Bjartsýni eða bölmóður

Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Rann­sókn­ir vís­inda­manna benda til að bjart­sýni auki ekki aðeins vellíðan held­ur lengi lífið og auki lífs­gæðin. Þeir sem eru að eðlis­fari bjart­sýn­ir eru bet­ur í stakk bún­ir til að tak­ast á við erfiðleika og yf­ir­vinna veik­indi. Bjart­sýni, ham­ingja og vel­gengni eru syst­ur.

Eitt er ör­uggt: Sá svart­sýni er ekki lík­leg­ur til að grípa tæki­fær­in þegar þau gef­ast, annaðhvort vegna þess að hann sér þau ekki í gegn­um dimmu hug­ans eða vegna þess að hann skynj­ar ekki í böl­móði hvernig hægt er að nýta mögu­leik­ana sem blasa við.

Sál­ar­ang­ist stjórn­ar­and­stöðunn­ar braust upp á yf­ir­borðið um leið og umræða um breyt­ingu á þings­álykt­un um fjár­mála­stefnu 2018 til 2022 hófst í þingsal í upp­hafi vik­unn­ar. Í yfir átta klukku­stunda umræðum hafði stjórn­ar­andstaðan flest á horn­um sér. Sam­hljóm­ur­inn var hins veg­ar sér­kenni­leg­ur. Jafn­vel í sömu ræðunni voru stjórn­ar­and­stæðing­ar sam­mála um að vöxt­ur rík­is­út­gjalda væri bæði of mik­ill og of lít­ill, nauðsyn­legt væri að hækka skatta en kannski lækka þá einnig. En verst virðist það tæta sál­ar­lífið þeirra að rík­is­stjórn­in skuli, í ljósi breyttr­ar stöðu í efna­hags­mál­um, hafa talið skyn­sam­legt að end­ur­skoða fjár­mála­stefn­una, laga hana að nýj­um veru­leika, auka svig­rúm hins op­in­bera til að létta und­ir með heim­il­um og fyr­ir­tækj­um, ýta und­ir hag­kerfið í stað þess að kreppa að því með fjár­mála­stefnu sem byggð er á göml­um upp­lýs­ing­um.

Um­skipti í efna­hags­mál­um

Fjár­mála­stefn­an, sem lagt er til að verði breytt, var lögð fram í des­em­ber 2017 og byggðist á þjóðhags­spá Hag­stof­unn­ar frá því í nóv­em­ber sama ár. Þá var reiknað með að hag­vöxt­ur yrði um 2,6% á þessu ári. Í end­ur­skoðaðri spá í fe­brú­ar á liðnu ári var bú­ist við að vöxt­ur lands­fram­leiðslunn­ar yrði 2,5-2,8% á næstu árum – mest á yf­ir­stand­andi ári. Á grund­velli þess­ara upp­lýs­inga og mats Hag­stof­unn­ar á horf­um í efna­hags­líf­inu var fjár­mála­stefn­an samþykkt í mars 2018.

Í þjóðhags­spá í nóv­em­ber síðastliðnum var enn reiknað með þokka­leg­um gangi efna­hags­mála. Vöxt­ur lands­fram­leiðslunn­ar yrði um 2,5% árið 2019 – lít­il­lega minni en spáð var í fe­brú­ar. Á ár­un­um 2020-2024 var gert ráð fyr­ir um 2,6% ár­leg­um meðal­vexti.

Fyr­ir fjór­um mánuðum end­ur­skoðaði Hag­stof­an þjóðhags­spá sam­kvæmt venju. Í fe­brú­ar var út­lit fyr­ir að verg lands­fram­leiðsla myndi ekki aukast nema um 1,7% á ár­inu – nokkru minna en áður hafði verið gengið út frá og tölu­vert und­ir 4,4% meðal­vexti síðustu fimm ára. Og horf­urn­ar breytt­ust enn til hins verra. Gjaldþrot Wow og loðnu­brest­ur skiptu þar mestu. Hag­stof­an gaf út nýja þjóðhags­spá 10. maí og um­skipt­in voru aug­ljós. Um 0,2% sam­drátt­ur á þessu ári blas­ir við. Allt bend­ir hins veg­ar til – sé rétt á mál­um haldið – að sam­drátt­ur­inn sé tíma­bund­inn og þegar á næsta ári vaxi lands­fram­leiðslan um allt að 2,6% vegna bata í út­flutn­ingi og fjár­fest­ingu.

Í grein­ar­gerð með til­lögu til breyt­inga á fjár­mála­stefnu er rétti­lega bent á að or­sök sam­drátt­ar er ekki að finna í ákvörðunum sem tekn­ar hafa verið á vett­vangi op­in­berra fjár­mála. Það þarf hins veg­ar eng­an sér­fræðing til að átta sig á því að óbreytt stefna, sem bygg­ir á for­send­um hag­vaxt­ar, fel­ur í sér hert aðhald rík­is­fjár­mála á þessu og næsta ári. Slík stefna vinn­ur ekki gegn sam­drætti held­ur þvert á móti. Það hefði verið full­kom­lega óá­byrg stefna í efna­hags­mál­um að láta eins og ekk­ert hefði í skorist. Þess vegna er lögð til breyt­ing á fjár­mála­stefn­unni svo svig­rúm sé til að bregðast við tíma­bund­inni niður­sveiflu.

