Skýr tónn frá sjálfstæðismönnum í eldhúsdagsumræðum

Haraldur Benediktsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Óli Björn Kárason tóku þátt í almennum stjórnmálaumræðum fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins á Alþingi í kvöld, í eldhúsdagsumræðunum svokölluðu. Eldhúsdagsumræðurnar voru upplífgandi í samanburði við þá umræðu sem staðið hefur yfir á þinginu síðustu vikur, þar sem Miðflokkurinn hefur talað í yfir hundrað klukkutíma í málþófi um innleiðingu þriðja orkupakkans.

Staðan væri erfiðari hefði ríkisstjórnin samþykkt skattahugmyndir stjórnarandstöðunnar

Haraldur Benediktsson fjallaði í ræðu sinni um stjórnmálaástandið á Íslandi, og hvernig það rímar við það pólitíska umrót sem hefur átt sér stað um heim allan á síðustu árum. Um heim allan hafa ólíkir pólar pólitískrar hugmyndafræði slíðrað sverðin og tekið höndum saman um afgreiðslu vandasamra og flókinna verkefna, eins og á Íslandi.

Benti hann á þau skref sem ríkisstjórnin steig til að greiða fyrir lausn á vinnumarkaði, en aðkoma ríkisstjórnarinnar skapar frjóan jarðveg fyrir ábyrgar og mikilvægar aðgerðir og skattalækkanir ríkisstjórnarinnar bæta kjör þeirra lægst launuðu á sama tíma og vel er haldið utan um velferðarmál sem byggja undir hag fjölskyldna á Íslandi.

Haraldur fjallaði þar að auki um breyttar forsendur í íslenska hagkerfinu. Allt bendi þó til þess að hér verði mjúk lending enda sé staða ríkissjóðs sterk og heimilanna sömuleiðis. „Hagvaxtarskeið taka alltaf enda, og því skiptir máli að við nýttum undanfarin ár til að búa okkur undir stöðuna sem er komin upp,“ sagði Haraldur í ræðu sinni.

Þá minnti hann á gamalt baráttumál Viðreisnar á Alþingi, um hærri álögur á ferðaþjónustuna í formi hærri virðisaukaskatts. „Hvernig væri umhorfs fyrir íslenska ferðaþjónustu væri hún að glíma við slíka skattlagningu í því umhverfi sem nú er. Hefði það létt róður hennar? Eða hefði samdrátturinn orðið fyrr og mun harkalegri? Sem betur fer hefur ferðaþjónustan borð fyrir báru til að bregðast við áskorunum sem fylgja fækkun ferðamanna til landsins. EF ekki væri fyrir þetta svigrúm værum við hugsanlega að tala um erfiðari stöðu, og þyngri,“ sagði Haraldur.

Haraldur fór um víða í ræðu sinni, en lauk henni með því að minnast á 90 ára afmæli flokksins. Minntist hann þar á hringferð þingflokksins í vor, þar sem þingmenn og ráðherrar áttu fundi með þúsundum manna um land allt.

„Í hringferðinni minntu á sig frumkraftar pólitíska starfsins, að hitta konur og menn – ræða verkefnin. Við sýndum og sönnuðum að við eigum ekki bara erindi við fólkið í landinu rétt fyrir kosningar. Úr ferðalaginu tökum við skemmtilegar stundir og uppbyggilegar umræður, en umfram allt bjartsýni fólksins í landinu fyrir komandi tíma. Ég vil nota þetta tækifæri hér til að þakka góðar móttökur.  Góðar stundir.“

Það verða alltaf til stjórnmálamenn sem stinga hausnum í sandinn og rétt líta upp til að borða íslenskt

Áslaug Arna benti á að inn í þingsalnum hefðu allir það sameiginlega markmið að vilja bæta líf allra landsmanna, en greindi stundum á leiðir. Í slíku umhverfi koma eðilega upp efasemdir, spurningar og gagnrýni á þær leiðir sem verða fyrir valinu.

