Áhugaverð verkefni framundan í Kósóvó

„Við Íslendingar eigum traustan bandamann í Jens Stoltenberg og það er mikilvægt að geta átt við hann reglulegt samtal um varnir og öryggi á svæðinu í kringum landið okkar. Þá eru mjög áhugaverð verkefni framundan í Kósóvó en á sínum tíma gegndu íslensk flugmálayfirvöld mikilvægu hlutverki við uppbyggingu á Pristina-flugvelli með vottun flugvallarins og þjálfun flugumferðarstjóra. Nú gefst okkur aftur kostur á að leggja okkar af mörkum til að styðja við uppbyggingu og öryggi þar í landi,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson  utanríkisráðherra eftir fund með Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins en þeir funduðu í vikunni þegar Stoltenberg var hér á landi í opinberum erindagjörðum.

Á fundinum ræddu þeir um öryggismál á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi, norrænt öryggismálasamstarf, formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og samstarf á norrænum vettvangi um varnar- og öryggismál. Áherslur Íslands á jafnréttismál í bandalaginu og verkefnum þess, aukin þátttaka í uppbyggingu eftir stríðsátök og þjálfunar- og ráðgjafarverkefni voru einnig til umræðu. Þetta kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins.

Þar segir einnig að Stoltenberg hafi farið þess á leit við íslensk stjórnvöld að þau taki að sér eftirlitshlutverk og stuðning við Kósóvó til að opna fleiri flugleiðir til landsins.

Sjá nánar hér á vef ráðuneytisins.