Tímamót í stefnumótun ferðaþjónustunnar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins dómsmálaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Það er skammt stórra högga á milli í ferðaþjónustunni, einum mikilvægasta atvinnuvegi okkar Íslendinga.

Eftir gosið í Eyjafjallajökli óttuðust flestir hrun. En gosið reyndist landkynning. Það, ásamt lágu verðlagi í kjölfar bankahrunsins og stórauknu flugframboði, lagði grunninn að margra ára samfelldum ofurvexti greinarinnar. Í dag stöndum við aftur á móti frammi fyrir samdrætti eftir að einn stærsti drifkraftur vaxtarins hvarf af sviðinu.

Þegar horft er á þessa þróun í samhengi koma tvö hugtök upp í hugann: Sjálfbærni og jafnvægi.

En hugtökin eru innantómir frasar ef ekki eru lagðar skýrar línur um hvað þau merkja.

Ég leyfi mér að fullyrða að við séum um þessar mundir að taka tvö stór skref í þá veru.

Hið fyrra eru leiðarljós ferðaþjónustunnar til 2030, sem unnin hafa verið í nánu samráði stjórnvalda og greinarinnar. Þau voru kynnt á opnum fundum í vikunni og verða – eins og heitið gefur til kynna – leiðarljós nýrrar heildstæðrar ferðamálastefnu.

Hitt skrefið, sem líka var kynnt á þessum opnu fundum, er annar áfanginn í mjög viðamiklu verkefni sem Stjórnstöð ferðamála réðst í að minni tillögu haustið 2017. Þetta er verkefnið „Jafnvægisás“ sem gengur út á að meta þolmörk og afkastagetu okkar hvað varðar umfang ferðamennsku. Þetta verkefni er einstakt á heimsvísu. Skilgreindir voru hátt í 70 mælikvarðar, fundin á þá gildi og það sem meira er: skilgreint hefur verið hvort við séum á grænu, gulu eða rauðu fyrir hvern mælikvarða. Hátt í tvö hundruð manns hafa komið að þessu verkefni undanfarin misseri. Skýrsludrögin um það verða sett í samráðsgátt stjórnvalda á næstu dögum til umsagnar. Sumar niðurstöðurnar koma á óvart en allar fela í sér dýrmætar upplýsingar og leiðbeiningu.

Með þessum tveimur tímamótaverkefnum er lagður bæði djúpur og breiður grunnur að stefnumótun og ákvarðanatöku ferðaþjónustunnar til næsta áratugar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. júní 2019.