„Sagan kennir okkur hins vegar að það er í umhverfi efasemda sem minni spámenn sjá sér leik á borði og breyta efasemdum í ótta. Þeir vita sem er að þegar fólk er óttaslegið þá er auðveldara að stíga á bremsuna og taka óskynsamar ákvarðanir. Þegar alið er á ótta er málefnaleg umræða sett í gapastokkinn og við tekur eðlishvötin. Eðlishvötin segir okkur að breytingar séu hættulegar,“ sagði Áslaug í ræðu sinni.

„Það verða alltaf til stjórnmálamenn sem vilja nota óttann og búa þannig til ímyndaðan óvin til að beina óttanum sem þeir hafa sjálfir skapað í einhvern farveg. Þeir trúa því að ef við bara pökkum í vörn, stingum hausnum í sandinn og rétt lítum upp til að borða bara íslenskt, þá muni okkur farnast vel.“

Hélt hún áfram og tók upp hanskann fyrir EES-samningnum, sem hefur verið töluvert í umræðunni á yfirstandandi þingi, s.s. vegna innleiðingar þriðja orkupakkans og innflutnings á kjöti. „Það má öllum vera ljóst, nema þeim sem kjósa að setja kíkinn á blinda augað, að sá samningur hefur gjörbreytt íslensku samfélagi, aukið bæði velmegun og frelsi,“ sagði Áslaug.

„Margir þekkja ekki annað en Ísland innan EES samstarfsins og ég efast um að þeir sem muna eftir Íslandi utan EES vilji snúa aftur til þess tíma. Það er hins vegar margt annað sem er betra að hafa að leiðarljósi við mótun utanríkis- og viðskiptastefnu okkar en þessa eitruðu blöndu af afturhaldi, fortíðarþrá og framtíðarótta.“

Málþóf tefur fyrir afgreiðslu fjölda mála sem skipta mörg almenning og fyrirtæki miklu

Óli Björn Kárason tók nokkur dæmi um árangur Íslands í samanburði við umheiminn; á Íslandi eru greidd næsthæstu meðallaun meðal ríkja OECD, lágmarkslaun á Íslandi eru þau þriðju hæstu innan OECD, vöxtur kaupmáttar hefur verið mestur á Íslandi á Norðurlöndunum á síðustu árum, jafnrétti kynjanna er hvergi meira en á Íslandi, verðbólga hefur aldrei farið yfir 3% að meðaltali á síðustu fimm árum, vextir eru í stöðugu lágmarki, viðskiptajöfnuður hefur verið jákvæður í sex ár í röð og hrein erlend staða þjóðarbúsins er jákvæð í fyrsta skipti í áratugi, íslenska heilbrgiðiskerfið er það annað besta í heiminum og Ísland er öruggasta og friðsamasta land heims samkvæmt alþjóðlegu friðarvísitölunni.

„En þótt árangurinn sé þokkalegur, jafnvel glæsilegur í einhverjum tilfellum, er langur vegur frá því að verkefnum okkar sé lokið. Þeim lýkur í raun aldrei. En þú þegar hillir undir lok 149. löggjafarþings hljótum við sem hér sitjum að hugleiða hvort við höfum staðið undir þeim væntingum sem kjósendur hafa borið til okkar. Hvort okkur hafi tekist að bæta líf almennings, gera það einfaldara og þægilegra og öruggara,“ sagði Óli Björn.

„Tugir lagafrumvarpa frá ríkisstjórn, sem sum skipta almenning og fyrirtæki miklu, bíða og eru föst af ástæðum sem allir þekkja. Mörg mál okkar sjálfstæðismanna bíða einnig afgreiðslu; lækkun erfðafjárskatts, afnám stimpilsgjalda vegna íbúðakaupa einstaklinga, hækkun endurgreiðslu virðisaukaskatt vegna vinnu iðnaðarmanna á byggingastað, breyting á tekjuskattslögum til að auðvelda kynslóðaskipti í atvinnulífinu, ekki síst í landbúnaði, afnám fjármagnstekjuskatts félaga sem eingöngu eru rekin til almannaheilla, og málin eru fleiri. Mörg munu ekki ná fram að ganga á þessu þingi, en dropinn holar steininn og á nýju þingi verða þau tekin upp að nýju. Á stundum verðum við, jafnvel þau okkar sem erum óþolinmóð að eðlisfari, að sætta okkur við að góðir hlutir gerast hægt.“