Birta í fimm her­bergi

Af óskilj­an­leg­um ástæðum fer það fyr­ir brjóstið á stjórn­ar­and­stöðunni hversu vel rík­is­sjóður og efna­hags­lífið allt eru í stakk búin til að tak­ast á við mótvind. Kannski að eft­ir­far­andi færi ein­hverja birtu inn í fimm þing­flokks­her­bergi sund­urþykkr­ar stjórn­ar­and­stöðu:

• Upp­safnaður af­gang­ur af rík­is­sjóði 2014-2018 er um 85 millj­arðar króna, án óreglu­legra liða. Af­gang­ur­inn er alls 391 millj­arður með óreglu­leg­um liðum.

• Skuld­ir rík­is­sjóðs hafa lækkað úr 86% af lands­fram­leiðslu árið 2011 í 28% í lok síðasta árs.

• Hrein er­lend staða þjóðarbús­ins er já­kvæð um 597 millj­arða eða 21% af lands­fram­leiðslu. Um­skipt­in eru ótrú­leg en árið 2015 var staða nei­kvæð um 5% af lands­fram­leiðslu.

• Upp­safnaður viðskipta­af­gang­ur frá 2013 er um 715 millj­arðar og hef­ur verið já­kvæður um 4,5% af lands­fram­leiðslu á ári að meðaltali.

• Kaup­mátt­ur launa hækkaði um nær 40% frá 2011 til 2018.

• Kaup­mátt­ur ráðstöf­un­ar­tekna jókst um 30% frá 2011 til 2017, eft­ir mik­inn sam­drátt á ár­un­um 2009 og 2010.

• Jöfnuður inn­an ríkja OECD er hvergi meiri en á Íslandi og við stönd­um nokkuð bet­ur að vígi en aðrar Norður­landaþjóðir.

• Fá­tækt er hvergi minni og mun minni en í vel­ferðarríkj­um Nor­egs, Finn­lands og Svíþjóðar.

• Ísland er fyr­ir­mynd­ar­hag­kerfi sam­kvæmt mati Alþjóðaefna­hags­ráðsins. Á mæli­kv­arða „Inclusi­ve Develop­ment Index“, sem mæl­ir ekki aðeins hag­vöxt held­ur ýmsa fé­lags­lega þætti og hvernig ríkj­um tekst að láta sem flesta njóta efna­hags­legs ávinn­ings og fram­fara og tryggja jöfnuð milli kyn­slóða, er Ísland í öðru sæti fast á eft­ir Nor­egi.

• Tí­unda árið í röð eru Íslend­ing­ar leiðandi meðal þjóða í jafn­rétt­is­mál­um sam­kvæmt skýrslu Alþjóðaefna­hags­ráðsins.

• Í átta ár hef­ur verið stöðugur hag­vöxt­ur og lands­fram­leiðslan hef­ur auk­ist um þriðjung.

Ekki hlaupið und­an

Allt þetta eru þætt­ir sem lýsa styrk­leik­um ís­lensks sam­fé­lags og efna­hags­lífs. Auðvitað er hægt að benda á fleiri atriði s.s. að á Íslandi eru greidd önn­ur hæstu meðallaun ríkja OECD og að verðbólga hef­ur á síðustu fimm árum ekki farið yfir 3%. Heim­ili og fyr­ir­tæki hafa byggt upp sparnað og dregið veru­lega úr skuld­setn­ingu. Þau hafa lag­fært eig­in efna­hags­reikn­inga og eru eins og Seðlabank­inn bend­ir á í Pen­inga­mál­um, mun bet­ur í stakk búin til að tak­ast á við efna­hags­áföll. Í svart­sýniskasti á stjórn­ar­andstaðan erfitt með að skynja þessa góðu stöðu.

Þrátt fyr­ir allt er ástæða til bjart­sýni þó gefi á bát­inn. En bjart­sýni kem­ur ekki í veg fyr­ir raun­sæi og fyr­ir­hyggju. End­ur­skoðun fjár­mála­stefn­unn­ar sýn­ir að rík­is­stjórn­in hleyp­ur ekki und­an áskor­un­um sem glíma þarf við vegna tíma­bund­ins sam­drátt­ar. Í eld­hús­dagsum­ræðum í síðustu viku vék ég hins veg­ar að þeim tæki­fær­um sem fylgja glím­unni:

„Við þurf­um sam­eig­in­lega að gera aukn­ar kröf­ur til rík­is­stofn­ana og rík­is­fyr­ir­tækja um hag­kvæm­an rekst­ur, skil­virka og góða þjón­ustu, að farið sé bet­ur með sam­eig­in­lega fjár­muni. Lækk­un tekju­skatts ein­stak­linga er skyn­sam­leg og hleyp­ir auknu súr­efni inn í efna­hags­lífið. Hið sama á við um lækk­un skatta á fyr­ir­tæki. Slak­ann í hag­kerf­inu á að nota fyr­ir ríkið til að ráðast í arðbær­ar fjár­fest­ing­ar og fjár­magna m.a. með því að umbreyta eign­um í sam­fé­lags­lega innviði og leggja grunn að nýju hag­vaxt­ar­tíma­bili.“

Kannski er það of mik­il bjart­sýni af minni hálfu að telja það raun­hæft að stjórn og stjórn­ar­andstaða geti sam­ein­ast um að stökkva á þessi tæki­færi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. júní 2019