni borg­ara­legra stjórn­mála­manna sé gefa ein­stak­ling­um raun­veru­lega val­kosti í hús­næðismál­um. Sér­eign­ar­stefn­an er hluti af frels­is­stefnu sem gef­ur launa­fólki tæki­færi til eigna­mynd­un­ar.

Skatt­ar og sér­eign

Í liðinni viku var samþykkt frum­varp Bjarna Bene­dikts­son­ar fjár­málaráðherra um að fram­lengja mögu­leika fólks til að nýta sér­eign­ar­sparnað skatt­frjálst til að greiða inn á höfuðstól íbúðalána. Þegar er í gildi rétt­ur til að nýta sér­eign­ar­sparnað skatt­frjálst í tíu ár vegna kaupa á fyrstu íbúð. Frá því að þetta úrræði var kynnt til sög­unn­ar árið 2014 – með samþætt­ingu skatta­lækk­un­ar og sér­eign­ar­stefnu – hafa um 56 millj­arðar króna runnið til öfl­un­ar hús­næðis. Að jafnaði hafa um 23 þúsund ein­stak­ling­ar nýtt sér þessa heim­ild í hverj­um mánuði. Þannig hef­ur verið stuðlað að eigna­mynd­un fólks í íbúðar­hús­næði og það er kjarn­inn í stefnu Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Árang­ur­inn er áþreif­an­leg­ur. Skulda­leiðrétt­ing­in og sér­eign­ar­sparnaður­inn hef­ur skipt sköp­um. Staða ís­lenskra heim­ila er mun betri en á öðrum Norður­lönd­um. Sam­kvæmt töl­um Hag­stof­unn­ar var eigið fé hér á landi, að und­an­skild­um líf­eyr­is­rétt­ind­um, um 157% af vergri lands­fram­leiðslu. Hlut­fallið hef­ur ekki verið hærra í tutt­ugu ár.

Skuld­ir heim­il­anna sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu er um 75% á Íslandi en um 105% að meðaltali á öðrum Norður­lönd­um. Sem hlut­fall af ráðstöf­un­ar­tekj­um eru skuld­irn­ar einnig lægri hér, eða tæp­lega 150% á móti liðlega 200%.

Þess­ar töl­ur eru ágæt­ur vitn­is­b­urður um ár­ang­ur sér­eign­ar­stefn­unn­ar frá því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn tók sæti í rík­is­stjórn árið 2013. Við sem skip­um þingsveit Sjálf­stæðis­flokks­ins ger­um okk­ur hins veg­ar fylli­lega grein fyr­ir því að verk­efn­inu er langt í frá lokið. Þess vegna höf­um við m.a. lagt fram frum­vörp um af­nám stimp­il­gjalda af íbúðahús­næði og fulla end­ur­greiðslu virðis­auka­skatts af vinnu iðnaðarmanna á bygg­ing­arstað. Áfanga­sigr­ar við lækk­un tekju­skatts ein­stak­linga hafa náðst og á kom­andi árum verða skatt­ar lækkaðir enn frek­ar. Allt til að tryggja fjár­hags­legt sjálf­stæði ein­stak­linga og fjöl­skyldna.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. júní 2019.