Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Það var ánægjulegt að sjá hversu margir tóku þátt í því að fagna 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins í blíðskaparveðri um allt land um liðna helgi. Það, hversu margir gáfu sér tíma til að fagna þessum merkilega áfanga, gefur glögga mynd af stöðu Sjálfstæðisflokksins sem hefur alltaf átt erindi við þjóðina, allt frá stofnun til dagsins í dag.
Á þeim tíma hefur flokkurinn átt hvað mestan þátt í uppbyggingu þessa samfélags sem við búum við í dag, hvort sem litið er til velferðarmála, utanríkismála eða alþjóðasamstarfs, mannréttinda, menntamála, atvinnu- og nýsköpunar og áfram má telja.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á grunngildi um frelsi einstaklingsins til orða og athafna, minni ríkisafskipti, frjáls viðskipti, lægri skatta og öflugt atvinnulíf. Þessi atriði áttu, eiga enn og munu áfram eiga erindi við almenning, þá sérstaklega þar sem sífellt er gerð krafa um hærri skatta, aukin útgjöld og aðra útþenslu hins opinbera.
Saga flokksins er góð og merkileg. Á sama tíma og við lítum yfir farinn veg er ekki síður mikilvægt að líta til framtíðar. Það er það sem mun gera Sjálfstæðisflokkinn áfram að stærsta hreyfiafli íslenskra stjórnmála; hvetja nýtt fólk til starfa innan flokksins og gera sjálfstæðismenn stolta af því að tilheyra þessum stærsta stjórnmálaflokki landsins.
Rétt er það sem áður hefur verið haldið fram í þessu blaði að uppfinningamenn hafa lengi reynt að finna upp eilífðarvélina og ekki tekist. Því er mikilvægt að festast ekki í fortíðinni, heldur þróast í takt við nýja tíma og leiða þær óumflýjanlegu breytingar sem framtíðin mun hafa með sér fremur en að óttast þær.
Við tökumst á við framtíðina með opnum hug en stöndum vörð um grunngildin sem eiga jafn mikið upp á pallborðið árið 2019 og árið 1929. Það er ekki hlutverk Sjálfstæðisflokksins að standa vörð um úreltar hugmyndir sem þóttu einu sinni góðar. Við gerum greinarmun á grunngildum og einstaka stefnumálum eða úrræðum sem einu sinni virkuðu. Um leið og við berum virðingu fyrir sögunni er mikilvægt að við mótum framtíðina.
Styrkleiki Sjálfstæðisflokksins hefur í gegnum tíðina verið sú mikla breidd af fólki sem bæði styður og starfar í flokknum, fólk á öllum aldri og úti um allt land. Innan flokksins ríkja ólík sjónarmið um ýmis mál en stefnan stendur á traustum grunni.
Í krafti fjöldans býr flokkurinn að mikilvægri reynslu þeirra sem hafa verið lengi í stjórnmálum um leið og ungt og hæfileikaríkt fólk haslar sér völl. Hvort tveggja er forsenda þess að flokkurinn vaxi og dafni.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. maí 2019.